Bjargvætturinn og lögbrotin Magnús Halldórsson skrifar 13. september 2012 13:37 Ein af röksemdum dómara Hæstaréttar, fyrir fjögurra og hálfs árs fangelsisdómi sem Ragnar Z. Guðjónsson, fv. sparisjóðsstjóri Byrs, og Jón Þorsteinn Jónsson, fv. stjórnarformaður Byrs, hlutu fyrir umboðssvik, hefur fengið marga þá sem nú eru til rannsóknar hjá yfirvöldum til þess að skjálfa á beinunum, eða þannig túlka ég í það minnsta nokkur samtöl sem ég hef átt við lögmenn um þennan dóm. Í dómnum, frá 7. júní sl., er það nefnt sérstaklega að tjóni hafi verið „velt yfir" á kröfuhafa Byrs sparisjóðs, þegar sjóðurinn lánaði rúman milljarð til þess að kaupa stofnfjárbréf, sem m.a. voru í eigu Jóns Þorsteins og einkahlutafélags Ragnars. Við fyrstu sýn virðast mörg mál byggja á því að þannig hafi verið staðið að málum í kringum hrunið. Það kom mörgum lögmönnum nokkuð á óvart að Ragnar hafi fengið jafn þungan dóm og Jón Þorsteinn þar sem hann hafði ekki beinna persónulegra hagsmuna að gæta í viðskiptunum, líkt og Jón Þorsteinn, sem var í persónulegum ábyrgðum sem losað var um með fyrrnefndum lánveitingum. Hæstiréttur taldi þó að sök hans væri jafn mikil, þar sem þátttaka hans í framkvæmd viðskiptanna var ótvíræð, til jafns við Jón Þorstein, og ábyrgð á henni einnig. Af stað aftur Niðurstaða Hæstaréttar er um margt merkileg, sé horft til þess hvernig íslenskt efnahagslíf hefur verið endurreist eftir hrunið. Endurreisnin byggir öðru fremur á endurskipulagningu á fjárhag fyrirtækja, þó stjórnmálamenn nefni það sjaldnast, einhverra hluta vegna. Þar hefur verið notast við verklag í endurreistu bönkunum, sem miðar að því að lækka skuldir „lífvænlegs" reksturs, að mati bankamanna, og hleypa fyrirtækjunum af stað á nýjan leik. Þetta hefur stundum verið erfitt, en þó gengið nokkuð greiðlega. Það sem stundum gleymist er að þessi endurskipulagning byggir á því að viljandi og meðvitað er tjóni velt yfir á kröfuhafa. Sérstaklega blasir það við, þegar fyrri eigendur fá að halda fyrirtækjum sínum gegn því að leggja fram nýtt hlutafé sem samsvarar 10 prósent af eignum, en fá allar skuldir umfram eignir niðurfelldar, og ríflega það í mörgum tilvikum. Þetta er inntakið í samræmdum aðgerðum bankanna og stjórnvalda í endurreisninni. Tvö dæmi: Dótturfélag útgerðarfyrirtækisins Skinneyjar-Þinganess á Hornafirði, Nóna, fékk tæpa þrjá milljarða króna afskrifaða, gegn framlagningu á nýju hlutafé sem nam ekki nema smánarhlut af afskriftinni. Með öðrum orðum; þriggja milljarða afskrift var keypt fyrir slikk. Skinney átti reyndar alveg fyrir skuldinni, átti m.a. fimm milljarða í reiðufé inn í dótturfélagi sem var gróði af einkavæðingu Búnaðarbankans og síðar sölu á hlutafé í félögum er tengdust Kaupþingi. Blessunarlega áður en allt hrundi. Annað dæmi er fimm milljarða afskrift skulda hjá Kvos, móðurfélagi Prentsmiðjunnar Odda, gegn því að Þorgeir Baldursson og aðrir eigendur félagsins, kæmu fram með nýtt hlutafé upp á 500 milljónir. Þetta er nú nokkuð góður samningur, fimm milljarða afskrift á 500 milljónir, 90 prósent afsláttur. Aflandskrónuleiðir Seðlabankans, sem Pálmi Haraldsson, Bakkavararbræður, Karl Wernersson og Róbert Wessman, og fleiri sem virðast eiga slatta af peningum erlendis hafa nýtt sér að