Körfubolti

NBA í nótt: Níundi sigur Miami í röð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
LeBron James og Dwyane Wade í leiknum í nótt.
LeBron James og Dwyane Wade í leiknum í nótt. Mynd/AP
Þeir LeBron James og Dwayne Wade skoruðu samanlagt 71 stig fyrir Miami Heat sem vann Portland, 107-93, í nótt og þar með sinn níunda sigur í röð í NBA-deildinni.

James var með 38 stig og ellefu fráköst en Wade með 33 stig og tíu stoðsendingar. Liðið hefur unnið 28 af fyrstu 35 leikjum sínum á tímabilinu sem er besta byrjunin í sögu félagsins.

Þetta var fyrsti leikur Miami eftir stjörnuhelgina en Chris Bosh missti reyndar af leiknum vegan fráfalls í fjölskyldu hans. Stigahæstur hjá Portland var LaMarcus Aldridge með 20 stig.

Kevin Durant skoraði 38 stig fyrir Oklahoma City sem átti magnaða endurkomu gegn Orlando og vann, 105-102. Oklahoma City var átján stigum undir í upphafi fjórða leikhluta en náði að sigla fram úr og tryggja sér sigur.

Russell Westbrook skoraði 29 stig fyrir Oklahoma city og tók tíu fráköst þar að auki. Þetta var sjöundi sigur liðsins í röð.

Tveir aðrir leikir fóru fram í deildinni í nótt. Phoenix vann Minnesota, 104-95, þar sem Grant Hill skoraði 20 stig, þar af fimmtán í seinni hálfleik.

Þá hafði LA Clippers betur gegn Sacramento, 108-100. Chris Paul var með 22 stig og níu stoðsendingar og Blake Griffin fjórtán stig og níu fráköst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×