Sport

Hjólreiðakappinn Wiggins varð fyrir bíl

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bradley Wiggins er þjóðhetja í Bretlandi.
Bradley Wiggins er þjóðhetja í Bretlandi. Nordic Photos / Getty Images
Bradley Wiggins, margfaldur Ólympíumeistari og sigurvegari Tour de France, varð í gær fyrir bíl þegar hann var að hjóla nálægt heimili sínu í Lancashire í Bretlandi.

Wiggins er 32 ára gamall og varð fyrir bíl sem var að keyra út á veginn frá bensínstöð. Skellurinn mun hafa verið nokkuð harður og er talið að hann hafi rifbeinsbrotnað við höggið.

Talsmenn hans segja þó að meislin séu ekki alvarleg og að hann muni jafna sig fljótt og vel. Hann gisti þó á sjúkrahúsi til öryggis í nótt.

Wiggins varð þjóðhetja í Bretlandi þegar hann vann Tour de France í sumar. Hann fylgdi því eftir með gulli á Ólympíuleikunum í London en hann hefur alls unnið til sjö verðlauna á Ólympíuleikum - þar af eru fjögur gull.

Samkvæmt frétt The Telegraph mun ökumaður bifreiðarinnar hafa látið þessi orð falla þegar hún gerði sér grein fyrir hver hafi átt í hlut:

„Ég trúi þessu ekki. Ég keyrði á Bradley Wiggins, af öllu fólki."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×