Lárviðarskáldið Einar Már Guðmundur Andri Thorsson skrifar 19. mars 2012 06:00 Flestir á mínu reki muna fyrst eftir Einari Má í svörtum leðurjakka á pönkárunum að selja ljóðin sín: Sendisveinninn er einmana og Er nokkur í kórónafötum hér inni? Flestir keyptu bókina, þetta voru auðskilin ljóð, það var einhver prósi í þeim, rétt eins og það er alltaf eitthvert ljóð í prósa Einars. Þrátt fyrir leðurjakkann og ytra pönkfas var hann hláturmildur og drengjalegur – hér var ekki þungbúið skáld, alls ekki hógvært og fráleitt innhverft skáld – þetta var rokk-skáld. Það var Pétur Gunnarsson sem innleiddi hið bítlalega í íslenskar bókmenntir. Fram að Punktinum hans var gjörvöll menning ungs fólks utan landamæra þess sem mátti skrifa um nema með hnussi. Með Pétri kom einlægni og sakleysi hinna gömlu bítlalaga áður en allt lenti þar út í í tómum hedónisma og skilvita – meðvitaðri – brenglun. Allt í einu mátti segja fimmaurabrandara í skáldskap og lýsa keleríi og poppkornsáti án þess að hnussa, bíóferðum, strætó, borginni ungu … Pétur Gunnarsson braut niður Berlínarmúrinn sem hafði varið íslenskar bókmenntir fyrir erlendri lágmenningu. Upp úr miðri síðustu öld var Reykjavík allt í einu orðin ung. Hún var áform. Hún var stillansar og steypa, moldarbingir og drullusvað, endalaus úthverfi og enn ekki komin nein innhverfi. Það ríkti einhvern eftirvænting eins og eitthvað væri í vændum. Svona hefst einmitt önnur skáldsaga Einars Más, Vængjasláttur í þakrennum: „Slík er eftirvæntingin slík er spennan." Hann má ekki einu sinni vera að því að setja kommu á milli setninganna. Því að það var Einar Már sem tók upp þráðinn frá Pétri og spann hann áfram. Andri Péturs Gunnarssonar hélt áfram að eldast og einhvern veginn þrengjast eftir því sem leið á bækur hans og þá kom Einar Már með þessa söguvitund barns og spekings – þessa sérstæðu rödd sem var alltaf að ávarpa og kalla á þennan Óla – og fór að skrifa um það hvernig var að alast upp í Reykjavík á 6. áratug síðustu aldar, í Vogunum, sem var regin-úthverfið, sjálfur borgarjaðarinn í austri, spriklandi af ungu lífi. Var ekki soldið bítl í því í sjálfu sér? Voru ekki Vogarnir einmitt Liverpool Íslands frekar en Keflavík, þessi ameríski smábær? Frá Guðbergi Bergssyni fékk Einar Már tilfinningu fyrir formi og stíl, því hvernig ófegrað mannlífið getur opinberast sem skáldskapur. Hann segir frá því í Bankastræti núll, seinustu bókinni sinni hvernig hann „… sat kannski í strætó með bók eftir Guðberg og sá blokkirnar í úthverfinu hjúpaðar þoku og gráma og hugsaði með mér: Þessu langar mig að lýsa." Bókmenntalegum fagurkerum þótti efnið en þó einkum sögusviðið hins vegar ósegjanlega lítilsiglt og var algengt að heyra háðsglósur um „bernskuminningar ungra skálda úr Vogunum" á þessum árum, eins og þetta væri alrangt sögusvið, saga sem ekki væri þess verð að segja. Pétur Gunn og Guðbergur, Megas, Dylan, Lennon, Günter Grass, Brautigan – alls konar kallar hafa eflaust ómað í þessum haus með vængi á heilanum en frá fyrstu tíð var þetta hans rödd, há, svolítið hvell, full af vissu um erindi sitt, full af frásagnarlöngun, ritgleði og eftirvæntingu. Hann lýsti barnaskaranum, húsmæðrunum, atvinnustarfseminni, prestinum, dúfunum, rigningunni og hálfbyggðum blokkunum – mannlífinu, anda hverfisins: þetta var hans Macondo og hann lét sér úrtöluraddir í léttu rúmi liggja. Það hefur Einar Már alltaf gert. Hann hefur iðulega fengið fremur dræmar viðtökur frá Bókmenntastofnuninni hér á landi, hefur til dæmis aldrei verið á áskrifendalistanum þegar tilnefningar til Bókmenntaverðlaunanna eru annars vegar en notið velgengni í nágrannalöndunum. Hann skrifaði trílógíuna úr Vogunum, um landnám og auðn, æskuleiki og dauða, upphaf og endalok og eftirmálann sem kannski var skáldlegasta bókin hans. Seinna skrifaði hann aðrar og eiginlega ennþá áhrifameiri bækur um fátækt fólk á