Handbolti

Sverre þarf hvíld fyrir Ólympíuleikana

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sverre verður ekki með í leikjunum gegn Hollandi.
Sverre verður ekki með í leikjunum gegn Hollandi. Mynd/Nordic Photos/Getty
Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari í handbolta valdi 20 leikmenn í æfingahóp fyrir leiki Íslands og Hollands í undankeppni HM 2013. Þeir fara fram dagana 10. og 16. júní en fyrri leikurinn verður hér á landi.

Varnarmaðurinn Sverre Jakobsson er frá vegna meiðsla og þá á Ásgeir Örn Hallgrímsson ekki heimangengt þar sem hann varð faðir nú fyrr í vikunni. Guðmundur kallaði á Sigurgeir Árna Ægisson, fyrrum fyrirliða FH, í hópinn í staðinn fyrir Sverre en Sigurgeir Árni leikur nú með norska B-deildarliðinu Kristiansund.

„Við fengum tækifæri til að skoða Sigurgeir í vetur þegar hann spilaði með liði sínu í Þýskalandi og hann stóð sig vel í þeim leik. Við viljum sjá nú hvort hann geti leyst Sverre af," sagði Guðmundur en hann vonaðist þó til þess að geta notað Sverre á Ólympíuleikunum.

„Sverre hefur verið að glíma við ýmis meiðsli, til dæmis í olnboga, öxl og hné. Hann þarf að fara í sprautumeðferð og hvíld til að koma sér aftur af stað. Það verður auðvitað slæmt að hafa hann ekki í þessum leikjum en við erum að horfa til þess að hann verði klár þegar Ólympíuleikarnir byrja."

Hann segir þó að Ásgeir verði mögulega til taks ef á þurfi að halda í leikjunum gegn Hollandi. En eins og málin standa nú verður hann ekki með.

Bjarki Már Elísson fær nú tækifæri til að sanna sig en þessi vinstri hornamaður var öflugur með Íslandsmeisturum HK í vetur. Að öðru leyti kemur val Guðmundar ekki mjög á óvart.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×