Íslenski boltinn

Fanndís með þrennu í stórsigri Blika

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Hag
Breiðablik er komið á topp Pepsi-deildar kvenna í fótbolta á nýjan leik eftir 7-1 stórsigur á nýliðum Selfoss á Kópavogsvellinum í kvöld. Fanndís Friðriksdóttir, fyrirliði Blika, skoraði þrennu á fyrstu 40 mínútum leiksins. Fylkir og KR gerðu á sama tíma 1-1 jafntefli í Árbænum.

Nýliðar Selfoss fengu draumabyrjun þegar Valorie O'Brien kom þeim í 1-0 á 5. mínútu en Blikar svöruðu með fimm mörkum fyrir hlé. Fanndís skoraði þrjú þeirra og hin mörkin skoruðu þær Björk Gunnarsdóttir og Rakel Hönnudóttir.

Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir og Rakel Hönnudóttir innsigluðu síðan stórsigur í seinni hálfleiknum en Rakel hefur þar með skorað 4 mörk í fyrstu þremur heimaleikjum sínum með Breiðabliki.

Alma Rut Garðarsdóttir kom KR yfir úr vítaspyrnu á 20. mínútu en Rut Kristjánsdóttir tryggði Fylki stig með því að jafna metin á 61. mínútu.

Upplýsingar um markaskorara eru fengnar af úrslit.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×