Veiði

Hvítá/Ölfusá: Net tekin upp vegna laxleysis

Svavar Hávarðsson skrifar
Bíldsfell í Soginu sem er eitt af mörgum góðum veiðisvæðum sem treysta á lax sem gengur Ölfusá og Hvítá.
Bíldsfell í Soginu sem er eitt af mörgum góðum veiðisvæðum sem treysta á lax sem gengur Ölfusá og Hvítá. Mynd/Trausti Hafliðason
Hópur netaveiðirétthafa í Ölfusá og Hvítá mælist til þess að netabændur á svæðinu taki net sín upp það sem eftir lifir sumars eða dragi úr sókn. Ástæðan er lítil veiði á stöng í hliðarám og fjölmargir óvissuþættir um ástand laxastofna.

Ákvörðun hópsins var tekin eftir fund með Veiðimálastofnun í vikunni þar sem ástand fiskistofna á svæðinu var rætt. Ákvað fundurinn samhljóða að mælast til þess við netaveiðibændur að láta laxastofna á svæðinu njóta vafans og stuðla þannig að því að fleiri laxar nái að hrygna til að bæta seiðabúskap ánna

Haraldur Þórarinsson, netaveiðibóndi á Laugardælum, segir að hópurinn telji sig bera skyldu til þess að varðveita ána og gæta þess að hún nýtist til stangveiði eins og hún nýtist til netaveiði. „Við veiðum stóran fisk í bland við smálax framan af sumri. Núna, í lok júlí, virðist hins vegar smálaxinn ekkert vera að láta sjá sig. Okkur sýnist jafnframt að hluti af stóra fiskinum sem gekk niður í vor sé að ganga aftur núna. Svo virðist sem vanti 70-80% af ársgamla fiskinum í árnar og því bregðumst við svona við."

Snemmsumarsveiði í net á vatnasvæðinu hefur verið gagnrýnd harðlega með þeim rökum að nauðsynlegt sé að hleypa stærsta hrygningarfiskinum upp á hrygningarsvæðin og fresta því netaveiðum um tvær til þrjár vikur. Með því gætu netabændur lagt sitt á vogaskálarnar við að hlífa stórlaxi.

Spurður um hvort þessi gagnrýni sé ekki réttmæt í ljósi ákvörðunar netabænda í vikunni svarar Haraldur því til að netaveiðin hefjist ekki fyrr en bróðurparturinn af stóra laxinum sé þegar genginn. „Það er svolítið lamið á okkur netaveiðimönnum, en þegar öllu er haldið til haga þá verður netum ekki kennt um laxaþurrðina núna. Þetta ástand er í ám um allt land, þar sem ekki er veitt í net. Án þess að vilja deila við stangveiðimenn má samt spyrja á móti hvort ráðlegt sé að lemja stanslaust á fiskinum þegar hann er lagstur á hrygningarsvæðin, öfugt við það að við tökum fiskinn þegar hann er að hlaupa á milli svæða. Á ekki að hætta fyrr að veiða á stöng í ánum?"

Magnús Jóhannsson, sviðsstjóri hjá Veiðimálastofnun, segir að ákvörðun netabænda að bregðast við lítilli veiði sé virðingarverð. „Það kemur á óvart hversu veiðin er slök, sérstaklega í netin. Það bendir til þess að fiskgengdin sé lítil þó það sé ekki bundið við þetta svæði."

Um gagnrýni á snemmsumarsveiði tekur Magnús undir það að stóri laxinn sé betri hrygningarfiskur og því mæli Veiðimálastofnun með því að honum sé hlíft. Um seiðabúskap Ölfusár/Hvítársvæðisins segir Magnús hann hafa verið frekar slakann. „Þó hefur hann farið upp á við síðustu ár og tengst því að meira af laxi hefur hrygnt. Ég átti von á því að veiðin yrði betri miðað við þann seiðabúskap sem átti að standa undir veiðinni í sumar. Hafið virðist vera að bregðast okkur, sýnist mér. Svo kann að spila inn í hversu kalt vorið var í fyrra. Það hefur áhrif á þroska seiðanna og ekki loku fyrir það skotið að hluti seiðanna hafi ákveðið að bíða eitt ár. Það er vonin en það getur líka verið hættulegt því mikil afföll geta orðið árið sem bætist við í ánum."

Frekari umfjöllun um málið verður í Fréttablaðinu og hér á Veiðivísi á mánudag.

svavar@frettabladid.is






×