Veiði

Laxveiði of erfið fyrir hjartað

Kristján Hjálmarsson skrifar
Stjáni Ben með einn vænan úr Tungulæk.
Stjáni Ben með einn vænan úr Tungulæk. Mynd/Nick Reygaert
Kristján Benediktsson er margreyndur veiðimaður. Hann hóf veiðar um sex ára aldur á smábátabryggjunni í Hafnarfirði, hefur haldið úti stórskemmtilegu veiðibloggi og starfar nú sem framkvæmdastjóri hjá Iceland Angling Travel.

Hvenær byrjaðir þú að veiða á stöng og hvað varð þess valdandi að þú byrjaðir að veiða

Byrjaði sennilega um 6-7 ára. Man ekki af hverju. Fór niðrá smábátabryggju í Hafnarfirði og dorgaði.

Hvað var fyrsta veiðivatnið sem þú stundaðir?

Fyrsta veiðivatnið sem ég stundaði er Urriðakotsvatn sem sumir kalla Urriðavatn. Við pabbi grófum upp maðka í garðinum og röltum þangað upp eftir á sumarkvöldum þegar ég var krakki. Svo stundaði ég það líka mikið þegar ég var að byrja í fluguveiðinni.



Á hvað veiddir þú og á hvað veiðir þú?


Ég byrjaði að veiða á maðk og spún en veiði núna bara á flugu.

Hvenær byrjaðir þú að veiða á flugu?


Árið 2005 byrjaði ég að veiða nánast eingöngu á flugu.

Fyrsti flugufiskurinn?


Man ekki eftir fyrsta flugufiskinum sem ég landaði en ég man eftir fyrsta sem tók fluguna hjá mér. Það var í Vífilstaðavatni á Killer. Var að uppgötva það hvernig ætti að veiða með flugu í stöðuvatni og hafði komist í eitthvað skjal um veiði í Þingvallavatni. Nennti ekki að keyra þangað eitthvað kvöldið svo ég prófaði bara svipaða taktík í Vífó. Var að góna eitthvað út í loftið þegar urriði tók Killerinn. Mér varð svo um og vissi ekkert hvernig ætti að bera sig að að ég endaði með að slíta. Daginn eftir fór ég í Veiðivon og keypti mér lager af Killer.

Lax, urriði, bleikja, sjóbirtingur?


Sjóbirtingur er mitt uppáhald.

Eftirminnilegasti fiskurinn?

Sennilega fyrsti fiskurinn sem ég fékk á flugu í straumvatni. Sumarið 2005 keypti ég mér 7,6 feta þrist þvert á ráðleggingar manna sem sögðu að ég hefði ekkert að gera við svoleiðis stöng. Fór í Sogið á silungasvæðið í Ásgarði í einn dag áður en við vorum að fara að veiða í Bíldsfelli. Börðum svæðið allan morguninn án þess að fá högg en sáum bleikjur í uppítökum. Þær voru að éta vorflugur svo við rúlluðum niðrá Selfoss í hléinu og keyptum þurrflugur. Seinni partinn náði ég svo pund bleikju á þurrflugu í Soginu á þristinn. Þá var ekki aftur snúið.

Straumvatn eða stöðuvötn?

Ég er alltaf svolítið veikur fyrir stöðuvötnum en mér finnst skemmtilegra að veiða í straumvatni.

Uppáhalds áin/vatnið?

Húseyjarkvísl í Skagafirði er mín uppáhalds á. Er sérstaklega hrifinn af silungasvæðinu. Uppáhalds vatnið er Skjálftavatn í Kelduhverfi.

Uppáhalds veiðistaðirnir?

Laugarhylur – Húseyjarkvísl. Bara svo frábært fluguvatn og ég hef átt svo skemmtilegar stundir þarna bæði að veiða sjálfur og í leiðsögn.

Veiðistaður 18 – Húseyjarkvísl. Fáránlega skemmtilegur sjóbirtingsstaður sem er langur og þægilegur en samt nett erfiður. Hef sett í hrikalega sjóbirtinga þarna, flesta þeirra hef ég þó misst.

Veiðistaður 21 – Húseyjarkvísl. Það er eitthvað við þennan stað. Hef sett í og landað mörgum stórum sjóbirtingum þarna og býst alltaf við að hann taki í næsta kasti. Get ekki beðið eftir að kasta þarna næst.

Veiða/sleppa. Skoðun þín?

