Veiði

Haffjarðará: Flott veiði og mikið af fiski í ánni

Trausti Hafliðason skrifar
Lax stekkur í Haffjarðará.
Lax stekkur í Haffjarðará. Mynd / Jökull Snæbjarnarson
Veiði í Haffjarðará hefur gengið ótrúlega vel í sumar miðað við þá þurrkatíð og lægð sem almennt hefur verið í laxveiðinni. Einar Sigfússon, eigandi árinnar, segir í samtali við Veiðivísi að síðasti sólarhringur hafi gefið 12 laxa og áin sé að detta í 1.000 laxa í heildina.

"Þetta hefur verið mjög gott hjá okkur í sumar, það er eiginlega ekki hægt að segja annað," segir Einar. "Það er mikið af laxi í ánni og þeir eru enn að týnast inn. Það komu flóð hérna fyrir svona tíu dögum og þá dalaði veiðin aðeins enda áin illveiðanleg í nokkra daga en síðan hefur þetta aftur tekið kipp upp á við. Núna sjáum við þónokkuð af stórlaxi, svona á bilinu fjögur til sex kíló en hann getur verið tregur að taka - svona haustfiskur."

Einar segir erfitt að skýra hvers vegna veiðin hafi gengið svona vel í Haffjarðará á meðan flestar aðrar ár eru í lægð. Hins vegar telji hann líklegt að kenna megi köldu voru í fyrra um það hversu veiðin hefur í heildina verið dræm á landinu öllu.

"Ég reikna með að við endum í þetta 1.100 til 1.200 löxum," segir Einar. Ef það gengur eftir verður veiðin í sumar ein sú besta frá upphafi í Haffjarðará því frá árinu 1974 hefur hún einungis sex sinnum farið yfir 1.100 laxa. Árið 2008 var metár, en þá veiddust 2.010 laxar í ánni.

Þó heimilt sé að veiða átta stangir er aðeins veitt á sex í Haffjarðará. Einar segir að þannig hafi það verið í sextán ár og þannig verði það áfram enda gefist vel. Uppselt er í ána á hverju ári og sömu menn koma ár eftir ár enda hefur áin nokkra sérstöðu á Íslandi. Í henni hefur aldrei verið stunduð fiskrækt og eingöngu treyst á náttúrulegt klak til viðhalds stofns og veiði.

"Við höfum hjálpað ánni með öðrum hætti en að sleppa í hana seiðum. Við höfum lagt þónokkuð á okkur við halda bæði mink og sel í skefjum," segir Einar.

Glöggir lesendur hafa væntanlega tekið eftir því að Einar var í upphafi titlaður sem eigandi árinnar. Það helgast af því að veiðirétturinn í Haffjarðará fylgir ekki landi heldur er hann sérmetin fasteign.

trausti@frettabladid.is






×