Viðskipti innlent

Seldu í Icelandair fyrir milljarð

Icelandair Hlutabréfaverð í félaginu hefur hækkað um 120% frá árinu 2010. Icelandair skilaði 4,5 milljarða króna hagnaði í fyrra. fréttablaðið/pjetur
Icelandair Hlutabréfaverð í félaginu hefur hækkað um 120% frá árinu 2010. Icelandair skilaði 4,5 milljarða króna hagnaði í fyrra. fréttablaðið/pjetur
Þrotabú Glitnis seldi í fyrrakvöld allan hlut sinn í Icelandair Group fyrir 979 milljónir króna. Um er að ræða 3,7 prósenta hlut sem seldur var á genginu 5,37 krónur á hlut. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins keyptu tveir sjóðir í stýringu hjá Stefni, í eigu Arion banka, um þriðjung af þeim hlutum sem seldir voru.

Kristján Óskarsson, framkvæmdastjóri Glitnis, segir að tilboð hafi verið samþykkt eftir lokun markaða á fimmtudag. „Ég get staðfest að við höfum selt allan okkar hlut í Icelandair."

Þetta eru stærstu viðskipti sem átt hafa sér stað með hlutabréf í Icelandair síðan Framtakssjóður Íslands (FSÍ) seldi 10 prósenta hlut í félaginu í nóvember 2011 á 2,7 milljarða króna. Í tilkynningu vegna þeirrar sölu var sagt að kaupendurnir væru breiður hópur fjárfesta. Fréttablaðið greindi síðar frá því að hinn breiði hópur væri að mestu skipaður níu lífeyrissjóðum sem eru líka eigendur FSÍ.

Á meðal þeirra voru Lífeyrissjóður verslunarmanna, sem keypti þá 2,5 prósent og á nú 14,5 prósent, og Gildi lífeyrissjóður, sem keypti um 1,1 prósents hlut. Hvorugur þessara sjóða var á meðal kaupenda að hlut Glitnis á fimmtudag. Icelandair hagnaðist um 4,5 milljarða króna í fyrra. Gengi bréfa í félaginu hefur hækkað um 120 prósent frá því gengi sem var á þeim í tveimur útboðum á árinu 2010. - þsj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×