undanförnu, bjóða ekki einu sinni upp á svona afsláttarkjör. Þar er afslátturinn yfirleitt „bara" 30 til 40 prósent. Þarf ekki að vera óeðlilegt Í sjálfu sér er þetta afskriftarfyrirkomulag ekki endilega gagnrýnivert, ef kröfuhafarnir álíta sem svo að þetta sé besta leiðin til að endurheimta verðmæti. En það má samt ekki gleyma því, að þessi samræmda aðferðafræði banka og stjórnvalda á sér engin fordæmi alþjóðlega svo vitað sé, og hún er augljóslega til þess fallin að grafa undan leikreglum markaðarins og hefðbundnum markaðsbúskap, sem er alls staðar á Vesturlöndum grunnur hagkerfa, ekki síst á Norðurlöndum. Hverjar eru leikreglurnar ef enginn þarf að borga fyrir að auka markaðshlutdeild sína? Þögn Samtaka atvinnulífsins um þessi mál er aðhlátursefni, enda veit enginn þar hvernig á að nálgast þessi mál, að því er virðist. Þetta er svipað og þegar samtökin þögðu þegar olíufélögin Olís, Skeljungur og Olíufélagið, nú Ker, voru staðin að stórfelldu samráði sem skaðaði neytendur, fyrirtæki og stofnanir, eins og Hæstiréttur hefur margstaðfest með dómum. Þau orga og garga á allar skattahækkanir, þó 15 prósent útgjalda ríkisins sé vextir, og vilja síðan helst leyfa öllum að halda sínu, jafnvel þó atvinnurekendur lítilla og meðalstórra fyrirtækja séu æfir yfir þessari aðferðarfræði, þar sem stóru fyrirtækin fá mest afskrifað, án þess að markaðshlutdeild skerðist nokkuð. Landslagið helst það sama og áður. Hvað má og hvað má ekki? Afskriftarkapítalismann séríslenska má rekja til neyðarlaganna, sem Markús Sigurbjörnsson, forseti Hæstaréttar, kallaði réttilega „bjargvætt íslensku þjóðarinnar" í Landsdómsmálinu. Tap kröfuhafa, hefur verið nýtt til þess að endurreisa atvinnulífið, og viðspyrnan, sem sýnir sig í meiri hagvexti en víðast hvar annars staðar, er að miklu leyti vegna þess. Stjórnvöld tala ekki mikið um þetta, og þakka sér árangurinn sem náðst hefur. Mér finnst það áhugaverð spurning, ekki síst fyrir lögmenn, hvernig eigi almennt að umgangast skuldir til framtíðar í bankakerfinu, ef það eru komin óteljandi dæmi um miklar afskriftir skulda fyrirtækja, jafnvel upp á marga milljarða króna, án þess að það hafi nokkrar afleiðingar fyrir markaðshlutdeild. Hvað má, og hvað má ekki, þegar kemur að skuldum og lánum? Hvenær má velta tapi yfir á kröfuhafa og hvenær ekki? Ragnar og Jón Þorsteinn, sem brutu lög mitt í hruninu með því að velta tapi yfir á kröfuhafa Byrs, eru búnir að fá svör við því, hvort viðskipti þeirra hafi verið lögum samkvæmt. Þeir þurfa að sitja inni vegna umboðssvikanna. En sofa bankamenn og eigendur fyrirtækja í alvöru alveg rólegir yfir því, hvernig eftir-hruns skipulagningin hefur farið fram? Vitaskuld er ég ekki að ætla mönnum að standa fyrir aðferðarfræði, sem getur falið í sér brot á lögum. En sé horft til þess hvernig heilbrigt atvinnulíf og markaðsbúskapur á að ganga fyrir sig í framtíðinni, hlýtur og þurfa að draga línuna í sandinn á einhverjum tímapunkti og segja; útsölunni á skuldum er lokið. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Magnús Halldórsson Mest lesið Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun „Við andlát manns lýkur skattskyldu hans“ Þórður Gunnarsson Skoðun Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Nýtanleg verðmætasköpun um allt land Jóhann Frímann Arinbjarnarson Skoðun Gerum betur Hilmar Björnsson Skoðun Dýrkeyptur aðgangur Stella Guðmundsdóttir Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Íslenskufræðingurinn Sigmundur Davíð Hákon Darri Egilsson Skoðun Geðrænn vandi barna og ungmenna Eldur S. Kristinsson Skoðun
