Handbolti

Umfjöllun og viðtöl: HK - Afturelding 24-23

Elvar Geir Magnússon skrifar
Örn Ingi og félagar eiga enn eftir að vinna leik.
Örn Ingi og félagar eiga enn eftir að vinna leik.
Íslandsmeistar HK unnu dramatískan sigur á Aftureldingu í stórskemmtilegum og æsispennandi leik í Digranesi í kvöld.

HK heldur því áfram að blása á allar hrakspár því liðið er búið að vinna tvo fyrstu leiki sína. Afturelding að sama skapi hefur tapað tveim fyrstu leikjunum sínum.

Leikurinn í kvöld var ákaflega hraður og fyrirtaks skemmtun. Vel var mætt í Digranesið og var spenna fram á lokasekúndur. Þá skoraði Bjarki Már Elísson sigurmarkið af vítalínunni þegar fimm sekúndur voru eftir.

Afturelding hafði frumkvæðið nær allan leiktímann en þegar um 20 mínútur voru eftir kom vendipunkturinn. Davíð Svansson, markvörður Aftureldingar, lét þá eitthvað út úr sér sem dómararnir voru ekki ánægðir með. Davíð var sendur í sturtu en fram að því hafði hann átt góðan leik. Smári Guðfinnsson kom í markið í hans stað en náði ekki að taka upp þráðinn sem Davíð skildi eftir.

Maður leiksins var Arnór Freyr Stefánsson, markvörður HK, sem byrjar þetta mót hreint frábærlega. Hann varði 21 skot í leiknum.

Davíð Svansson: Ekki fallega sagt hjá mér

Vendipunktur leiksins í kvöld var þegar Davíð Svansson, markvörður Aftureldingar, fékk rautt spjald frá Herði Aðalsteinssyni dómara fyrir kjaftbrúk.

"Mér fannst þetta ekki rétt. Ef það er rautt á þetta finnst mér að það eigi að vera helvíti mörg rauð spjöld í deildinni í vetur. Ég get alveg viðurkennt það að þetta var ekki fallega sagt hjá mér. Þetta var samt meira sagt í mínum pirringi en beint til dómarans," sagði Davíð sem vildi ekki fara nákvæmlega út í það hvað hann sagði.

"Ég ætla að ræða við dómarann og sjá hvað hann segir í skýrslu og svona."

"Þetta var hörkuleikur, tvö klassalið og frábær skemmtun. Hann hafði upp á allt það sem góður handbolti hefur upp á að bjóða. Það voru frábærar markvörslur báðu megin og yndislegt að horfa á þetta. Svona vil ég hafa handboltaleiki."

"Eina sem maður er svekktur yfir er að við förum tómhentir úr leiknum. Maður vill allavega fá eitt stig úr vona leik."

Kristinn Guðmundsson: Væri hræsni af mér

"Við vorum í afskaplega miklum vandræðum í þessum leik. Við vorum staðir í okkar aðgerðum og ólíkir því sem við höfum verið að gera síðustu vikurnar," segir Kristinn Guðmundsson, þjálfari HK.

"Við vorum að spila á móti hörkuliði og áttum í miklum vandræðum. Þeir voru sterkir varnarlega og spiluðu taktíkina sína vel. Davíð var frábær í markinu og leikurinn breytist mikið þegar hann fær þetta rauða spjald."

"Liðið hefur trú og þökk sé Arnóri í markinu þá lönduðum við þessu."

Arnór hefur verið hreint frábær í tveimur fyrstu leikjum tímabilsins.

Kristinn viðurkennir að rauða spjaldið hafi verið algjör vendipunktur í leiknum. "Það væri hræsni af mér að segja að svo hafi ekki verið. Hvað átti sér stað veit ég ekkert um. Davíð er frábær markvörður og við nýttum okkur það sem við áttum möguleika á að nýta okkur og urðum áræðnari í kjölfarið. Við fórum að spýta í lófana og keyra upp hraðann."

"Við tökum öllum sigrum fagnandi og við töluðum um það fyrir þennan leik að það er ekkert sjálfsagt í handbolta. Þetta var rosalega erfið fæðing maður og ég veit ekki hvað ég reyndi að nota af bekknum. Við náðum allavega að klára þetta í restina."

Margir tala um HK sem spútniklið deildarinnar en fyrir mót var liðinu spáð neðsta sæti þrátt fyrir að það sé ríkjandi Íslandsmeistari.

"Við tökum þessu með hæfilegum húmor. Okkur er spáð falli og vinnum svo æfingaleik, meistarar meistaranna, sem er svona hæfilega alvarlegur. Svo vinnum við Val og þá heyrði ég talað um að við værum eitthvað spútniklið. Þetta er bara önnur umferð. Við höldum okkur á jörðinni. Ef við týnum okkur í því hvað aðrir segja um okkur þá lendum við í vandræðum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×