Tilvistarkreppa fausks Davíð Þór Jónsson skrifar 4. febrúar 2012 06:00 Það er erfitt að vera fauskur. Samkvæmt fleygum ummælum eru hvítir, kristnir, gagnkynhneigðir, miðaldra karlmenn þeir einu sem ekkert slæmt má segja um. Fyrir vikið virðist mega láta hvað sem er flakka um þá. Í raun vantar mig aðeins byssuleyfið til að vera að margra mati holdgervingur alls sem að er í heiminum. En hvað getur þá hress gaur eins og ég gert til að halda hippinu og kúlinu þegar hann stendur frammi fyrir því að árin hafa gert hann að fauski? Er það yfirhöfuð hægt? Þegar ég var unglingur fannst mér ekkert aumkunarverðara en fólk á aldur við foreldra mína sem þóttist svalt með því að reyna að tileinka sér tísku minnar kynslóðar í tónlist og klæðaburði. Fauskurinn gegnir hlutverki. Honum ber að hneykslast á ungu fólki. Það er skylda hans gagnvart yngri kynslóðum að sýna þeim að þær hafi sinnt þeirri menningarlegu skyldu sinni að ganga fram af honum. Þannig er tuð fausks rós í hnappagat ungs listafólks. En hvernig getur fauskurinn sinnt þessari samfélagslegu skyldu af ábyrgð og kærleika? Það gerir hann ekki með því að sparka í liggjandi menn og hæðast að þeim sem eiga erfitt uppdráttar. Aftur á móti hlýtur hann að mega dangla í þá sem standa traustum fótum, rétt eins og mín kynlóð ólst bæði upp við Ísbjarnarblús og Spaugstofusketsa um „Subba Skorsteins". Það ætlaðist enginn til þess að Spaugstofumenn lægju flatir fyrir Utangarðsmönnum og ég þarf ekkert að afsaka það að ég liggi ekki marflatur fyrir „krúttunum". Ungu fólki ber að gera uppreisn. Það er í eðli þess. Það liggur jafnframt í hlutarins eðli að uppreisn gegn pönki getur ekki verið meira pönk. Nýja uppreisnin er því í því fólgin að vinda ofan af hamsleysinu og tryllingnum. Þetta er eðlileg og jafnvel óumflýjanleg þróun, hugsanlega heillavænleg. En það breytir því ekki að í eyrum manns sem hafði himin höndum tekið með Geislavirkum hljómar þessi tónlist eins og tilgerðarlegt mjálm. Það háir fausknum að aldurinn ljær honum virðuleika sem gerir það að verkum að fólki hættir til að taka hann alvarlega. Mér er það algjör nýlunda sem ég hef ekki enn vanist. Stundum skýt ég mig því í fótinn með kerskni sem skilin er sem illt innræti og atlaga að einstaklingum. Annað sem ég hef ekki enn vanist, þótt ég reki mig æ oftar á það, er hve hættulegt sjálfsháð er í hópi húmorslausra. Vonandi venst ég því aldrei. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Davíð Þór Jónsson Mest lesið Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Er aukin fræðsla um kólesteról og mettaða fitu virkilega upplýsingaóreiða? Sigurður Örn Ragnarsson Skoðun Þegar Samtök verslunar og þjónustu vita betur Erna Bjarnadóttir Skoðun Dæmalaus málflutningur Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Forréttindablinda strákanna í Viðskiptaráði Sonja Ýr Þorbergsdóttir Skoðun Þegar Trölli stal atkvæðum Eyjólfur Ingvi Bjarnason Skoðun Svar við hótunum Eflingar Sigurður G. Guðjónsson Skoðun Þorpið Alina Vilhjálmsdóttir Skoðun
Það er erfitt að vera fauskur. Samkvæmt fleygum ummælum eru hvítir, kristnir, gagnkynhneigðir, miðaldra karlmenn þeir einu sem ekkert slæmt má segja um. Fyrir vikið virðist mega láta hvað sem er flakka um þá. Í raun vantar mig aðeins byssuleyfið til að vera að margra mati holdgervingur alls sem að er í heiminum. En hvað getur þá hress gaur eins og ég gert til að halda hippinu og kúlinu þegar hann stendur frammi fyrir því að árin hafa gert hann að fauski? Er það yfirhöfuð hægt? Þegar ég var unglingur fannst mér ekkert aumkunarverðara en fólk á aldur við foreldra mína sem þóttist svalt með því að reyna að tileinka sér tísku minnar kynslóðar í tónlist og klæðaburði. Fauskurinn gegnir hlutverki. Honum ber að hneykslast á ungu fólki. Það er skylda hans gagnvart yngri kynslóðum að sýna þeim að þær hafi sinnt þeirri menningarlegu skyldu sinni að ganga fram af honum. Þannig er tuð fausks rós í hnappagat ungs listafólks. En hvernig getur fauskurinn sinnt þessari samfélagslegu skyldu af ábyrgð og kærleika? Það gerir hann ekki með því að sparka í liggjandi menn og hæðast að þeim sem eiga erfitt uppdráttar. Aftur á móti hlýtur hann að mega dangla í þá sem standa traustum fótum, rétt eins og mín kynlóð ólst bæði upp við Ísbjarnarblús og Spaugstofusketsa um „Subba Skorsteins". Það ætlaðist enginn til þess að Spaugstofumenn lægju flatir fyrir Utangarðsmönnum og ég þarf ekkert að afsaka það að ég liggi ekki marflatur fyrir „krúttunum". Ungu fólki ber að gera uppreisn. Það er í eðli þess. Það liggur jafnframt í hlutarins eðli að uppreisn gegn pönki getur ekki verið meira pönk. Nýja uppreisnin er því í því fólgin að vinda ofan af hamsleysinu og tryllingnum. Þetta er eðlileg og jafnvel óumflýjanleg þróun, hugsanlega heillavænleg. En það breytir því ekki að í eyrum manns sem hafði himin höndum tekið með Geislavirkum hljómar þessi tónlist eins og tilgerðarlegt mjálm. Það háir fausknum að aldurinn ljær honum virðuleika sem gerir það að verkum að fólki hættir til að taka hann alvarlega. Mér er það algjör nýlunda sem ég hef ekki enn vanist. Stundum skýt ég mig því í fótinn með kerskni sem skilin er sem illt innræti og atlaga að einstaklingum. Annað sem ég hef ekki enn vanist, þótt ég reki mig æ oftar á það, er hve hættulegt sjálfsháð er í hópi húmorslausra. Vonandi venst ég því aldrei.
Er aukin fræðsla um kólesteról og mettaða fitu virkilega upplýsingaóreiða? Sigurður Örn Ragnarsson Skoðun
Er aukin fræðsla um kólesteról og mettaða fitu virkilega upplýsingaóreiða? Sigurður Örn Ragnarsson Skoðun