Skallinn Björn Þór Sigbjörnsson skrifar 6. desember 2012 06:00 Ætli það séu ekki tæp tíu ár síðan hárið fór að þynnast á hvirflinum á mér. Ég sá þetta fyrst þegar rakari sýndi mér aftan á mig eftir klippingu og var talsvert brugðið. Fagmaður í hári sagði mér að líklega stafaði þetta af stressi. Ég reyndi að róa mig; drakk te og fór í jóga. Það hafði engin áhrif. Annar fagmaður hvatti mig til að nudda á mér hvirfilinn. Það myndi auka blóðflæðið og örva hárvöxtinn. Við tók tímabil stöðugs höfuðnudds. Án árangurs. Þar kom að ég hætti að hugsa um þetta. Þar hjálpaði að ég keypti mér rakvél og sá um hárskurðinn sjálfur. Ég þurfti því ekki að horfa á hárlausan hvirfilinn hjá rakaranum. Við þetta öðlaðist ég hins vegar talsverðan áhuga á hári karlmanna. Sýndu mér hárið þitt og ég skal segja þér hver þú ert, eða þannig. Hárið (skallinn, ef því er að skipta) er það fyrsta sem ég tek eftir þegar ég hitti menn í fyrsta sinn og það hefur komið fyrir að ég hef staðið sjálfan mig að því að stara á hár. Vinir mínir og fjölskylda ræddu þetta skallamál aldrei við mig. Þess vegna þótti mér ansi hreint sérstakt þegar tengdapabbi tók sig til í vor og benti mér á krem sem átti að stuðla að hárvexti á skallasvæðinu. Ég prófaði það ekki en ákvað í staðinn að láta hárið vaxa. Mér datt í hug að ef það fengi að vera í friði myndi kannski eitthvað fara að gerast. Tíminn leið, hárið síkkaði og ég vonaði heitt og innilega að hvirfillinn væri ekki lengur skinnið bert. Það var svo í síðustu viku að ég var gestur í sjónvarpsþætti. Eftir að beinni útsendingu lauk fór ég heim og horfði á sjálfan mig. Það eina sem ég sá var skallinn. Meðferðin mín hafði ekki virkað. Það var talsvert áfall en ég ákvað að halda mínu striki og láta hárið vaxa áfram. Meinlegar athugasemdir frá nokkrum vinum lét ég sem vind um eyru þjóta. En svo kom reiðarslagið. Ég frétti að söngvarinn í Skriðjöklum hefði vart mátt mæla fyrir hlátri yfir þessari sjón. Ekki hefði ég trúað að sá maður hefði slík áhrif á mig. En svona er þetta. Ég klippti mig hið snarasta og íhuga nú alvarlega að prófa þetta krem sem hann tengdapabbi var að tala um. Þú gefur mér það kannski í jólagjöf, Þórður. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Björn Þór Sigbjörnsson Mest lesið Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Forréttindablinda strákanna í Viðskiptaráði Sonja Ýr Þorbergsdóttir Skoðun Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun
Ætli það séu ekki tæp tíu ár síðan hárið fór að þynnast á hvirflinum á mér. Ég sá þetta fyrst þegar rakari sýndi mér aftan á mig eftir klippingu og var talsvert brugðið. Fagmaður í hári sagði mér að líklega stafaði þetta af stressi. Ég reyndi að róa mig; drakk te og fór í jóga. Það hafði engin áhrif. Annar fagmaður hvatti mig til að nudda á mér hvirfilinn. Það myndi auka blóðflæðið og örva hárvöxtinn. Við tók tímabil stöðugs höfuðnudds. Án árangurs. Þar kom að ég hætti að hugsa um þetta. Þar hjálpaði að ég keypti mér rakvél og sá um hárskurðinn sjálfur. Ég þurfti því ekki að horfa á hárlausan hvirfilinn hjá rakaranum. Við þetta öðlaðist ég hins vegar talsverðan áhuga á hári karlmanna. Sýndu mér hárið þitt og ég skal segja þér hver þú ert, eða þannig. Hárið (skallinn, ef því er að skipta) er það fyrsta sem ég tek eftir þegar ég hitti menn í fyrsta sinn og það hefur komið fyrir að ég hef staðið sjálfan mig að því að stara á hár. Vinir mínir og fjölskylda ræddu þetta skallamál aldrei við mig. Þess vegna þótti mér ansi hreint sérstakt þegar tengdapabbi tók sig til í vor og benti mér á krem sem átti að stuðla að hárvexti á skallasvæðinu. Ég prófaði það ekki en ákvað í staðinn að láta hárið vaxa. Mér datt í hug að ef það fengi að vera í friði myndi kannski eitthvað fara að gerast. Tíminn leið, hárið síkkaði og ég vonaði heitt og innilega að hvirfillinn væri ekki lengur skinnið bert. Það var svo í síðustu viku að ég var gestur í sjónvarpsþætti. Eftir að beinni útsendingu lauk fór ég heim og horfði á sjálfan mig. Það eina sem ég sá var skallinn. Meðferðin mín hafði ekki virkað. Það var talsvert áfall en ég ákvað að halda mínu striki og láta hárið vaxa áfram. Meinlegar athugasemdir frá nokkrum vinum lét ég sem vind um eyru þjóta. En svo kom reiðarslagið. Ég frétti að söngvarinn í Skriðjöklum hefði vart mátt mæla fyrir hlátri yfir þessari sjón. Ekki hefði ég trúað að sá maður hefði slík áhrif á mig. En svona er þetta. Ég klippti mig hið snarasta og íhuga nú alvarlega að prófa þetta krem sem hann tengdapabbi var að tala um. Þú gefur mér það kannski í jólagjöf, Þórður.