Norræna nammileitin 23. nóvember 2012 06:00 Ímyndum okkur eftirfarandi leik: Bláum og rauðum súkkulaðieggjum er dreift um Öskjuhlíðina. Eggin sjást ekki langar leiðir heldur þarf oft að kemba grasið og fara inn í runna til að finna þau. Krakkahópur fær það hlutverk að leita að eggjunum. Setjum okkur nú í hlutverk kennarans. Við stýrum leiknum og höfum nokkur markmið. Við viljum til dæmis að a) allir leggi sig fram við að leita að eggjunum eftir bestu getu og b) að allir krakkar fái að minnsta kosti eitt blátt egg og eitt rautt egg í lok leiks og helst líka að c) sem flest eggin finnist og á sem skemmstum tíma. Hvernig eigum við setja upp leikinn til að ná þessu fram? Aðferð 1 Hugsum okkur fyrst að við setjum engar reglur og segjum bara „Einn, tveir og…leita!". Ef nóg er af eggjum getur þessi aðferð hæglega uppfyllt öll skilyrðin að ofan. En segjum að eggjapörin séu ekki mikið fleiri en börnin. Nokkur barnanna munu þá kannski rjúka af stað og hamstra egg, aðrir munu ekki finna neitt og gefast upp eftir nokkra stund. Í þessum leik eru hvatarnir til að leita að eggjum vissulega miklir (til að byrja með) en hættan er á að einhverjir labbi burt tómhentir er töluverð. Það er fúlt. Það er leiðinlegt að fá ekki súkkulaði. Aðferð 2 Kannski gætum við einfaldlega prófað að safna öllum saman í upphafi leiks og útskýrt markmiðin: „Jæja, krakkar! Nú ætlum við að fara að leita að súkkulaðieggjum. En það má enginn borða neitt fyrr en ALLIR í hópnum eru komnir með að minnsta kosti eitt rautt og eitt blátt egg. Hvað haldið þið að þið getið fljót að ná því? Þið vitið að 4.C var einungis 6 mínútur að finna eitt rautt og blátt egg á mann. Haldið þið að þið getið verið fljótari en þau?" Hvernig ætli þetta myndi virka? Ef til vill myndu krakkarnir byrja á því að leita hver fyrir sig en uppgötva svo að þau hefðu stundum hag af því að skiptast á eggjum, til dæmis ef einhver einn ætti tvö blá en einhver annar tvö rauð. Í lokin gætu svo einhverjir þurft að láta einhver egg af hendi til hinna „eggjasnauðari" svo dæmið gengi upp. Þessi aðferð nær í það minnsta markmiðinu um „lágmarksframfærslu" öfugt við aðferð 1. Aðferð 3 Við gætum auðvitað gengið miklu lengra og sagt: „Nú ætlum við að fara út og leita að súkkulaðieggjum hérna í brekkunni. Allir sem finna einhver súkkulaðiegg verða að koma með þau hingað niður að stóra steini og ég (kennarinn) ætla að telja þau. Það fær enginn súkkulaðiegg fyrr en ég segi. Svona, af stað!" Aðferðirnar þrjár lýsa hreinum kapítalisma, norrænu velferðarmódeli og kommúnisma. Aðferðir 1 og 2 reyna að virkja kosti „frjáls markaðar". Aðferðir 2 og 3 reyna að tryggja jöfnuð en ég held að aðferð 2 geri það á flestan hátt betur en aðferð 3. Menn nenna síður að leggja sig allan fram ef þeir fá jafnmikið og þeir sem gera ekki neitt. Að auki er miðstýrð dreifing ekki endilega hagkvæm. Í stórum málaflokkum, til dæmis þegar kemur að menntun og gæslu ungra barna, virðast nú engar hugmyndir ná flugi aðrar en þær að hið opinbera framleiði vöruna og dreifi henni, helst „ókeypis" og til allra. Það ætti að vara við því. Við getum ekki endalaust minnkað við efnahagslífið og aukið við velferðarkerfið. Eitt borgar, jú, að mestu fyrir annað. Frjáls markaður er góð leið til að dreifa vörum. Ef við lítum á eggjaleitina okkar þá er fljótlegra að krakkarnir víxli sjálfir á þeim súkkulaðieggjum sem þá vantar fremur en að þeir komi með þau öll í sama pott og bíði eftir að kennarinn skipti þeim á milli. Okkur hættir stundum til að hugsa mikið í stórum miðlægum kerfum þótt lífið sé fullt af mótdæmum um dreifð kerfi sem virka vel. Auðvitað þarf til dæmis ekki „miðlæga opinbera leiguþjónustu með barnaföt". Bland.is dugar bara fínt. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Pawel Bartoszek Skoðanir Mest lesið Stöndum vörð um menntun, farsæld og stuðning við börnin okkar Ása Lind Finnbogadóttir Skoðun Viltu koma að kenna? Hulda María Magnúsdóttir Skoðun Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Ég get horft í augun á ykkur og sagt Kristófer Már Maronsson Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Svar til lögmanns SFS Magnús Guðmundsson Skoðun Íþróttahreyfingin glímir við skattyfirvöld Kristinn Jónasson Skoðun Hvað gerðist þegar konan talaði? Jóna Hrönn Bolladóttir,Bjarni Karlsson Skoðun Samfélagstilraunin sem lítið er fjallað um Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun
