Lífið

Ótrúlegt að fá Þursaflokkinn

„Það er ótrúlegt að fá þá því þeir spila svo sjaldan," segir grínistinn Ari Eldjárn.

Þursaflokkurinn spilar á minningartónleikum um bróður Ara, gítarleikarann Kristján Eldjárn, sem hefði orðið fertugur í ár. Þursarnir hafa tvisvar áður leikið á stóra sviði Þjóðleikhússins; á minningartónleikum Karls Sighvatssonar árið 1991 og þegar þeir tóku þar upp tónleikaplötu sína „Á hljómleikum" 1980.

„Þetta var ein af uppáhaldshljómsveitunum hans [Kristjáns]. Hann var sjálfur í hljómsveit sem hét Dvergaflokkurinn en nafnið var virðingarvottur við Þursaflokkinn. Þeir voru allir vinir hans og það er rosalega gaman að þeir skyldu gera þetta," segir Ari.

Tónleikarnir verða á stóra sviði Þjóðleikhússins 7. júní. Meðal annarra flytjenda eru Bubbi Morthens, Páll Óskar, Ham, Víkingur Heiðar, Ragnhildur Gísladóttir, Jack Magnet, Sykur og Ari sjálfur. Hann vill ekkert tjá sig um sitt atriði nema að það verði svakalegt.

Ari Eldjárn.
Þetta verður í annað sinn sem minningartónleikar um Kristján eru haldnir. Síðast var það gert í Gamla bíói árið 2003. Allur ágóði af tónleikunum rennur í minningarsjóð Kristjáns.

Venjulega eru styrkir úr honum afhentir 16. júní annað hvert ár en vegna fertugsafmælisins verður það gert í ár, rétt eins og í fyrra.

Tónleikarnir í Þjóðleikhúsinu verða teknir upp og verða þeir hugsanlega gefnir út í framhaldinu. Miðasala fer fram á Midi.is og Leikhusid.is. -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×