Þrasarar og þvergirðingar Guðmundur Andri Thorsson skrifar 23. janúar 2012 06:00 Þrjú ár liðin frá Búsáhaldabyltingu og uppgjör ganga hægt og með harmkvælum – nema náttúrlega ársuppgjör þeirra fyrirtækja sem fengið hafa milljarðaskuldir sínar afskrifaðar. Enn vaða uppi menn sem eignuðust gróin og ágæt fyrirtæki og skófu þau og skuldsettu og gerðu að rjúkandi rústum, kalla sig athafnamenn en ættu með réttu lagi að skúra einhvers staðar í samfélagsþjónustu. Engin uppgjör þar, engin iðrun, engin yfirbót. Bara forherðing tóm og einbeittur vilji til að halda áfram fyrri iðju við verðmætaskafelsi og eignarhaldsfélagasúpugerð. Þessi gömlu fyrirtæki sem þeir rústuðu skrölta að vísu sum áfram með ekkert hjól undir bílnum og flækjast fyrir þeim fyrirtækjum sem rekin voru af raunverulegum athafnamönnum, og eru í umsjón skilanefndafólks sem telur sig óskeikult af því að það er með þrjú hundruð þúsund krónur á tímann. Þrasarar til vinstriSvo á að heita að vinstri menn séu við völd hér og þar. Hafi það gilt um hægri menn sem Hannes Hólmsteinn orðaði svo prýðilega á velmektardögum útrásar og arðgreiðslna að þeir vilji „græða á daginn og grilla á kvöldin" má kannski segja að vinstri menn gefi um þessar mundir einkum þá mynd af sér að þeir vilji röfla á daginn og rífast á kvöldin. Vinstri menn virðast hreinlega ekki í rónni fyrr en þeim hefur tekist að sannfæra hvern einasta landsmann um að kjósa aldrei framar vinstri flokk, hverju nafni sem hann nefnist. Það er eins og þeir átti sig ekki á því að fólk kaus þá ekki til að rífast. Þeir eru ekki kosnir fyrst og fremst til að þaulrækta hvert einasta hugsanlegt ágreiningsefni sem má finna – þó að það sé auðvitað ágætt að skiptast á skoðunum og vera hreinskiptinn þá þarf líka stundum að tala saman – og standa saman; þeir eru ekki heldur kosnir til að láta smjör drjúpa af hverju strái eða uppfylla hverja ósk hvers einasta manns – þeir eru ekki kosnir til að vera andi í lampa – og þeir eru ekki einu sinni endilega kosnir til að tjá ævinlega hina einu ósveigjanlega alréttu skoðun í hverju máli. Kjósendur ætlast hins vegar til þess að það fólk sem þeir velja sem fulltrúa sína á þing vinni saman og sýni hvert öðru lágmarksvirðingu, sitji ekki á svikráðum hvert við annað heldur einbeiti sér að því að leysa þau verkefni sem ber að höndum af trúmennsku og með hagsmuni fjöldans að leiðarljósi. Það er kannski til mikils mælst og kannski finnst þessu fólki miklu skemmtilegra að rífast og gildir þar sjálfsagt hið fornkveðna að yfirleitt er meira gaman að þrátta sjálfur en að hlusta á annarra manna þras. En þetta fólk er sem sé fulltrúar kjósenda, því er ætlað að standa fyrir ákveðin grundvallaratriði í lífsviðhorfum og því er ætlað að vinna saman; þessir fulltrúar okkar og þjónar eru kosnir til að að finna út úr því – í sameiningu – hvernig best er að leysa mál, fremur en að leita ævinlega þess sem flækir mál, þeir eru kosnir til að standa vörð um ákveðin réttindi fólks, vinna gegn ójöfnuði og óréttlæti. Sumir hafa nú þegar hent frá sér völdunum og selt Sjálfstæðismönnum sjálfdæmi nú þegar, eins og gerðist í Kópavogi. Aðrir halda tilfinningaþrungnar ræður um að þeir hafi misskilið sig þegar þeir álpuðust á sínum tíma til að vera sammála eigin ríkisstjórn í Landsdómsmálinu. Þvergirðingar til hægriHægri menn þverskallast við að viðurkenna að nokkuð í stefnu þeirra hafi leitt til ófarnaðar. Á meðan þeir bíða eftir því að komast að á ný dunda þeir sér við að semja bækur um kommúnismann eins og hann sé einhvers staðar á dagskrá annars staðar en í Valhöll, í því skyni að telja fólki trú um að Gúlagið sé einasta hugsanlega mótvægið við það þjóðfélag óréttlætis, ójafnaðar, misskiptingar og auðræðis sem er hugsjón þessara manna. Það er partur af stríðinu um Söguna. Ekki er einungis ætlun þeirra að innprenta þjóðinni að kommúnískt einræði bíði hennar ef hún hleypi Flokknum ekki aftur að völdum – og þar með yrði