Lífið

Það er helgi annan hvern mánudag á Prikinu

BBI skrifar
Prikið.
Prikið.
„Þetta er bara eitt það steiktasta sem ég hef lent í í þessum bransa," segir Finni á Prikinu um Mánudagsklúbbinn sem kemur saman á Prikinu annan hvern mánudag.

Mánudagsklúbburinn kom fyrst saman í janúar á þessu ári þegar nokkrir vinir ákváðu að hittast á mánudegi og tjútta á Prikinu. „Okkur fannst nokkrum svo óbærilegt í miðbænum um helgar," segir Ólöf Skaftadóttir, driffjöður í Mánudagsklúbbnum. Svo þau töluðu við Finna á Prikinu og fengu að spila annan hvern mánudag. Fyrst í stað var hópurinn ekki fjölmennur en uppátækið vatt svo ansi hressilega upp á sig og nú safnast saman á Prikinu annan hvern mánudag allir þeir sem finna þörf fyrir að hrista úr stirðum limum og djamma á virkum degi.

Vinahópurinn var því greinilega ekki einn um skoðun sína á helgarkvöldum í miðbænum og Ólöf segir að Mánudagsklúbbskvöldin séu bestu tvö kvöld hvers mánaðar. Kvöldin trekkja fjölda fólks að og ekki síst helstu bóhema landsins, en á síðasta mánudag voru þar m.a. saman komnir Erpur Eyvindarson rappari, Högni Egilsson söngvari, Þórunn Antonía söngkona, Berglind Pétursdóttir sérlegur gif-grínari og Unnsteinn Manuel, söngvari.

Innan raða klúbbsins eru fjölmargir listamenn og ekki er óvenjulegt að þeir stígi á stokk og taki óundirbúið lag fyrir gesti. Meðal annarra hafa Þórunn Antonía og EmmSjé Gauti flutt lög sín á Mánudagsklúbbnum.

„Það er helgi annan hvern mánudag hérna," segir Finni en gestafjöldi á Prikinu þegar Mánudagsklúbburinn kemur saman er margfaldur á við venjulegan mánudag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×