Veiði

Helgarviðtal: Skógarbjörninn stærstu verðlaunin

Þórður skaut þennan glæsilega skógarbjörn fyrir tveimur árum.
Þórður skaut þennan glæsilega skógarbjörn fyrir tveimur árum.
Það er óhætt að segja að Þórður Örn Kristjánsson sé einn öflugasti veiðimaður landsins. Hann byrjaði að veiða sér til matar í Þingvallavatni þegar hann var sex ára og byrjaði að kasta flugunni átta ára. Síðan þá hefur hann veitt í öllum helstu vötnum og ám landsins, skotið á nánast allt sem veiða má þar á meðal stóran skógarbjörn í Kanada. Þórður, eða Dotti eins og hann er oftast kallaður, er líka mikill náttúruáhugamaður en hann er fyrsti heyrnleysinginn sem klárar mastersgráðu í líffræði frá Háskóla Íslands.

Hvenær byrjaðir þú að veiða á stöng og hvað varð þess valdandi að þú byrjaðir að veiða?

Ég byrjaði strax og ég mögulega gat að veiða mér til matar á orm í Þingvallavatni um 6 ára aldurinn. Pabbi lét mig hafa stöng og sagði mér að veiða fisk á grillið. Murtan var góð og seðjandi, eftir það var ekki aftur snúið.

Hvað var fyrsta veiðivatnið sem þú stundaðir?

Þingvallavatn er fyrsta vatnið og er enn algjör Paradís. Allskonar fiskar og botngerði (líffræðingakvót) Stórmerkilegt vatn og bleikjuafbrigðin þróast fyrir augunum á okkur). Elliðavatnið var svo stundað talsvert ásamt Helluvatni (þau tengjast) á unglingsaldri eða þar til annarskonar hrygnur náðu athyglinni frá mér.

Á hvað veiddir þú og á hvað veiðir þú?

Ég veiði nákvæmlega á það sem gefur best. Finnst ekkert skemmtilegast að slorast með makríl eða orm en ef það gefur þá er það málið. Ég vil fá fisk, stór plús að fá hann á flugu eða á þurrflugu en það skiptir öllu að koma heim án króksins í analnum.

Hvenær byrjaðir þú að veiða á flugu?

Böðlaði þessu út og flækti þegar ég var 8 ára í Laugardalsá í Ísafjarðardjúpi. Pabbi var ekki sáttur og setti mig á námskeið hjá Kolbeini Grímssyni úr Ármótum og kenndi hann mér kasttækni. Hann ásamt Jóni Inga Ágústsyni kenndi mér síðan fluguhnýtingar sem hafa sparað mér sirka milljón krónur í festur og rugl gegnum árin.

Fyrsti flugufiskurinn?

Einhver tittur úr Elliðavatni og svo örugglega –2 punda bleikjur frá Þingvöllum. Fyrsti alvöru flugufiskurinn var 10 punda lax úr Mýrarkvísl á Francis þegar ég var 10 ára (sem ég hnýtti að sjálfsögðu). Stærðirnar á fiskunum hafa rauninni minnkað gegnum árin þar sem maríulaxinn var 92 cm. Ég var þá með orm og flotholt í Laugardalsvatni orðinn 7 ára gamall. Skemmtilegustu fiskarnir hafa þó verið urriðinn úr Veiðivötnum á flugu, mikill kraftur og grimmd í þeim.

Eftirminnilegasti fiskurinn?

Félagi minn Thomas Már Gregers setti í fisk seinasta haust sem straujaði línuna og lét okkur taka hálf maraþon niður ána áður en við lönduðum þessum 4 punda snilling sem var húkkaður í sporðinn. Þetta kenndi manni að vera skeptískur á veiðisögur manna sem misstu RISA fiska í eins aðstæðum. Annar mjög eftirminnilegur er urriði sem ég fékk í Laxá í Þingeyjarsýslu. Ég fékk einhvern titt á fluguna og þegar ég var að draga hann inn til að losna kemur urriði á eftir honum og gleypti hann. Nokkuð stór urriði sem ég landaði og gerði að, þá var í honum nokkur síli og svo hálfmeltur andarungi. Þetta eru mikil rándýr urriðarnir í Þingeyjarsýslunni.

Veiða/sleppa?

