Tornæmt íhald? Ólafur Þ. Stephensen skrifar 31. ágúst 2012 06:00 Innanríkisráðherrann, Ögmundur Jónasson, er annar ráðherrann í vinstristjórninni sem kærunefnd jafnréttismála úrskurðar að hafi brotið jafnréttislögin með því að ráða karl fremur en konu í opinbert embætti. Héraðsdómur hefur svo staðfest þá niðurstöðu hvað varðar ráðningu Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu. Kærunefndin telur að kona sem sótti um embætti sýslumanns á Húsavík hafi verið jafnhæf eða hæfari í sjö af átta þáttum sem voru lagðir til grundvallar skipun í embættið en karlinn sem var skipaður í það. Hún hafi því átt að fá starfið, enda séu konur færri en karlmenn í hópi sýslumanna. Þessu er Ögmundur Jónasson ekki sammála. Hann segir keikur að þættir á borð við starfsreynslu, menntun, fræðistörf og fleiri skipti ekki öllu máli við svona ráðningu, heldur komi líka til matskenndir þættir, sem hann og ráðuneytið hafi þurft að leggja mat á. Það hafi verið gert fullkomlega málefnalega. Þessari málsvörn hafa menn áður reynt að beita og bent á – með nokkrum rétti – að bæði jafnréttislögin og þau viðmið sem kærunefnd jafnréttismála starfar eftir einskorðist við mat á formlegri og skjalfestri hæfni einstaklinga, en taki ekkert mið af matskenndum þáttum. Kærunefndin geti til dæmis ekki tekið umsækjendur um störf í viðtöl til að meta frammistöðu þeirra. Þessi rök hafa til þessa skipt Ögmund Jónasson, Jóhönnu Sigurðardóttur og flokkssystkin þeirra beggja litlu. Á grundvelli úrskurða kærunefndarinnar, sem Jóhanna beitti sér síðar fyrir að yrðu bindandi, hafa þau fellt þunga dóma yfir forverum sínum sem stigu í þetta sama spínat. Þannig sagði Ögmundur í þingræðu 15. apríl 2004, rétt eftir að kærunefndin hafði komizt að þeirri niðurstöðu að þáverandi dómsmálaráðherra hefði brotið jafnréttislög: „Það blasir við að ráðherrar í ríkisstjórn verði settir á skólabekk til að læra jafnréttislögin. Ég ætla að gera það að tillögu minni að hæstvirtur félagsmálaráðherra sjái um að þeir tornæmustu í jafnréttisfræðunum fái sérkennslu." Fín tillaga og enn í fullu gildi. Ögmundur hefur líka gagnrýnt að jafnréttisbaráttan sé ekki nógu róttæk. Í þingræðu um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum árið 1998 vakti hann athygli á að kvennahreyfingin hefði áður lagt áherzlu á „mjög róttæk sjónarmið" eins og „veltum valdastólunum." Síðan hefðu áherzlurnar breytzt og kvótakerfið haldið innreið sína í kvennabaráttuna. „Áherslan varð fremur á að tryggja að jafnmargar konur sætu á þessum sömu valdastólum og karlar, sem menn hirtu svo síður um að velta. Þannig gerðist þessi barátta að mínum dómi íhaldssamari," sagði Ögmundur. Ekki hefur orðið vart við að Ögmundur hafi reynt að velta neinum valdastólum eftir að hann komst sjálfur í einn slíkan. Og hann hafnar því alveg fjallbrattur að hann hafi átt að framkvæma það kvótakerfi sem felst í jafnréttislögunum. Er hann þá ekki enn íhaldssamari en fólkið sem berst fyrir jafnari kynjahlutföllum í stjórnunarstöðum hjá ríkinu? Um framgöngu ráðherrans má segja það sem hann sagði sjálfur í áðurnefndri þingræðu um jafnréttismál 1998: „Staðreyndin er sú að alltof oft fara ekki saman orð og athafnir og það á svo sannarlega við í þessum efnum." Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Ólafur Stephensen Skoðanir Mest lesið Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Forréttindablinda strákanna í Viðskiptaráði Sonja Ýr Þorbergsdóttir Skoðun Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun
