Topplið Snæfells lenti í vandræðum með botnlið Tindastóls í Stykkishólmi í kvöld í 7. umferð Dominos-deild karla í körfubolta en vann að lokum tíu stiga sigur, 86-76. Snæfell hefur nú unnið fimm deildarleiki í röð og er með tveggja stiga forskot á toppnum.
Sveinn Arnar Davíðsson skoraði 20 stig fyrir Snæfell í kvöld, Hafþór Ingi Gunnarsson var með 18 stig og Jón Ólafur Jónsson skoraði 16 stig og tók 10 fráköst. Jay Threatt, leikstjórnandi Snæfells, var með 12 stig og 12 stoðsendingar í leiknum.
Drew Gibson var atkvæðamestur hjá Tindastól með 24 stig, 7 fráköst og 8 stoðsendingar og George Valentine var með 16 stig og 10 fráköst.
Stólarnir byrjuðu leikinn af krafti, komust í 14-7 og voru 21-17 yfir eftir fyrsta leikhlutann. Tindastóll náði síðan mest 11 stiga forskoti, 30-19, þegar ein og hálf mínúta var liðin af öðrum leikhlutanum.
Hólmarar vöknuðu eftir gott leikhlé frá Inga Þór Steinþórssyni og breyttu stöðunni úr 19-30 í 26-30 á augabragði. Þeir voru síðan komnir tveimur stigum yfir, 41-39, fyrir lok hálfleiksins.
Liðin skiptust á góðum köflum í þriðja leikhlutanum en Tindastóll náði fimm stiga forskoti, 59-54, þegar þrjár og hálf voru eftir að leikhlutanum. Snæfellsliðið skoraði þá átta stig í röð og komst í 62-59 en Stólarnir áttu lokaorðið og leiddu 66-65 fyrir lokaleikhlutann.
Snæfell var sterkari í lokinn og tryggði sér sigurinn með því að vinna sjö síðustu mínúturnar í leiknum 16-6 þar sem lítið gekk hjá gestunum af Króknum. Tindastóll hefur þar með tapað sex fyrstu deildarleikjum sínum í vetur.
Snæfell-Tindastóll 86-76 (17-21, 24-18, 24-27, 21-10)
Snæfell: Sveinn Arnar Davíðsson 20/5 fráköst, Hafþór Ingi Gunnarsson 18, Jón Ólafur Jónsson 16/10 fráköst, Jay Threatt 12/5 fráköst/12 stoðsendingar, Asim McQueen 10/6 fráköst, Ólafur Torfason 5/6 fráköst, Pálmi Freyr Sigurgeirsson 5.
Tindastóll: Drew Gibson 24/7 fráköst/8 stoðsendingar, George Valentine 16/10 fráköst, Þröstur Leó Jóhannsson 10/4 fráköst, Helgi Rafn Viggósson 8/7 fráköst, Svavar Atli Birgisson 7/4 fráköst, Ingvi Rafn Ingvarsson 3, Helgi Freyr Margeirsson 3, Hreinn Gunnar Birgisson 3, Sigtryggur Arnar Björnsson 2.
Snæfell náði tveggja stiga forskoti á toppnum
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið




Baðst afsökunar á tæklingunni í Garðabænum
Íslenski boltinn


Liverpool tilkynnir um risasamning við Adidas
Enski boltinn