Íslandi á fyrri hluta síðustu aldar og ömurlegar aðstæður þess – sitt fólk. Í skurðpunktinum þarna á milli og kannski í skurðpunktinum á höfundarferli Einars Más er svo þessi vængjaða skáldsaga, Englar alheimsins, þar sem hann safnar saman öllum sínum kröftum, allri sinni þekkingu og innlifun, innsæi, orðkynngi – öllu sínu ljóði – til að lýsa lífi í geðveiki. Í Hruninu er svo Einar Már allt í einu mættur á hverjum laugardegi hjá honum Herði Torfa (nei, Hörður Torfa var ekki starfsmaður Álfheiðar Inga eða Steingríms J. eða VG heldur einfari og jú víst: það var Hörður sem skipulagði útifundina á Austurvelli í Búsáhaldabyltingunni og á skilið að það sé viðurkennt refjalaust). En þarna, í Hruninu, var Einar Már, gamli byltingarsinninn, sem sé mættur, alltaf, og þegar hann var ekki sjálfur að halda innblásnar og andríkar ræður gegn auðvaldinu þá var hann við ræðupallinn að stappa stálinu í þau sem áttu að fara að tala og klappa hinum á bakið sem voru nýbúin. Hann var þarna af alefli – gaf allt sitt; kom kannski ekki með potta og pönnur á Austurvöll til að láta glymja í heldur heldur með ljóðið, vængjuðu orðin og lét þau fljúga inn í hugskot þeirra sem hlustuðu til að setjast þar á heilann … En Einar! Til hamingju með litla Nóbelinn. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið „Hvenær var þetta samtal við þjóðina tekið?“ spurði garðyrkjubóndinn Halla Hrund Logadóttir Skoðun Ert þú með geðsjúkdóm? Mjög líklega... Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Geðdeild Akureyrar aðeins með 10 pláss á legudeild fyrir sjúklinga með alvarlegan geðrænan vanda Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Opið bréf til Bjarna Benediktssonar: Bruninn á Stuðlum: Hver ber ábyrgð? Anna María Ingveldur Larsen Skoðun Þeir sem þurfa ekki að takast á við afleiðingar gjörða sinna Davíð Már Sigurðsson Skoðun Geðheilbrigðiskerfi án sálfræðinga, hvernig hljómar það? María Mjöll Björnsdóttir Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Fær ESB Ísland í jólagjöf? Stefán Vagn Stefánsson Skoðun Nærsýni afinn og baunabyssan Ragnar Þór Pétursson Skoðun Náttúruspjöll í sveitarfélagi ársins Kjartan H. Ágústsson Skoðun
Flestir á mínu reki muna fyrst eftir Einari Má í svörtum leðurjakka á pönkárunum að selja ljóðin sín: Sendisveinninn er einmana og Er nokkur í kórónafötum hér inni? Flestir keyptu bókina, þetta voru auðskilin ljóð, það var einhver prósi í þeim, rétt eins og það er alltaf eitthvert ljóð í prósa Einars. Þrátt fyrir leðurjakkann og ytra pönkfas var hann hláturmildur og drengjalegur – hér var ekki þungbúið skáld, alls ekki hógvært og fráleitt innhverft skáld – þetta var rokk-skáld. Það var Pétur Gunnarsson sem innleiddi hið bítlalega í íslenskar bókmenntir. Fram að Punktinum hans var gjörvöll menning ungs fólks utan landamæra þess sem mátti skrifa um nema með hnussi. Með Pétri kom einlægni og sakleysi hinna gömlu bítlalaga áður en allt lenti þar út í í tómum hedónisma og skilvita – meðvitaðri – brenglun. Allt í einu mátti segja fimmaurabrandara í skáldskap og lýsa keleríi og poppkornsáti án þess að hnussa, bíóferðum, strætó, borginni ungu … Pétur Gunnarsson braut niður Berlínarmúrinn sem hafði varið íslenskar bókmenntir fyrir erlendri lágmenningu. Upp úr miðri síðustu öld var Reykjavík allt í einu orðin ung. Hún var áform. Hún var stillansar og steypa, moldarbingir og drullusvað, endalaus úthverfi og enn ekki komin nein innhverfi. Það ríkti einhvern eftirvænting eins og eitthvað væri í vændum. Svona hefst einmitt önnur skáldsaga Einars Más, Vængjasláttur í þakrennum: „Slík er eftirvæntingin slík er spennan." Hann má ekki einu sinni vera að því að setja kommu á milli setninganna. Því að það var Einar Már sem tók upp þráðinn frá Pétri og spann hann áfram. Andri Péturs Gunnarssonar hélt áfram að eldast og einhvern veginn þrengjast eftir því sem leið á bækur hans og