Miðjumaðurinn Rósa Hauksdóttir, sem leikið hefur með Fram undanfarin tvö ár, er gengin í raðir Aftureldingar. Þá hefur Telma Hjaltalín Þrastardóttir snúið á heimaslóðir eftir dvöl hjá Val.
Rósa er uppalin hjá Val en spilaði með KR á árunum 2006-2008. Krossbandsslit hélt henni frá keppni í langan tíma en undanfarin tvö ár spilaði hún með liði Fram í 1. deild. Hún var markahæsti leikmaður liðsins í sumar með níu mörk en Fram beið lægri hlut í umspili um sæti í efstu deild.
Rósa er annar leikmaðurinn sem Afturelding fær til liðs við sig á þremur dögum. Hin eldfljóta Telma Hjaltalín Þrastardóttir samdi nýverið við uppeldisfélag sitt. Telma spilaði fjórtán leiki með Valskonum síðastliðið sumar, skoraði fjögur mörk, en í flestum þeirra kom hún inná sem varamaður.
Telma, sem er fædd árið 1995, á að baki 36 landsleiki með með 17 ára og 19 ára landsliðum Íslands.
Afturelding hafnaði í sjöunda sæti efstu deildar kvenna síðastliðið sumar. Liðið ætlar sér að styrkja sig enn frekar að því er fram kemur á heimasíðu félagsins.
Rósa og Telma í raðir Mosfellinga
Kolbeinn Tumi Daðason skrifar

Mest lesið





Kvartar undan boltanum eftir tuttugu skot framhjá
Enski boltinn





Stefán Teitur og félagar mæta Aston Villa
Enski boltinn