Ímyndum okkur eftirfarandi leik: Bláum og rauðum súkkulaðieggjum er dreift um Öskjuhlíðina. Eggin sjást ekki langar leiðir heldur þarf oft að kemba grasið og fara inn í runna til að finna þau. Krakkahópur fær það hlutverk að leita að eggjunum. Setjum okkur nú í hlutverk kennarans. Við stýrum leiknum og höfum nokkur markmið. Við viljum til dæmis að a) allir leggi sig fram við að leita að eggjunum eftir bestu getu og b) að allir krakkar fái að minnsta kosti eitt blátt egg og eitt rautt egg í lok leiks og helst líka að c) sem flest eggin finnist og á sem skemmstum tíma. Hvernig eigum við setja upp leikinn til að ná þessu fram? Aðferð 1 Hugsum okkur fyrst að við setjum engar reglur og segjum bara „Einn, tveir og…leita!". Ef nóg er af eggjum getur þessi aðferð hæglega uppfyllt öll skilyrðin að ofan. En segjum að eggjapörin séu ekki mikið fleiri en börnin. Nokkur barnanna munu þá kannski rjúka af stað og hamstra egg, aðrir munu ekki finna neitt og gefast upp eftir nokkra stund. Í þessum leik eru hvatarnir til að leita að eggjum vissulega miklir (til að byrja með) en hættan er á að einhverjir labbi burt tómhentir er töluverð. Það er fúlt. Það er leiðinlegt að fá ekki súkkulaði. Aðferð 2 Kannski gætum við einfaldlega prófað að safna öllum saman í upphafi leiks og útskýrt markmiðin: „Jæja, krakkar! Nú ætlum við að fara að leita að súkkulaðieggjum. En það má enginn borða neitt fyrr en ALLIR í hópnum eru komnir með að minnsta kosti eitt rautt og eitt blátt egg. Hvað haldið þið að þið getið fljót að ná því? Þið vitið að 4.C var einungis 6 mínútur að finna eitt rautt og blátt egg á mann. Haldið þið að þið getið verið fljótari en þau?" Hvernig ætli þetta myndi virka? Ef til vill myndu krakkarnir byrja á því að leita hver fyrir sig en uppgötva svo að þau hefðu stundum hag af því að skiptast á eggjum, til dæmis ef einhver einn ætti tvö blá en einhver annar tvö rauð. Í lokin gætu svo einhverjir þurft að láta einhver egg af hendi til hinna „eggjasnauðari" svo dæmið gengi upp. Þessi aðferð nær í það minnsta markmiðinu um „lágmarksframfærslu" öfugt við aðferð 1. Aðferð 3 Við gætum auðvitað gengið miklu lengra og sagt: „Nú ætlum við að fara út og leita að súkkulaðieggjum hérna í brekkunni. Allir sem finna einhver súkkulaðiegg verða að koma með þau hingað niður að stóra steini og ég (kennarinn) ætla að telja þau. Það fær enginn súkkulaðiegg fyrr en ég segi. Svona, af stað!" Aðferðirnar þrjár lýsa hreinum kapítalisma, norrænu velferðarmódeli og kommúnisma. Aðferðir 1 og 2 reyna að virkja kosti „frjáls markaðar". Aðferðir 2 og 3 reyna að tryggja jöfnuð en ég held að aðferð 2 geri það á flestan hátt betur en aðferð 3. Menn nenna síður að leggja sig allan fram ef þeir fá jafnmikið og þeir sem gera ekki neitt. Að auki er miðstýrð dreifing ekki endilega hagkvæm. Í stórum málaflokkum, til dæmis þegar kemur að menntun og gæslu ungra barna, virðast nú engar hugmyndir ná flugi aðrar en þær að hið opinbera framleiði vöruna og dreifi henni, helst „ókeypis" og til allra. Það ætti að vara við því. Við getum ekki endalaust minnkað við efnahagslífið og aukið við velferðarkerfið. Eitt borgar, jú, að mestu fyrir annað. Frjáls markaður er góð leið til að dreifa vörum. Ef við lítum á eggjaleitina okkar þá er fljótlegra að krakkarnir víxli sjálfir á þeim súkkulaðieggjum sem þá vantar fremur en að þeir komi með þau öll í sama pott og bíði eftir að kennarinn skipti þeim á milli. Okkur hættir stundum til að hugsa mikið í stórum miðlægum kerfum þótt lífið sé fullt af mótdæmum um dreifð kerfi sem virka vel. Auðvitað þarf til dæmis ekki „miðlæga opinbera leiguþjónustu með barnaföt". Bland.is dugar bara fínt.