Viðskipti innlent

Sorpa hyggur á eldsneytisframleiðslu

Sorpa og Carbon Recycling International (CRI) hafa gengið til samstarfs um að kanna kosti þess að reisa og reka verksmiðju sem framleiðir fljótandi ökutækjaeldsneyti úr úrgangi af höfuðborgarsvæðinu.

Í tilkynningu segir að verksmiðjan yrði byggð á nýrri tækni sem þróuð hefur verið af CRI til framleiðslu á endurnýjanlegu metanóli úr útblæstri og úrgangi. Endurvinnsla á úrgangi gæti dregið úr innflutningi eldsneytis og losun gróðurhúsalofttegunda, auk þess sem minni þörf yrði fyrir urðunarstað í núverandi mynd. Verksmiðjan gæti hafið framleiðslu árið 2015.

Tæknin sem verið er að þróa felst í því að leysa úrgang upp í frumefni við hita sem er hærri en bræðslumark áls. Úr úrganginum fást þannig byggingarefni metanóls. Verksmiðja sem nýtir mest allan úrgang er til fellur í móttökustöð Sorpu og er ekki endurunnið með öðrum hætti gæti framleitt allt að 50 milljón lítra af endurnýjanlegu metanóli á ári.

Lægri blöndur metanóls við bensín henta öllum venjulegum bensínbílum. Hærri blöndur henta fjölorkubílum, en þegar er nokkur fjöldi slíkra bíla á vegum landsins. Kæmi allt eldsneytið frá verksmiðjunni í stað innflutts jarðefnaeldsneytis yrði gjaldeyrissparnaður milljarðar króna á ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×