Nýtt og endurnýtt Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar 7. mars 2012 07:00 Það er í tísku að endurnýta og endurvinna. Gera upp hús á sniðugan og hagkvæman hátt, jafnvel lífrænan. Það er í tísku að leggja bílnum og ganga eða hjóla. Sumir ganga svo langt að selja bílinn og tala um frelsun frá oki bensínreikningsins. Þetta sé ekkert mál, maður þurfi bara að skipuleggja sig, leggja tímanlega af stað. Þeir sem frelsast hvað harðast breiða út boðskapinn og verður mikið í mun að frelsa fleiri. Bíllaus dagur, tökum strætó, hjólum í vinnuna og brennum kaloríum í leiðinni. Hættum líka allri heimtufrekju og temjum okkur nægjusemi áður en við drekkjum jörðinni í drasli sem við hættum að nota, bara af því okkur langar í nýtt. Hvað á það að þýða að henda stráheilum eldhúsinnréttingum eins og snarbilað fólk? Kaupa sjónvörp á stærð við auglýsingaskilti verslunarmiðstöðvar þegar gamla 14 tommu túban skilar myndinni alveg eins inn í augun á okkur? Ég get sjálf hrifist af þessum boðskap. Finnst frábært að endurnýta hluti, jahérna! Að hugsa sér alla fjársjóðina sem leynast í geymslum, hlutir „með sál". Alveg hreint fáránlegt að sóa peningum í nýtt og nýtt þegar gamalt dugir allt eins vel. Þá skammast ég mín fyrir allan óþarfann sem ég á og bæli niður löngunina í nýja eldhúsið sem ólmast innan í mér. Segi engum frá skónum sem ég keypti í haust sem enn eru með verðmiðanum á. Ég sé líka í hyllingum hvernig kaloríurnar fjúka „þegar" ég sel bílinn og fer allra minna ferða gangandi, hvernig þrekið eykst og heilbrigðið skín af mér. Frábært að vera laus við bensínreikninginn, hvað þá tryggingarnar, dæsi ég á göngunni. Það hlýtur hver einasti maður að sjá að þetta er eina vitið! Snýst bara um skipulag, leggja tímanlega af stað. Nú, ef ég verð sein fyrir fæ ég bara farhjá einhverjum –sem á bíl! Þegar kemur að því að setja upp eldhúsinnréttingu á vegg án þess að fara út í búð verð ég líka að treysta því að einhver hendi, einmitt þá, stráheilli innréttingu á haugana. Ég hef himin höndum tekið, ekki gæti ég notað hana ef eigandinn væri að henda innréttingunni vegna þess að hún er ónýt! Ég er ekki viss um að ég gæti nokkurn tímann haldið úti endurnýtanlega og bíllausa lífsstílnum, nema einmitt fyrir þá sem gera það ekki. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ragnheiður Tryggvadóttir Mest lesið Það er allt í lagi að vera þú sjálfur - Opið bréf til Snorra Mássonar Kári Stefánsson Skoðun Samfélag án Pírata Lenya Rún Taha Karim Skoðun Foreldrar, ömmur og afar þessa lands - áskorun til ykkar! Ragnheiður Stephensen Skoðun Krónan eða evran? Kostir og gallar Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Hver er munurinn á Viðreisn og Samfylkingu? Soffía Svanhvít Árnadóttir Skoðun Þarf ég að flytja úr landi? Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir Skoðun Helvítis fokking fokk!! Er ekki nóg komið? Maríanna H. Helgadóttir Skoðun Annarra manna peningar eru peningar okkar allra Davíð Þór Jónsson Skoðun Bannað að lækna sykursýki II Lukka Pálsdóttir Skoðun Ég á ‘etta, ég má ‘etta Jón Ármann Steinsson Skoðun
Það er í tísku að endurnýta og endurvinna. Gera upp hús á sniðugan og hagkvæman hátt, jafnvel lífrænan. Það er í tísku að leggja bílnum og ganga eða hjóla. Sumir ganga svo langt að selja bílinn og tala um frelsun frá oki bensínreikningsins. Þetta sé ekkert mál, maður þurfi bara að skipuleggja sig, leggja tímanlega af stað. Þeir sem frelsast hvað harðast breiða út boðskapinn og verður mikið í mun að frelsa fleiri. Bíllaus dagur, tökum strætó, hjólum í vinnuna og brennum kaloríum í leiðinni. Hættum líka allri heimtufrekju og temjum okkur nægjusemi áður en við drekkjum jörðinni í drasli sem við hættum að nota, bara af því okkur langar í nýtt. Hvað á það að þýða að henda stráheilum eldhúsinnréttingum eins og snarbilað fólk? Kaupa sjónvörp á stærð við auglýsingaskilti verslunarmiðstöðvar þegar gamla 14 tommu túban skilar myndinni alveg eins inn í augun á okkur? Ég get sjálf hrifist af þessum boðskap. Finnst frábært að endurnýta hluti, jahérna! Að hugsa sér alla fjársjóðina sem leynast í geymslum, hlutir „með sál". Alveg hreint fáránlegt að sóa peningum í nýtt og nýtt þegar gamalt dugir allt eins vel. Þá skammast ég mín fyrir allan óþarfann sem ég á og bæli niður löngunina í nýja eldhúsið sem ólmast innan í mér. Segi engum frá skónum sem ég keypti í haust sem enn eru með verðmiðanum á. Ég sé líka í hyllingum hvernig kaloríurnar fjúka „þegar" ég sel bílinn og fer allra minna ferða gangandi, hvernig þrekið eykst og heilbrigðið skín af mér. Frábært að vera laus við bensínreikninginn, hvað þá tryggingarnar, dæsi ég á göngunni. Það hlýtur hver einasti maður að sjá að þetta er eina vitið! Snýst bara um skipulag, leggja tímanlega af stað. Nú, ef ég verð sein fyrir fæ ég bara farhjá einhverjum –sem á bíl! Þegar kemur að því að setja upp eldhúsinnréttingu á vegg án þess að fara út í búð verð ég líka að treysta því að einhver hendi, einmitt þá, stráheilli innréttingu á haugana. Ég hef himin höndum tekið, ekki gæti ég notað hana ef eigandinn væri að henda innréttingunni vegna þess að hún er ónýt! Ég er ekki viss um að ég gæti nokkurn tímann haldið úti endurnýtanlega og bíllausa lífsstílnum, nema einmitt fyrir þá sem gera það ekki.