Ein af röksemdum dómara Hæstaréttar, fyrir fjögurra og hálfs árs fangelsisdómi sem Ragnar Z. Guðjónsson, fv. sparisjóðsstjóri Byrs, og Jón Þorsteinn Jónsson, fv. stjórnarformaður Byrs, hlutu fyrir umboðssvik, hefur fengið marga þá sem nú eru til rannsóknar hjá yfirvöldum til þess að skjálfa á beinunum, eða þannig túlka ég í það minnsta nokkur samtöl sem ég hef átt við lögmenn um þennan dóm. Í dómnum, frá 7. júní sl., er það nefnt sérstaklega að tjóni hafi verið „velt yfir" á kröfuhafa Byrs sparisjóðs, þegar sjóðurinn lánaði rúman milljarð til þess að kaupa stofnfjárbréf, sem m.a. voru í eigu Jóns Þorsteins og einkahlutafélags Ragnars. Við fyrstu sýn virðast mörg mál byggja á því að þannig hafi verið staðið að málum í kringum hrunið. Það kom mörgum lögmönnum nokkuð á óvart að Ragnar hafi fengið jafn þungan dóm og Jón Þorsteinn þar sem hann hafði ekki beinna persónulegra hagsmuna að gæta í viðskiptunum, líkt og Jón Þorsteinn, sem var í persónulegum ábyrgðum sem losað var um með fyrrnefndum lánveitingum. Hæstiréttur taldi þó að sök hans væri jafn mikil, þar sem þátttaka hans í framkvæmd viðskiptanna var ótvíræð, til jafns við Jón Þorstein, og ábyrgð á henni einnig. Af stað aftur Niðurstaða Hæstaréttar er um margt merkileg, sé horft til þess hvernig íslenskt efnahagslíf hefur verið endurreist eftir hrunið. Endurreisnin byggir öðru fremur á endurskipulagningu á fjárhag fyrirtækja, þó stjórnmálamenn nefni það sjaldnast, einhverra hluta vegna. Þar hefur verið notast við verklag í endurreistu bönkunum, sem miðar að því að lækka skuldir „lífvænlegs" reksturs, að mati bankamanna, og hleypa fyrirtækjunum af stað á nýjan leik. Þetta hefur stundum verið erfitt, en þó gengið nokkuð greiðlega. Það sem stundum gleymist er að þessi endurskipulagning byggir á því að viljandi og meðvitað er tjóni velt yfir á kröfuhafa. Sérstaklega blasir það við, þegar fyrri eigendur fá að halda fyrirtækjum sínum gegn því að leggja fram nýtt hlutafé sem samsvarar 10 prósent af eignum, en fá allar skuldir umfram eignir niðurfelldar, og ríflega það í mörgum tilvikum. Þetta er inntakið í samræmdum aðgerðum bankanna og stjórnvalda í endurreisninni. Tvö dæmi: Dótturfélag útgerðarfyrirtækisins Skinneyjar-Þinganess á Hornafirði, Nóna, fékk tæpa þrjá milljarða króna afskrifaða, gegn framlagningu á nýju hlutafé sem nam ekki nema smánarhlut af afskriftinni. Með öðrum orðum; þriggja milljarða afskrift var keypt fyrir slikk. Skinney átti reyndar alveg fyrir skuldinni, átti m.a. fimm milljarða í reiðufé inn í dótturfélagi sem var gróði af einkavæðingu Búnaðarbankans og síðar sölu á hlutafé í félögum er tengdust Kaupþingi. Blessunarlega áður en allt hrundi. Annað dæmi er fimm milljarða afskrift skulda hjá Kvos, móðurfélagi Prentsmiðjunnar Odda, gegn því að Þorgeir Baldursson og aðrir eigendur félagsins, kæmu fram með nýtt hlutafé upp á 500 milljónir. Þetta er nú nokkuð góður