Gagnrýni

Ofsafengin hópatriði

Leikurinn í Vesalingunum einkennist af ofsahraða, segir í dómi Elísabetar Brekkan. Sagan um einstæðu móðurina, sem kom barninu sínu fyrir hjá groddalegum og gráðugum hjónum, meðan hún sjálf þrælaði fyrir því í verksmiðju og lenti svo á glapstigum vændisins, lendi í skugga ofuráherslunnar á hópsenur.
Leikurinn í Vesalingunum einkennist af ofsahraða, segir í dómi Elísabetar Brekkan. Sagan um einstæðu móðurina, sem kom barninu sínu fyrir hjá groddalegum og gráðugum hjónum, meðan hún sjálf þrælaði fyrir því í verksmiðju og lenti svo á glapstigum vændisins, lendi í skugga ofuráherslunnar á hópsenur. Mynd/Þjóðleikhúsið
Vesalingarnir eftir Alain Boublil og Claude-Micher Schönberg.

Sýnt í Þjóðleikhúsinu.

Leikstjóri: Selma Björnsdóttir, tónlistarstjórn: Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, leikmynd: Finnur Arnar Arnarson, búningar: María Th. Ólafsdóttir, lýsing: Lárus Björnsson og Ólafur Ágúst Stefánsson. Leikarar: Þór Breiðfjörð, Valgerður Guðnadóttir, Margrét Vilhjálmsdóttir, Þórhallur Sigurðsson, Egill Ólafsson, Vigdís Hrefna Pálsdóttir, Arnbjörg Hlíf Valsdóttir, Jóhannes Haukur Jóhannesson og fleiri.

Stórir hópar þeytast um í gleði, sorg, stríði og friði. Fallegar litlar stúlkur heilla áhorfendur. Undurfögur klæði, lifandi ljós, svarthvítar hreyfimyndir í bakgrunni.

Það er öllu til tjaldað á stóra sviði Þjóðleikhússins um þessar mundir. Síðastliðinn föstudag var frumsýndur söngleikurinn Vesalingarnir sem byggður er á skáldsögu Victors Hugo.

Söngleikir eru um margt furðuleg fyrirbæri. Höfundar detta niður á algera klassík, eins og Oliver Twist og Vesalingana, og svo er skutlast inn í atburðarásina með aðferðum óperettunar. Raunverulegur vilji höfundar vill oftast týnast á leiðinni.

Verkið tekur um þrjá tíma í flutningi en leikurinn einkennist af ofsahraða. Sagan um einstæðu móðurina sem kom barninu sínu fyrir hjá groddalegum og gráðugum hjónum, meðan hún sjálf þrælaði fyrir því í verksmiðju og lenti svo á glapstigum vændisins, lendir í skugga ofuráherslunnar á hópsenur.

Leikhópurinn í heild sinni skilaði leikatriðum vel og mörg þeirra voru útfærð skemmtilega myndrænt, eins og þegar lögreglustjórinn varpar sér í Signu.

Strokufanginn Jean Valjean, í hlutverki borgarstjórans og verksmiðjueigandans, er fulltrúi hins fallna sem snýr sér til betra lífs. Þór Breiðfjörð söng þetta hlutverk og heillaði alla, ekki síst forsetafrúna sem stökk á fætur þegar honum var fagnað í lokin.

Móðir Cosette litlu sem varð að láta barnið frá sér lék Valgerður Guðnadóttir og söngur hennar um örlögin og lífið var einstaklega heillandi. Atburðarásin lendir aftur á móti í eins konar atriðaklippingu í stað þess að fljóta eðlilega.

Hjónin Thénardier sem Margrét Vilhjálmsdóttir og Laddi ljáðu lífi voru frábær og söng þeirra haldið innan þeirra marka sem þeirra skrumskældu og fyndnu persónur réðu við.

Vigdís Hrefna og Arnbjörg Hlíf voru ágætar andstæður. Vigdís sem hin fróma Cosette og Arnbjörg sem Éponine sem eins og Ronja ræningjadóttir verður algóð þó að pabbi hennar hafi verið ræningi.

Jóhannes Haukur Jóhannesson sýndi einnig fantagóðan leik og var kraftmikill í söng sínum í hlutverki byltingarforingjans Enjolras.

Egill Ólafsson var eins og sniðinn í hlutverk hins illræmda lögreglustjóra og hvíldi áberandi best í söng sínum þar sem ekki var einn einasti tónn uppskrúfaður eins og virtist vera tilhneigingin í hópatriðunum, að skrúfa sönginn upp úr öllu valdi, upp úr því sem eyru hlustenda réðu við.

Samspil hljómsveitarinnar í gryfjunni og söngvara á sviðinu virtist ekki í jafnvægi. Það má þó auðveldlega laga. Íslenskan var erfið. Það virtist sem of mörgum atkvæðum væri hrúgað á hvern hljóm þannig að áherslur urðu nokkuð furðulegar. Atburðarásinni fleygir fram í orðinu og því mikilvægt að skilja hvað sagt er.

Þó söngatriðin hafi verið óeðlilega hátt stillt þá límast lögin þó við heilann. Það verða því ugglaust margir fleiri en Susan Boyle sem eiga eftir að söngla tóna úr þessu verki á næstunni.

Elísabet Brekkan

Niðurstaða: Sagan sjálf féll nokkuð í skugga ofsafenginna hópatriða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×