Lífið

Sólstafir spila Svarta sanda í heild sinni

Aðalbjörg Tryggvason úr Sólstöfum lofar mikilli stemningu í Gamla bíói á fimmtudag.
Aðalbjörg Tryggvason úr Sólstöfum lofar mikilli stemningu í Gamla bíói á fimmtudag. fréttablaðið/gva
Rokksveitin Sólstafir heldur útgáfutónleika í Gamla bíói á fimmtudag þar sem platan Svartir sandar verður leikin í heild sinni með aðstoð reynslubolta úr rokksenunni.

„Við ætlum að leika þessa plötu í þetta fyrsta og eina skipti,“ segir söngvarinn Aðalbjörn Tryggvason. „Við höfum bara leikið þrjú lög af plötunni á tónleikum áður og eitthvað af þessum lögum verða ekki leikin aftur.“

Aðspurður segist hann mjög ánægður með viðbrögðin sem Svartir sandar hefur fengið. „Platan hefur gengið mjög vel hérlendis, í Þýskalandi, Finnlandi og Englandi,“ segir Aðalbjörn.

Grein um hljómsveitina var birt í þýska dagblaðinu Der Spiegel og platan náði inn á vinsældarlista í Finnlandi. Þangað fer hljómsveitin einmitt í viku tónleikaferð í vor. Tónleikaferð sveitarinnar um Evrópu hefst annars um miðjan mars og stendur hún yfir í tvo mánuði. Í sumar verður svo spilað á hinum ýmsu tónlistarhátíðum í Evrópu.

Hópur fólks mun aðstoða Sólstafir á tónleikunum á fimmtudag, þar á meðal Steinar Sigurðarson, Heiða í Hellvar, Hallgrímur Jón Hallgrímsson og Halldór Á Björnsson sem aðstoðuðu sveitina við upptökur á plötunni. Hallur Ingólfsson og Birgir Jónsson úr XIII spila einnig ásamt Jóni Birni Ríkharðssyni úr Brain Police og bakraddasöngvurunum Agnari Eldberg og Kristófer Jenssyni. Gunnar Ben úr Skálmöld stjórnar kór sem syngur einnig á tónleikunum. -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.