samningur, fimm milljarða afskrift á 500 milljónir, 90 prósent afsláttur. Aflandskrónuleiðir Seðlabankans, sem Pálmi Haraldsson, Bakkavararbræður, Karl Wernersson og Róbert Wessman, og fleiri sem virðast eiga slatta af peningum erlendis hafa nýtt sér að undanförnu, bjóða ekki einu sinni upp á svona afsláttarkjör. Þar er afslátturinn yfirleitt „bara" 30 til 40 prósent. Þarf ekki að vera óeðlilegt Í sjálfu sér er þetta afskriftarfyrirkomulag ekki endilega gagnrýnivert, ef kröfuhafarnir álíta sem svo að þetta sé besta leiðin til að endurheimta verðmæti. En það má samt ekki gleyma því, að þessi samræmda aðferðafræði banka og stjórnvalda á sér engin fordæmi alþjóðlega svo vitað sé, og hún er augljóslega til þess fallin að grafa undan leikreglum markaðarins og hefðbundnum markaðsbúskap, sem er alls staðar á Vesturlöndum grunnur hagkerfa, ekki síst á Norðurlöndum. Hverjar eru leikreglurnar ef enginn þarf að borga fyrir að auka markaðshlutdeild sína? Þögn Samtaka atvinnulífsins um þessi mál er aðhlátursefni, enda veit enginn þar hvernig á að nálgast þessi mál, að því er virðist. Þetta er svipað og þegar samtökin þögðu þegar olíufélögin Olís, Skeljungur og Olíufélagið, nú Ker, voru staðin að stórfelldu samráði sem skaðaði neytendur, fyrirtæki og stofnanir, eins og Hæstiréttur hefur margstaðfest með dómum. Þau orga og garga á allar skattahækkanir, þó 15 prósent útgjalda ríkisins sé vextir, og vilja síðan helst leyfa öllum að halda sínu, jafnvel þó atvinnurekendur lítilla og meðalstórra fyrirtækja séu æfir yfir þessari aðferðarfræði, þar sem stóru fyrirtækin fá mest afskrifað, án þess að markaðshlutdeild skerðist nokkuð. Landslagið helst það sama og áður. Hvað má og hvað má ekki? Afskriftarkapítalismann séríslenska má rekja til neyðarlaganna, sem Markús Sigurbjörnsson, forseti Hæstaréttar, kallaði réttilega „bjargvætt íslensku þjóðarinnar" í Landsdómsmálinu. Tap kröfuhafa, hefur verið nýtt til þess að endurreisa atvinnulífið, og viðspyrnan, sem sýnir sig í meiri hagvexti en víðast hvar annars staðar, er að miklu leyti vegna þess. Stjórnvöld tala ekki mikið um þetta, og þakka sér árangurinn sem náðst hefur. Mér finnst það áhugaverð spurning, ekki síst fyrir lögmenn, hvernig eigi almennt að umgangast skuldir til framtíðar í bankakerfinu, ef það eru komin óteljandi dæmi um miklar afskriftir skulda fyrirtækja, jafnvel upp á marga milljarða króna, án þess að það hafi nokkrar afleiðingar fyrir markaðshlutdeild. Hvað má, og hvað má ekki, þegar kemur að skuldum og lánum? Hvenær má velta tapi yfir á kröfuhafa og hvenær ekki? Ragnar og Jón Þorsteinn, sem brutu lög mitt í hruninu með því að velta tapi yfir á kröfuhafa Byrs, eru búnir að fá svör við því, hvort viðskipti þeirra hafi verið lögum samkvæmt. Þeir þurfa að sitja inni vegna umboðssvikanna. En sofa bankamenn og eigendur fyrirtækja í alvöru alveg rólegir yfir því, hvernig eftir-hruns skipulagningin hefur farið fram? Vitaskuld er ég ekki að ætla mönnum að standa fyrir aðferðarfræði, sem getur falið í sér brot á lögum. En sé horft til þess hvernig heilbrigt atvinnulíf og markaðsbúskapur á að ganga fyrir sig í framtíðinni, hlýtur og þurfa að draga línuna í sandinn á einhverjum tímapunkti og segja; útsölunni á skuldum er lokið.