þá kom Einar Már með þessa söguvitund barns og spekings – þessa sérstæðu rödd sem var alltaf að ávarpa og kalla á þennan Óla – og fór að skrifa um það hvernig var að alast upp í Reykjavík á 6. áratug síðustu aldar, í Vogunum, sem var regin-úthverfið, sjálfur borgarjaðarinn í austri, spriklandi af ungu lífi. Var ekki soldið bítl í því í sjálfu sér? Voru ekki Vogarnir einmitt Liverpool Íslands frekar en Keflavík, þessi ameríski smábær? Frá Guðbergi Bergssyni fékk Einar Már tilfinningu fyrir formi og stíl, því hvernig ófegrað mannlífið getur opinberast sem skáldskapur. Hann segir frá því í Bankastræti núll, seinustu bókinni sinni hvernig hann „… sat kannski í strætó með bók eftir Guðberg og sá blokkirnar í úthverfinu hjúpaðar þoku og gráma og hugsaði með mér: Þessu langar mig að lýsa." Bókmenntalegum fagurkerum þótti efnið en þó einkum sögusviðið hins vegar ósegjanlega lítilsiglt og var algengt að heyra háðsglósur um „bernskuminningar ungra skálda úr Vogunum" á þessum árum, eins og þetta væri alrangt sögusvið, saga sem ekki væri þess verð að segja. Pétur Gunn og Guðbergur, Megas, Dylan, Lennon, Günter Grass, Brautigan – alls konar kallar hafa eflaust ómað í þessum haus með vængi á heilanum en frá fyrstu tíð var þetta hans rödd, há, svolítið hvell, full af vissu um erindi sitt, full af frásagnarlöngun, ritgleði og eftirvæntingu. Hann lýsti barnaskaranum, húsmæðrunum, atvinnustarfseminni, prestinum, dúfunum, rigningunni og hálfbyggðum blokkunum – mannlífinu, anda hverfisins: þetta var hans Macondo og hann lét sér úrtöluraddir í léttu rúmi liggja. Það hefur Einar Már alltaf gert. Hann hefur iðulega fengið fremur dræmar viðtökur frá Bókmenntastofnuninni hér á landi, hefur til dæmis aldrei verið á áskrifendalistanum þegar tilnefningar til Bókmenntaverðlaunanna eru annars vegar en notið velgengni í nágrannalöndunum. Hann skrifaði trílógíuna úr Vogunum, um landnám og auðn, æskuleiki og dauða, upphaf og endalok og eftirmálann sem kannski var skáldlegasta bókin hans. Seinna skrifaði hann aðrar og eiginlega ennþá áhrifameiri bækur um fátækt fólk á Íslandi á fyrri hluta síðustu aldar og ömurlegar aðstæður þess – sitt fólk. Í skurðpunktinum þarna á milli og kannski í skurðpunktinum á höfundarferli Einars Más er svo þessi vængjaða skáldsaga, Englar alheimsins, þar sem hann safnar saman öllum sínum kröftum, allri sinni þekkingu og innlifun, innsæi, orðkynngi – öllu sínu ljóði – til að lýsa lífi í geðveiki. Í Hruninu er svo Einar Már allt í einu mættur á hverjum laugardegi hjá honum Herði Torfa (nei, Hörður Torfa var ekki starfsmaður Álfheiðar Inga eða Steingríms J. eða VG heldur einfari og jú víst: það var Hörður sem skipulagði útifundina á Austurvelli í Búsáhaldabyltingunni og á skilið að það sé viðurkennt refjalaust). En þarna, í Hruninu, var Einar Már, gamli byltingarsinninn, sem sé mættur, alltaf, og þegar hann var ekki sjálfur að halda innblásnar og andríkar ræður gegn auðvaldinu þá var hann við ræðupallinn að stappa stálinu í þau sem áttu að fara að tala og klappa hinum á bakið sem voru nýbúin. Hann var þarna af alefli – gaf allt sitt; kom kannski ekki með potta og pönnur á Austurvöll til að láta glymja í heldur heldur með ljóðið, vængjuðu orðin og lét þau fljúga inn í hugskot þeirra sem hlustuðu til að setjast þar á heilann … En Einar! Til hamingju með litla Nóbelinn.
Geðdeild Akureyrar aðeins með 10 pláss á legudeild fyrir sjúklinga með alvarlegan geðrænan vanda Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun
Opið bréf til Bjarna Benediktssonar: Bruninn á Stuðlum: Hver ber ábyrgð? Anna María Ingveldur Larsen Skoðun
Geðdeild Akureyrar aðeins með 10 pláss á legudeild fyrir sjúklinga með alvarlegan geðrænan vanda Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun
Opið bréf til Bjarna Benediktssonar: Bruninn á Stuðlum: Hver ber ábyrgð? Anna María Ingveldur Larsen Skoðun