Handbolti

Grótta engin fyrirstaða fyrir Hauka | Selfoss skellti Val

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Tjörvi Þorgeirsson og félagar eru komnir í átta liða úrslitin.
Tjörvi Þorgeirsson og félagar eru komnir í átta liða úrslitin. Mynd/Daníel
Bikarmeistarar Hauka í handknattleik karla lögðu Gróttu að velli 26-18 í viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Símabikarsins í kvöld. Fyrir austan fjall gerðu Selfyssingar sér lítið fyrir og lögðu Valsmenn í spennuþrungnum leik.

Leikur Gróttu og Hauka fór fram á Nesinu og höfðu gestirnir úr Hafnarfirði leikinn í hendi sér frá fyrstu mínútu. Staðan í hálfleik var 13-7 Haukum í vil.

Árni Steinn Steinþórsson skoraði átta mörk fyrir gestina en Adam Haukur Baumruk og Stefán Rafn Sigurmannsson komu næstir með fjögur.

Hjá heimamönnum var Kristján Orri Jóhannsson markahæstur með fimm mörk en Árni B. Árnason skoraði fjögur.

Selfoss lagði Val í baráttuleikSelfyssingar gerðu sér lítið fyrir og lögðu Valsmenn í Vallaskóla á Selfossi í kvöld. Lokatölurnar urðu 28-27 fyrir Selfoss sem leikur í næstefstu deild.

Leikurinn var gríðarlega spennandi en jafnt var í hálfleik 12-12. Matthías Örn Halldórsson skoraði sjö mörk fyrir heimamenn og Einar Sverrisson sex.

Hjá gestunum skoraði Finnur Ingi Stefánsson átta mörk en Þorgrímur S. Ólafsson kom næstur með sex mörk.

Hart var barist á lokamínútum leiksins og fékk Ómar Vignir Helgason, leikmaður Selfoss, útilokun þegar 24 sekúndur voru til leiksloka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×