Hvet menn til að sleppa sem mestu, þá eru meiri líkur á að ég fái fleiri fiska í frystinn minn fyrir næsta ár. Síðsumars er fiskurinn samt oft orðinn vondur á bragðið og það að drepa hann er bara tilgangsleysi. Hugsa áður en menn rota. Þetta er bara val hvers og eins, menn sem veiða einhverja 100 laxa á ári hafa ekkert við það að gera að drepa þá alla, 5-10 laxar í frysti er nóg fyrir flesta.

Uppáhalds flugurnar

Hnýti allan fjandann og prufa en Green Highlander gaf mér fyrsta flugufiskinn og þó nokkra laxa svo ég vel hana. Francis gaf mér fyrsta flugulaxinn en hún er í skammarkróknum því hún er bæði ljót og ógeðslega leiðinleg að hnýta. Í silunginn finnst mér langskemmtilegast að veiða á nobblera og aðrar maribou flugur, líflegar í vatni, gaman að hnýta þær og gott að kasta þeim. Peocockinn fer samt alltaf fyrst undir þegar verið er að renna fyrir bleikju, gott að byrja á henni og vinna sig þaðan.

Áttu þér fasta punkta í veiðinni, vorveiði, haustveiði, sérstakar ár eða vötn?

Ég á mér fasta skotveiði og stangveiðipunkta. Í stangveiðinni stendur uppúr vikuferð í Veiðivötn fyrst með Thomasi Má, Odda og Grétari sem hefur verið minn aðal veiðifélagi svo tekur beint við ferð með frændum mínum Erling Valdimarssyni og Unnari Guðjónssyni. Þetta hefur gengið á í 5 ár og alltaf mikið ævintýri. Suðursveitin, tek ég um mánaðarmótin sem tekur um 6-7 daga á hreindýr, fisk og gæsaveiðar. Toppurinn á árinu er að hitta stórfjölskylduna á Smyrlabjörgum og murka lífið úr einhverjum gæsum, fiskum og öndum sem hafa ekkert gert af sér. Fer einnig alltaf nokkrum sinnum á sumri í Stíflisdalsvatn og á Þingvelli en það eru bara dagsferðir þegar aðstæður og tími fara saman. Annars eru ferðirnar flestar óplanaðar en detta inn þegar líður á sumrið.

Hvar á að veiða í sumar?

Veiðivötnin verða tækluð í viku eins og sagt var frá áður. Einnig er ég og Grétar Þorsteinsson í veiðiklúbbnum Hermenn sem er samasafn af frábærum félögum Hermanns heitins Valgarðssonar FH-ings sem veiða saman á hverju sumri. Við tökum Kolku í ár og stefnum á að 2 eða 3-falda laxakvótann frá því í fyrra!! Svo er allskonar sprænur sem maður þarf að reyna kíkja í. Norðurá, Haffjarðará, Laxá í Aðaldal og sú á Ásum kæmu sterklega til greina ef ég ætti olíulind eða væri heimsþekktur söngvari.

Álit á þróun stangveiði á Íslandi; verð á veiðileyfum, menning á veiðistað?

Mér þykir laxveiðar hafa misst stóran hluta sjarmans þar sem leyfið er orðið hrikalega dýrt og menn skikkaðir til að kaupa gistingu og mat á lúxushóteli. Það er lítil hvíld í því að fara í sæmilega laxveiðiá þar sem dagurinn kostar tugi þúsunda, berja ána allan veiðitímann því menn tíma ekki að slaka á, éta og drekka svo eins mikið og þeir geta uppá Veiðihótelinu til þess eins aðp vakna fyrir allar aldir og rífa sig út næsta dag. Laxveiðar á Íslandi eru nú að stærstum hluta til fyrir útlendinga og ríka fólkið. Sem betur fer eigum við mikið af skemmtilegum silungasvæðum þar sem verði er stillt í hóf einnig má finna lausa daga í lax með stuttum fyrirvara á afslætti sem geta verið gullsígildi sérstaklega ef boðið er uppá að sleppa gistingu og mat. Það er samt kostur að ég tel að veiðisiðferði hafi hækkað. Þá á ég við að menn virði hvorn annan betur og það að „húkka" eða beita öðrum brögðum er á hröðu undanhaldi.

Eftir hverju ertu fyrst og fremst að sækjast þegar þú ferð að veiða?

Ég sækist rauninni eftir samvinnunni með hundunum mínum í skotveiðinni. Ég á bæði labrador og Enskan setter og báðir eru í topp-class veiðihundar sem fáir geta státað af. Í stangveiðinni vil ég bara fá frið og landa nokkrum kvikindum á grillið. Þoli ekki stress í veiðiferðum, það er algjört tabú þar sem menn eiga vera leika sér og ná sem mestri andlegri hvíld á veiðunum. Hef oft sagt að maður kynnist ekki fólki fyrr en maður hefur farið með því á veiðar, þar fyrst kemur persónuleikinn í ljós.