auðmönnum og aflendingum sleppt lausum til að rústa því sem eftir kann að vera af atvinnulífi í landinu – heldur er allt kapp lagt á að láta þá söguskýringu verða ofan á að Hrunið hafi verið hamfarir að utan sem enginn mannlegur máttur hefði getað spornað við, og að þar hafi tólf ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins og markvisst afnám reglugerða og eftirlits með peningaöflunum ekki haft neitt að segja: Þetta var allt Bretum og Hollendingum að kenna. Sjálfur hef ég haft um það bil fimmtán skoðanir á Landsdómsmálinu svokallaða, oft allar í einu. Það held ég að gildi um okkur æði mörg. Við finnum til með Geir Haarde mörg hver þrátt fyrir allt og skynjum að það er ekki alls kostar réttlátt, að láta hann bera burt syndir heimsins. Við spyrjum: hvað með þennan og þennan og þennan? Af hverju er ekki búið að lögsækja verstu fjárplógsmennina? Af hverju fá þeir enn að reka fyrirtæki og yfirleitt hafa fjárráð? Og er það ekki einmitt rangt hjá auðræðissinnunum að stefnan hafi ekki brugðist heldur bara fólk: var það ekki einmitt þannig að stefnan var röng? Geir Haarde aðhylltist ranga stefnu og framfylgdi henni eins og hann var kosinn til að gera í lýðræðislegum kosningum. Ber okkur ekki þá að sjá til þess að menn með slíka stefnu komist ekki á ný til áhrifa? Jú, allt þetta: en á móti kemur að við vitnaleiðslur þurfa eiðsvarnir þátttakendur í hruninu að segja frá því sem gerðist. Það skiptir miklu máli. Og Geir gefst tækifæri til að standa fyrir sínu máli í stað þess að bera þessa byrði alla ævi: að hafa strandað þjóðarskútunni. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Við þekkjum öll einn alkóhólista - hættum að stinga höfðinu í sandinn Bryndís Rós Morrison Skoðun KVISS BANG! - mætti lausnin sem bjargaði Svíum nýtast okkur ? Jakob Frímann Magnússon Skoðun „Hvenær var þetta samtal við þjóðina tekið?“ spurði garðyrkjubóndinn Halla Hrund Logadóttir Skoðun Mikilvægi samfélagslöggæslu Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir Skoðun Fær ESB Ísland í jólagjöf? Stefán Vagn Stefánsson Skoðun Ert þú með geðsjúkdóm? Mjög líklega... Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Náttúruspjöll í sveitarfélagi ársins Kjartan H. Ágústsson Skoðun Þetta er víst einkavæðing! Engilbert Guðmundsson Skoðun Ofhugsanir: orsök & afleiðing Sara Pálsdóttir Skoðun Betra heilbrigðiskerfi fyrir konur Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun
Þrjú ár liðin frá Búsáhaldabyltingu og uppgjör ganga hægt og með harmkvælum – nema náttúrlega ársuppgjör þeirra fyrirtækja sem fengið hafa milljarðaskuldir sínar afskrifaðar. Enn vaða uppi menn sem eignuðust gróin og ágæt fyrirtæki og skófu þau og skuldsettu og gerðu að rjúkandi rústum, kalla sig athafnamenn en ættu með réttu lagi að skúra einhvers staðar í samfélagsþjónustu. Engin uppgjör þar, engin iðrun, engin yfirbót. Bara forherðing tóm og einbeittur vilji til að halda áfram fyrri iðju við verðmætaskafelsi og eignarhaldsfélagasúpugerð. Þessi gömlu fyrirtæki sem þeir rústuðu skrölta að vísu sum áfram með ekkert hjól undir bílnum og flækjast fyrir þeim fyrirtækjum sem rekin voru af raunverulegum athafnamönnum, og eru í umsjón skilanefndafólks sem telur sig óskeikult af því að það er með þrjú hundruð þúsund krónur á tímann. Þrasarar til vinstriSvo á að heita að vinstri menn séu við völd hér og þar. Hafi það gilt um hægri menn sem Hannes Hólmsteinn orðaði svo prýðilega á velmektardögum útrásar og arðgreiðslna að þeir vilji „græða á daginn og grilla á kvöldin" má kannski segja að vinstri menn gefi um þessar mundir einkum þá mynd af sér að þeir vilji röfla á daginn og rífast á kvöldin. Vinstri menn virðast hreinlega ekki í rónni fyrr en þeim hefur tekist að sannfæra hvern einasta landsmann um að kjósa aldrei framar vinstri flokk, hverju nafni sem hann nefnist. Það er eins og þeir átti sig ekki á því að fólk kaus þá ekki til að rífast. Þeir eru ekki kosnir