Lífið

Ætlar ekki að brýna hnífana

Ný plata komin út Bubbi Morthens er gestadómari á úrslitakvöldi Hæfileikakeppni Íslands en hann gaf út sína 27. sólóplötu í gær, Þorpið.Fréttablaðið/stefán
Ný plata komin út Bubbi Morthens er gestadómari á úrslitakvöldi Hæfileikakeppni Íslands en hann gaf út sína 27. sólóplötu í gær, Þorpið.Fréttablaðið/stefán
„Ég þarf ekki að taka mig mjög hátíðlega því ég held að ég sé meira hugsaður sem skrautfjöður að þessu sinni," segir tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens, sem sest í dómarasætið á nýjan leik á úrslitakvöldi Hæfileikakeppni Íslands í maí.

Bubbi er alls ekki ókunnur dómarastarfinu og fór mikinn, bæði sem dómari í íslensku Idol-keppninni og í raunveruleikaþættinum Bandinu hans Bubba. Bubbi kveðst vera aðdáandi sjónvarpsefnis á borð við þetta, en úrslitakvöldið verður í beinni útsendingu á Skjá einum 4. maí. „Þetta er skemmtilegt form og svona fjölskylduefni. Það er gaman að því," segir Bubbi sem hefur aðeins verið að horfa á undanfarna þætti til að búa sig undir hlutverkið. Hann ætlar að fara mjúkum höndum um keppendur, en þó vera hreinskilinn eins og honum einum er lagið.

„Það er engin ástæða til að brýna hnífana enda er þetta úrslitaþátturinn og þessir krakkar búnir að sýna sig og sanna. Dómarnefndin er líka extra jákvæð í þessum þætti að mínu mati."

Þegar Fréttablaðið náði tali af Bubba var hann að fagna útgáfu plötunnar Þorpið, en hún kom út í gær. Platan er 27. sólóplata hans, en Bubbi stefnir á halda útgáfutónleika í júní.

„Þetta er lífræn plata, tekin upp í beinni með öllum hljóðfærum. Hún kallast á við plöturnar Lífið er ljúft og Sögur af landi en ég hef ekki gert plötu á borð við þessa í langan tíma," segir Bubbi, en ásamt honum á plötunni er sveitin Sólskuggarnir með Kristjönu Stefánsdóttur. - áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×