Handbolti

Höfum unnið vel í sóknarleiknum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Fyrirliðarnir Birkir Ívar úr Haukum og Halldór Jóhann frá Fram bítast hér um bikarinn.
Fyrirliðarnir Birkir Ívar úr Haukum og Halldór Jóhann frá Fram bítast hér um bikarinn. Mynd/Stefán
Topplið N1-deildarinnar, Haukar, mæta Fram í úrslitaleik Eimskipsbikars karla sem hefst klukkan 16.00 í dag. Liðin eru búin að mætast þrisvar í vetur og hafa Haukar unnið í tvígang.

Liðin mættust í deildinni fyrir stuttu síðan og þá unnu Haukar örugglega og héldu Fram í sex mörkum í fyrri hálfleik.

„Við verðum að vera sterkir í sókninni og höfum verið að vinna markvisst í því að styrkja hana. Við erum að mæta öflugu liði sem er stöðugt. Við erum líka góðir og ætlum að selja okkur dýrt," sagði Einar Jónsson, þjálfari Fram. „Haukar gera fá mistök og við verðum að finna ráð til þess að stöðva þá. Við höfum verið að vinna í því og mætum ákveðnir og bjartsýnir til leiks."

Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, talar varlega fyrir leik.

„Þó svo við séum efstir þá er Fram-liðið afar vel mannað og öflugt. Okkar styrkur er vissulega vörn, markvarsla og hraðaupphlaup. Við þurfum svo að vera agaðir í sókninni," sagði Aron og bendir á að þó hans menn hafi komið á óvart í vetur, spilað vel og séu efstir hafi liðið ekki enn unnið neitt.

„Við erum margir hverjir óreyndir og þurfum að vera með báða fætur á jörðinni. Staðan í deildinni gefur okkur ekkert í þessum leik."

Haukar lögðu granna sína í FH örugglega í undanúrslitum keppninnar þar sem FH skoraði aðeins fjórtán mörk og þar af fjögur í síðari hálfleik.

Fram vann á sama tíma dramatískan sigur á HK þar sem sigurmarkið kom beint úr aukakasti er leiktíminn var liðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×