Viðskipti innlent

Ríkisbankar lúti eigendastefnu

Jóhanna Sigurðardóttir
Jóhanna Sigurðardóttir
Eigendastefna ríkisins ætti að ná til fjármálafyrirtækja í eigu hins opinbera og skylda þau þannig til að upplýsa opinberlega um eignir sínar og hvaða stefnu þau hafa um sölu þeirra.

Þetta segir starfshópur forsætisráðuneytisins um verklag við einkavæðingu í skýrslu sem lögð var fram á fundi ríkisstjórnarinnar í vikunni.

Starfshópurinn telur að rétta leiðin til að hafa áhrif á sölu fjármálafyrirtækja í meirihlutaeigu ríkisins á hlutum sínum í öðrum fyrirtækjum sé að fella þau undir eigendastefnuna. Ekki ætti að setja sérstakar reglur um Landsbankann eða önnur fjármálafyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins.

Starfshópurinn telur að skýra þurfi mörkin milli markmiða stjórnvalda með sölu ríkisfyrirtækja og faglegrar umsjónar með henni, ella verði ekki hafið yfir vafa að jafnræðis og gagnsæis verði gætt við einkavæðingar.

„Verklagið við einkavæðingu ríkisbankanna fyrir um einum áratug varð afdrifaríkt fyrir þjóðina og hefur verið harðlega gagnrýnt," er haft eftir Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra í fréttatilkynningu. „Við viljum koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig og því fagna ég niðurstöðum starfshópsins."

Með gerð skýrslunnar sé þó ekki gefið til kynna að á döfinni sé að selja í bráð stórar eignir ríkisins, eins og Landsbankann. - sh






Fleiri fréttir

Sjá meira


×