fyrst og fremst til að þaulrækta hvert einasta hugsanlegt ágreiningsefni sem má finna – þó að það sé auðvitað ágætt að skiptast á skoðunum og vera hreinskiptinn þá þarf líka stundum að tala saman – og standa saman; þeir eru ekki heldur kosnir til að láta smjör drjúpa af hverju strái eða uppfylla hverja ósk hvers einasta manns – þeir eru ekki kosnir til að vera andi í lampa – og þeir eru ekki einu sinni endilega kosnir til að tjá ævinlega hina einu ósveigjanlega alréttu skoðun í hverju máli. Kjósendur ætlast hins vegar til þess að það fólk sem þeir velja sem fulltrúa sína á þing vinni saman og sýni hvert öðru lágmarksvirðingu, sitji ekki á svikráðum hvert við annað heldur einbeiti sér að því að leysa þau verkefni sem ber að höndum af trúmennsku og með hagsmuni fjöldans að leiðarljósi. Það er kannski til mikils mælst og kannski finnst þessu fólki miklu skemmtilegra að rífast og gildir þar sjálfsagt hið fornkveðna að yfirleitt er meira gaman að þrátta sjálfur en að hlusta á annarra manna þras. En þetta fólk er sem sé fulltrúar kjósenda, því er ætlað að standa fyrir ákveðin grundvallaratriði í lífsviðhorfum og því er ætlað að vinna saman; þessir fulltrúar okkar og þjónar eru kosnir til að að finna út úr því – í sameiningu – hvernig best er að leysa mál, fremur en að leita ævinlega þess sem flækir mál, þeir eru kosnir til að standa vörð um ákveðin réttindi fólks, vinna gegn ójöfnuði og óréttlæti. Sumir hafa nú þegar hent frá sér völdunum og selt Sjálfstæðismönnum sjálfdæmi nú þegar, eins og gerðist í Kópavogi. Aðrir halda tilfinningaþrungnar ræður um að þeir hafi misskilið sig þegar þeir álpuðust á sínum tíma til að vera sammála eigin ríkisstjórn í Landsdómsmálinu. Þvergirðingar til hægriHægri menn þverskallast við að viðurkenna að nokkuð í stefnu þeirra hafi leitt til ófarnaðar. Á meðan þeir bíða eftir því að komast að á ný dunda þeir sér við að semja bækur um kommúnismann eins og hann sé einhvers staðar á dagskrá annars staðar en í Valhöll, í því skyni að telja fólki trú um að Gúlagið sé einasta hugsanlega mótvægið við það þjóðfélag óréttlætis, ójafnaðar, misskiptingar og auðræðis sem er hugsjón þessara manna. Það er partur af stríðinu um Söguna. Ekki er einungis ætlun þeirra að innprenta þjóðinni að kommúnískt einræði bíði hennar ef hún hleypi Flokknum ekki aftur að völdum – og þar með yrði auðmönnum og aflendingum sleppt lausum til að rústa því sem eftir kann að vera af atvinnulífi í landinu – heldur er allt kapp lagt á að láta þá söguskýringu verða ofan á að Hrunið hafi verið hamfarir að utan sem enginn mannlegur máttur hefði getað spornað við, og að þar hafi tólf ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins og markvisst afnám reglugerða og eftirlits með peningaöflunum ekki haft neitt að segja: Þetta var allt Bretum og Hollendingum að kenna. Sjálfur hef ég haft um það bil fimmtán skoðanir á Landsdómsmálinu svokallaða, oft allar í einu. Það held ég að gildi um okkur æði mörg. Við finnum til með Geir Haarde mörg hver þrátt fyrir allt og skynjum að það er ekki alls kostar réttlátt, að láta hann bera burt syndir heimsins. Við spyrjum: hvað með þennan og þennan og þennan? Af hverju er ekki búið að lögsækja verstu fjárplógsmennina? Af hverju fá þeir enn að reka fyrirtæki og yfirleitt hafa fjárráð? Og er það ekki einmitt rangt hjá auðræðissinnunum að stefnan hafi ekki brugðist heldur bara fólk: var það ekki einmitt þannig að stefnan var röng? Geir Haarde aðhylltist ranga stefnu og framfylgdi henni eins og hann var kosinn til að gera í lýðræðislegum kosningum. Ber okkur ekki þá að sjá til þess að menn með slíka stefnu komist ekki á ný til áhrifa? Jú, allt þetta: en á móti kemur að við vitnaleiðslur þurfa eiðsvarnir þátttakendur í hruninu að segja frá því sem gerðist. Það skiptir miklu máli. Og Geir gefst tækifæri til að standa fyrir sínu máli í stað þess að bera þessa byrði alla ævi: að hafa strandað þjóðarskútunni.