Innanríkisráðherrann, Ögmundur Jónasson, er annar ráðherrann í vinstristjórninni sem kærunefnd jafnréttismála úrskurðar að hafi brotið jafnréttislögin með því að ráða karl fremur en konu í opinbert embætti. Héraðsdómur hefur svo staðfest þá niðurstöðu hvað varðar ráðningu Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu. Kærunefndin telur að kona sem sótti um embætti sýslumanns á Húsavík hafi verið jafnhæf eða hæfari í sjö af átta þáttum sem voru lagðir til grundvallar skipun í embættið en karlinn sem var skipaður í það. Hún hafi því átt að fá starfið, enda séu konur færri en karlmenn í hópi sýslumanna. Þessu er Ögmundur Jónasson ekki sammála. Hann segir keikur að þættir á borð við starfsreynslu, menntun, fræðistörf og fleiri skipti ekki öllu máli við svona ráðningu, heldur komi líka til matskenndir þættir, sem hann og ráðuneytið hafi þurft að leggja mat á. Það hafi verið gert fullkomlega málefnalega. Þessari málsvörn hafa menn áður reynt að beita og bent á – með nokkrum rétti – að bæði jafnréttislögin og þau viðmið sem kærunefnd jafnréttismála starfar eftir einskorðist við mat á formlegri og skjalfestri hæfni einstaklinga, en taki ekkert mið af matskenndum þáttum. Kærunefndin geti til dæmis ekki tekið umsækjendur um störf í viðtöl til að meta frammistöðu þeirra. Þessi rök hafa til þessa skipt Ögmund Jónasson, Jóhönnu Sigurðardóttur og flokkssystkin þeirra beggja litlu. Á grundvelli úrskurða kærunefndarinnar, sem Jóhanna beitti sér síðar fyrir að yrðu bindandi, hafa þau fellt þunga dóma yfir forverum sínum sem stigu í þetta sama spínat. Þannig sagði Ögmundur í þingræðu 15. apríl 2004, rétt eftir að kærunefndin hafði komizt að þeirri niðurstöðu að þáverandi dómsmálaráðherra hefði brotið jafnréttislög: „Það blasir við að ráðherrar í ríkisstjórn verði settir á skólabekk til að læra jafnréttislögin. Ég ætla að gera það að tillögu minni að hæstvirtur félagsmálaráðherra sjái um að þeir tornæmustu í jafnréttisfræðunum fái sérkennslu." Fín tillaga og enn í fullu gildi. Ögmundur hefur líka gagnrýnt að jafnréttisbaráttan sé ekki nógu róttæk. Í þingræðu um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum árið 1998 vakti hann athygli á að kvennahreyfingin hefði áður lagt áherzlu á „mjög róttæk sjónarmið" eins og „veltum valdastólunum." Síðan hefðu áherzlurnar breytzt og kvótakerfið haldið innreið sína í kvennabaráttuna. „Áherslan varð fremur á að tryggja að jafnmargar konur sætu á þessum sömu valdastólum og karlar, sem menn hirtu svo síður um að velta. Þannig gerðist þessi barátta að mínum dómi íhaldssamari," sagði Ögmundur. Ekki hefur orðið vart við að Ögmundur hafi reynt að velta neinum valdastólum eftir að hann komst sjálfur í einn slíkan. Og hann hafnar því alveg fjallbrattur að hann hafi átt að framkvæma það kvótakerfi sem felst í jafnréttislögunum. Er hann þá ekki enn íhaldssamari en fólkið sem berst fyrir jafnari kynjahlutföllum í stjórnunarstöðum hjá ríkinu? Um framgöngu ráðherrans má segja það sem hann sagði sjálfur í áðurnefndri þingræðu um jafnréttismál 1998: „Staðreyndin er sú að alltof oft fara ekki saman orð og athafnir og það á svo sannarlega við í þessum efnum."