Veiði

Hrútafjarðará: Viðsnúningur í kjölfar rigninga

Kristján Hjálmarsson skrifar
Í Hrútu. Svona leit Réttarfoss og Réttarstrengur, einn besti veiðistaður Hrútafjarðará, út í byrjun júlí. Töluvert af vatni hefur bæst í ána eftir rigningar síðustu daga.
Í Hrútu. Svona leit Réttarfoss og Réttarstrengur, einn besti veiðistaður Hrútafjarðará, út í byrjun júlí. Töluvert af vatni hefur bæst í ána eftir rigningar síðustu daga. Mynd/Trausti
"Maður lifandi! Þetta hefur verið skelfilegt." segir Gunnar Sæmundsson, bóndi í Hrútatungu og félagi í veiðifélagi Hrútafjarðar- og Síkár.

Þurrkar síðustu mánaða hafa valdið því að lítil veiði hefur verið í Hrútafjarðará á þessu ári og þann 18. júlí síðast liðinn voru aðeins 20 laxar komnir á land. Í fyrra veiddust 318 laxar, 503 laxar árið 2010 og 647 laxar árið 2009.

"Síká, sem er mjög lítil á, rétt náði að renna. Þetta eru mestu þurrkar sem ég hef séð og ég hef fylgst lengi með," segir Gunnar.

Töluvert hefur þó rignt síðustu daga, við mikla gleði bændanna fyrir norðan. "Það rigndi mjög mikið í fyrradag, norðanrigning, í fyrrinótt og það rigndi enn þegar ég fór að heiman í hádeginu í gær," segir Gunnar sem býst við að nú fari fjörið að færast í aukana í Hrútarfjarðará enda hafi bæst töluvert í ána.

"Nú vonumst við til að það fari að verða líf og fjör í ánum."

Gunnar segir að þó lítið hafi verið af vatni í Hrútarfjarðará hafi verið töluvert um bleikju. "Það voru útlendingar að veiðum hér fyrir skömmu og þeir fengu sextán vænar bleikjur og þrjá laxa. Laxinn hefur verið neðst í ánni og hefur bara ekki lagt í að synda upp í hana."

Árni Jón Eyþórsson, veiðivörður í Hrúta, segir að eftir rigninar síðustu daga sé komið vel af vatni í ána og aflinn sé farinn að aukast. "Það voru komnir 39 laxar á hádegi í dag og komnar hátt í sextíu bleikjur," segir Árni Jón. Það þýðir að um 19 laxar hafa komið að landi á síðustu fimm dögum.

"Það er orðið býsta gott vatnið í Hrútu og ég talaði við veiðimann sem sagði að það væri töluvert að ganga upp ána núna. Það er víða sem þetta fer rólega af stað en þetta getur lagast þegar líður á sumarið."






×