Mér finnst að það ætti að vera bannað að drepa sjóbirting. Ég er á þeirri skoðun að ef hann fær að lifa þá hrygnir hann, fer til sjávar og kemur aftur stærri. Svo framarlega sem hann drepst ekki af náttúrlegum orsökum þá trúi ég því að hann komi aftur og aftur og stækki bara. Ég er búinn að skoða gamlar veiðibækur í Húseyjarkvísl og það fer ekkert á milli mála að fiskurinn þar hefur stækkað. Mig langar til að veiða stærri og stærri fiska en ég vill ekki þurfa að fara til Argentínu til að veiða stóra sjóbirtinga. Ég væri hrikalega til í að geta flakkað um sjóbirtingsslóðir fyrir austan fjall og vitað að þeir sem voru á undan mér slepptu öllu sem þeir veiddu hvort sem fiskarnir sem þeir fengu taki aftur eða ekki. Svo finnst mér mjög mikilvægt að fiskum sé sleppt aftur þar sem stofninn er ekki stór. T.d. finnst mér mikilvægt að öllum laxi sé sleppt í Húseyjarkvísl. Í dag sleppi ég öllu sem ég veiði en virði það alveg að menn vilji taka sér í soðið. Mér finnst samt að þeir sem vilja taka fiska eigi að veiða þar sem það má. Þá skal ég líka bara veiða þar sem ekki má drepa og allir eru sáttir. Fer mjög mikið í taugarnar á mér þegar menn get ekki farið eftir reglum. Hef mætt með erlenda veiðimenn í veiði þar sem bannað er að drepa og bara má nota flugu. Hollið á undan fékk rúmlega 40 fiska og marga stóra. Við vorum spenntir að byrja en byrjuðum á því að finna maðk á öngli fyrir utan húsið. Fréttum síðan seinna þegar við höfðum barið á steindauðu vatni í 2 daga án þess að fá högg að hollið á undan notaði spún og maðk og drap nánast allt sem þeir fengu. Ekki gaman að útskýra það fyrir viðskiptavinunum sem höfðu borgað fyrir ekki bara sín veiðileyfi heldur líka rándýrt flugfar til að koma hingað að veiða.

Uppáhalds flugurnar?

Dýrbítur með gúmmílöppum í sjóbirting

Hitch í lax

Red butt shuttlecock þurrfluga

Pheasant tail púpa

Á hvað veiðir þú; stengur, hjól, línur?

Sage stangir, Waterworks Lamson hjól og Rio línur nema í sjóbirting þá veiði ég með Jim Teeny línum.

Áttu þér fasta punkta í veiðinni?

Alltaf vorveiði í Húseyjarkvísl í apríl.

Eftir hverju ertu fyrst og fremst að sækjast þegar þú ferð að veiða? Bráðin/náttúran/annað?

Ótrúlega góð spurning sem ég get ekki svarað. Hef ekki hugmynd um það eftir hverju ég er að sækjast. Sem dæmi velti ég því fyrir mér af hverju ég hef engan áhuga á að fara að veiða þar sem ég veit að er nánast engin veiði. Jafnvel þó náttúrufegurð sé mikil. Svo er það af hverju ég hef engan áhuga á að fara að veiða í sumum ám þar sem ég veit að er mokveiði. Þá meina ég óháð peningum. Svo langar mig alltaf að fara á sama staðinn aftur og aftur og get ekki beðið eftir að komast. En eitt er það sem ég finn að poppar alltaf upp og það er tilhlökkunin til að fara að veiða með mínum bestu veiðifélögum. Svo ég held að svarið sé sambland af mörgum þáttum. Umhverfið, félagsskapurinn, áin, fiskarnir, stemmningin, fríið.

Veiðisagan?

Er búinn að hlægja mig máttlausan af mestu byrjendaheppni sem ég hef upplifað. Var að gæda hóp af frökkum í Húseyjarkvísl í sumar. Hef verið með þá áður en aldrei áður í lax. Vissi svona nokkurn veginn hvaða veiðiaðferðir þeir voru öruggir með en langaði að kenna þeim að hitcha. Ég var einn með þá þrjá og kom þess vegna fyrsta gæjanum fyrir og kenndi honum undirstöðuatriðin í hitchi (það litla sem ég kann). Svo fór ég að koma hinum köllunum fyrir. Klukkutíma seinna kom ég aftur og þá sagði gæinn á sinni lélegu ensku að laxveiði væri alltof erfið fyrir hjartað á sér. Ég spurði hvort hann hafði séð fisk stökkva eða hvort það hefði komið fiskur í hitchið hjá honum en hann sagðist þá vera búinn að landa þremur. Reif upp myndavélina og sýndi mér myndir af flottum nýgengnum löxum. Ég fylgdist með honum í smá stund og tók eftir því að hitch túban var ekkert að hitcha. Staðurinn hægur og hann lét þetta bara leka á dauðareki. Svo rak ég augun í að línan hjá honum sökk og ég spurði hvort hann væri ekki með flotlínu. Nei sagði félaginn – intermediate línu. Hann var semsagt búinn að fá þrjá á „hitch" en það vildi svo til að túban sökk svo hann var í raun búinn að fá þrjá á míkrótúbu á dauðareki. Kom þá í ljós að þetta voru fyrstu laxarnir sem þessi ágæti maður fékk og bætti hann tveimur við í þessum túr. Fór alsæll af landi brott. Kennir manni kannski að þessi blessaða fluguveiði þarf kannski ekkert að vera svo flókin.






×