Lífið

Á toppnum í 15 löndum

Sigurlag Eurovision-keppninnar, Euphoria, hefur náð toppsætinu í fimmtán löndum.nordicphotos/getty
Sigurlag Eurovision-keppninnar, Euphoria, hefur náð toppsætinu í fimmtán löndum.nordicphotos/getty
Lagið Euphoria með Loreen hefur farið á toppinn í fimmtán löndum eftir sigurinn í Eurovision. Björk er á meðal áhrifavalda sænsku söngkonunnar.

Sigurlag Eurovision-keppninnar, Euphoria með sænsku söngkonunni Loreen, hefur farið sigurför um heiminn að undanförnu. Eftir að úrslitin urðu ljós rauk lagið í toppsæti vinsældarlista iTunes í fimmtán löndum, þar á meðal í Bretlandi, Þýskalandi, Danmörku, Grikklandi, Spáni og Eistlandi. Það að lagið skuli hafa náð toppnum í Bretlandi er nokkuð merkilegt því þetta er í fyrsta sinn síðan 1996 sem Eurovision-lag nær þeim árangri. Þá fór hin ástralska Gina G í efsta sætið með hinu grípandi Ooh Aah... Just a Little Bit sem hún söng fyrir hönd Bretlands. „Ég vona að Euphoria verði í hjörtum fólks eins lengi og mögulegt er," sagði Loreen eftir að sigurinn í Eurovision var í höfn.

Hin 28 ára söngkona ólst upp í sveit skammt fyrir utan Stokkhólm. Hún lærði að spila á píanó með því að herma eftir tónlist Michaels Nyman við kvikmyndina The Piano. Hún segist alltaf verða pirruð þegar hún er stimpluð sem R&B-listamaður. „Þetta er frekar skrítið því ég hlusta aldrei á R&B eða sálartónlist. Ég sæki innblástur í tónlist sem kemur mér í hálfgerðan trans. Listamenn eins og Björk og sumt af því sem Enya gerir en aðallega þó Lisa Gerrard," sagði hún á síðunni Eurovision.tv. „Ég vil búa til tónlist sem nær tengslum við sálina í mér. Þá hefur tónlistin mín mest áhrif."

Loreen segist vera einfari sem forðist upplýsingaflæði hversdagsins, enda er hún ekki einu sinni á Facebook. „Ég á ekkert sjónvarp. Ég á fartölvu sem ég nota bara fyrir tölvupósta og tónlistarforrit."

Hennar helsta markmið er að fá fólk til að átta sig á að lífið snýst ekki bara um að eignast hluti. „Ég veit að þetta hljómar kannski hippalega og asnalega. En á það að aftra manni frá því að hafa þetta markmið? Ég er sannfærð um að svarið við því er nei."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.