Lífið

Vinskapur og barneignir

Gamanmyndin Friends with Kids verður frumsýnd hér á landi annað kvöld og fer einvala lið leikara með aðalhlutverkin í myndinni.

Kvikmyndin segir frá vinunum Julie og Jason sem ákveða að eignast saman barn og ala það upp án frekari skuldbindinga. Vinir þeirra verða nokkuð hissa við fréttirnar og enn frekar þegar þau átta sig á því að Julia og Jason virðast ánægð með fyrirkomulagið. Það kemur þó babb í bátinn þegar þau verða bæði ástfangin af öðrum.

Leikkonan Jennifer Westfeldt fer með hlutverk Juliu í kvikmyndinni, skrifar handritið og leikstýrir kvikmyndinni en Friends with Kids er frumraun hennar sem leikstjóra.

Eiginmaður Westfeldt, leikarinn Jon Hamm, fer einnig með hlutverk í myndinni ásamt Kristen Wiig, Mayu Rudolph, Chris O'Dowd, Edward Burns og Megan Fox.

Kristen Wiig og Jon Hamm.
Hugmyndin að handritinu varð til þegar vinir Westfeldt og Hamms fóru að eignast börn og hurfu smátt og smátt úr lífi þeirra hjóna.

Vinur þeirra og mótleikari, Adam Scott, hefur viðurkennt að þetta sé ekki fjarri lagi því hann og eiginkona hans „urðu hræðilegir vinir" því þau höfðu engan tíma til að rækta vinskap sinn við „Jen og Jon eftir barneignir".






Fleiri fréttir

Sjá meira


×