Áttu þér fastan hóp veiðifélaga?

Ég á mjög marga félaga og veiði með mörgum enda mismunandi veiðar stundaðar allt árið um kring. Nýverið stofnuðum við feðgar Kristján Þórðarson veiðifélagið „Doktorarnir, nú og tilvonandi" ásamt tengdsonum pabba Bjarna Pálssyni, Örnólfi Þorvarðarsyni, yngri bróður mínum Þórarni Má og bræðrunum Arnari Frey Sigmundssyni og Þórarni Kristmundssyni. Er þetta skot- og stangveiðifélag og veiðum við að sjálfsögðu eingöngu á Doktorflugur. Svo er það veiðifélagið Hermenn sem samanstendur af vinum Hermanns stórveiðimanns Valgarðssonar en þetta félag mun láta til sín taka á bökkum veiðivatna landsins svo um munar.

Veiðisagan...?

Ein stutt frá Veiðivötnum. Vorum búnir að veiða í 2 daga í leiðindaveðri og ekkert fengið merkilegt. Áttum eftir hálfan dag og menn voru enganveginn að nenna því að klára tímann, 2 af 4 yfirgáfu svæðið hálf kjökrandi vegna fiskleysis og Grétar meiri að segja búin að fara úr vöðlunum og búin að gefast upp. Ég var þó ekki á því að hætta fyrr en tíminn myndi klárast og þegar örfáar mínútur voru eftir af veiðitímanum tók 8 punda hængur. Erfitt að landa honum þarna og hann náði m.a að festa línuna í stórgrýti svo Grétar varð að vaða á strigaskónum til að losa en þetta hafðist og bjargaði alveg ferðinni. Eftir þetta minnir maður sig alltaf á þennan hæng þegar lítið er að gerast og menn komnir að því að pakka saman. Það er lengi von á ævintýri.

Þú ert með veiðidellu á háu stigi, bæði skot- og stangveiði? Hvor veiðin heillar þig meira?

Skotveiðin hefur alltaf heillað mest en það er meira útaf samvinnu hunds og manns. Það er rosalega gefandi að veiða með hundi sem menn hafa þjálfað upp og skilar sínu verki. Nú er rjúpnastofninn á niðurleið í sinni náttúrulegri sveiflu og veiðidagar örfáir en samt eigum við gauk í horni sem mætti nýta. Ég hef aldrei skilið hversvegna vinsælasta sporting-bráð Evrópu er bönnuð hér. Þetta er hrossagaukur sem er í gríðarlegum mæli hér snemma á haustin. Þetta er hlutur sem þarf að rannsaka þar sem það virðist vera meira en nægur stofn til að veiða úr.

Þú ert líka með mikinn náttúruáhuga og fyrsti heyrnleysinginn sem klárar masterspróf í líffræði. Hefur heyrnleysið aftrað þér í veiðinni?


Það er enginn heyrnarlaus þegar menn eiga fjórfættan félaga sem fylgist með ölllum á staðnum. Kolkuós Gjóla labradorinn okkar hefur reddað mörgum „lúrum" gegnum tíðina á gæsaveiðum. Ég myndi aldrei skilja Gjólu eftir í skotveiðiferð. Ég hef samt lent í því að liggja yfir refaæti heila nótt og ekkert gerðist, þegar ég kom heim var mér bent á að síminn minn pípti á hálfs mínútna fresti, það var því skiljanlegt að rebbi léti ekki sjá sig. Í stangveiðinni nýta menn ekkert heyrnina að ráði og stundum tel ég það hreinlega vera kost að vera heyrnarlaus þar!! Dæmi um Elliðárnar, það eru endalaus læti í bílum og fólki þarna í kring en í mínum huga er bara friður og ró sem er það sem ég tel að flestir sækist eftir þegar farið er til veiða.

Þú veiddir skógarbjörn. Er það toppurinn í veiðinni?

Ég hef skotið skógarbjörn, villisvín, krónhjört, rádýr og hreindýr. Ásamt öllu því sem er í boði á Íslandi. Björninn er án efa flottasta „trophy-ið" og var mjög spennandi. Aðal ævintýrið er þó eftir og það er nær en menn gruna. Hreindýr og bleikja á Grænlandi er víst engu lík og þangað stefni ég í ágúst með „Dokturunum".






×