Heimsbyggðin fylgdist með þegar söngkonan Whitney Houston var borin til grafar í heimabæ sínum Newark á laugardaginn í beinni sjónvarpsútsendingu.
„Þú varst ekki bara sæt, þú varst falleg. Fólki þótti ekki bara vænt um þig, þau elskuðu þig," sagði leikarinn Kevin Costner í ræðunni sem hann fór með í útför Whitney Houston. Costner og Houston urðu miklir vinir eftir að þau léku saman í myndinni Bodyguard. Lagið úr myndinni I Will Always Love You var spilað í kirkjunni þegar kistan var borin út.
Það voru þéttsetnir kirkjubekkirnir í New Hope kirkjunni í Newark af vinum og vandamönnum söngkonunnar, meira að segja svo þéttsetnir að Bobbi Brown, fyrrum eiginmanni Houston, þótti nóg um og lét sig hverfa í upphafi athafnarinnar. Var hann ósáttur við sætaskipan í kirkjunni og fannst leiðinlegt að vera meinaður aðgangur að sameiginlegri dóttur sinni og Houston, Bobbi Kristinu.
Stevie Wonder og Alicia Keys voru meðal þeirra tónlistamanna sem tóku lagið í kirkjunni og Dionne Warwick hélt ræðu um kynni sín af Whitney Houston, sem var aðeins 48 ára gömul þegar hún lést.
