Karlréttindakona – kvenréttindakarl 26. mars 2012 08:00 Einhverra hluta vegna hafa ummæli Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, í viðtali við vikublaðið Monitor valdið titringi meðal fólks sem er áhugasamt um jafnrétti kynjanna. Einkum tvenn ummæli í viðtalinu hafa verið til umræðu. Annars vegar að Vigdís hafi talað um „öfgafemínisma". Það gerði hún reyndar ekki, heldur spyrjandinn. Vigdís sagðist vara við öllum öfgum og sagði að þær gætu eyðilagt góðan málstað. Það virðist ekki vera afstaða sem ætti að koma neinum úr jafnvægi. Hin ummælin voru þessi: „Ég er mikil kvenréttindakona en ég er líka karlréttindakona og ég er að verða meiri og meiri karlréttindakona því ég vil hafa jafnvægi í þessu í þjóðfélaginu. Ég vil ekki að karlar þurfi að upplifa það sem konur þurftu að upplifa áður, að konur séu orðnar það sterkar að karlar þurfi að hafa sig alla við til að viðhalda jafnrétti." Nú efast varla nokkur maður um að Vigdís Finnbogadóttir er einn ötulasti talsmaður kvenréttinda á Íslandi og þótt víðar væri leitað. Af hverju hrekkur fólk þá í kút þegar hún talar um réttindi karla? Eru þau einhvern veginn ósamrýmanleg réttindum kvenna? Í jafnréttisbaráttunni hallar sannarlega meira á konur en karla. Konur hafa hvorki sömu stöðu né vald og karlar. Það þýðir ekki að jafnréttissinnar eigi að horfa framhjá þeim sviðum, þar sem hallar á karlana. Þangað til á allra síðustu árum hafa karlar, sem gætu hugsað sér að helga sig börnum og heimili um lengri eða skemmri tíma, til dæmis haft til þess miklu minni réttindi og tækifæri en konur. Feður standa höllum fæti í forsjármálum. Karlar sem velja sér hefðbundin kvennastörf mæta fordómum. Ýmislegt bendir til að strákar dragist aftur úr stelpum í menntakerfinu. Karl- og kvenréttindi eru oftast nær tvær hliðar á sama peningnum. Ef körlum er gert kleift að taka þátt í heimilisstörfum og barnauppeldi til jafns við konur, eykst jafnframt svigrúm kvenna á vinnumarkaðnum. Ef það er almennt viðurkennt að umönnun barna sé jafnt á herðum beggja kynja, bresta forsendurnar fyrir að mismuna feðrum og mæðrum þegar kemur að forsjá barna eftir skilnað. Ef það tekst að eyða þeim fordómum að til séu karla- og kvennastörf er fólk af báðum kynjum betur sett og getur fremur helgað sig raunverulegum hugðarefnum sínum. Vigdís Finnbogadóttir hefur verið ötull talsmaður þess að karlar taki þátt í jafnréttisbaráttunni til jafns við konur. Slíkt er auðvitað forsenda þess að baráttan beri varanlegan árangur. Um leið er nauðsynlegt að útskýra fyrir körlum hvað þeir græði á jafnrétti kynjanna. Jafnréttisbaráttan er ekki átök milli karla og kvenna, þótt illu heilli sé sá misskilningur stundum á kreiki. Hún er barátta fólks af báðum kynjum gegn úreltum kynhlutverkum, fordómum og ranghugmyndum um hvað fólk kunni, vilji og geti. Karlar hafa ekki einkarétt á þeim ranghugmyndum. Allir raunverulegir jafnréttissinnar hljóta þess vegna að vera bæði karl- og kvenréttindasinnar; karlréttindakonur, kvenréttindakarlar, öfugt og hvort tveggja. Þetta er samvinnuverkefni. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Forréttindablinda strákanna í Viðskiptaráði Sonja Ýr Þorbergsdóttir Skoðun Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun
Einhverra hluta vegna hafa ummæli Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, í viðtali við vikublaðið Monitor valdið titringi meðal fólks sem er áhugasamt um jafnrétti kynjanna. Einkum tvenn ummæli í viðtalinu hafa verið til umræðu. Annars vegar að Vigdís hafi talað um „öfgafemínisma". Það gerði hún reyndar ekki, heldur spyrjandinn. Vigdís sagðist vara við öllum öfgum og sagði að þær gætu eyðilagt góðan málstað. Það virðist ekki vera afstaða sem ætti að koma neinum úr jafnvægi. Hin ummælin voru þessi: „Ég er mikil kvenréttindakona en ég er líka karlréttindakona og ég er að verða meiri og meiri karlréttindakona því ég vil hafa jafnvægi í þessu í þjóðfélaginu. Ég vil ekki að karlar þurfi að upplifa það sem konur þurftu að upplifa áður, að konur séu orðnar það sterkar að karlar þurfi að hafa sig alla við til að viðhalda jafnrétti." Nú efast varla nokkur maður um að Vigdís Finnbogadóttir er einn ötulasti talsmaður kvenréttinda á Íslandi og þótt víðar væri leitað. Af hverju hrekkur fólk þá í kút þegar hún talar um réttindi karla? Eru þau einhvern veginn ósamrýmanleg réttindum kvenna? Í jafnréttisbaráttunni hallar sannarlega meira á konur en karla. Konur hafa hvorki sömu stöðu né vald og karlar. Það þýðir ekki að jafnréttissinnar eigi að horfa framhjá þeim sviðum, þar sem hallar á karlana. Þangað til á allra síðustu árum hafa karlar, sem gætu hugsað sér að helga sig börnum og heimili um lengri eða skemmri tíma, til dæmis haft til þess miklu minni réttindi og tækifæri en konur. Feður standa höllum fæti í forsjármálum. Karlar sem velja sér hefðbundin kvennastörf mæta fordómum. Ýmislegt bendir til að strákar dragist aftur úr stelpum í menntakerfinu. Karl- og kvenréttindi eru oftast nær tvær hliðar á sama peningnum. Ef körlum er gert kleift að taka þátt í heimilisstörfum og barnauppeldi til jafns við konur, eykst jafnframt svigrúm kvenna á vinnumarkaðnum. Ef það er almennt viðurkennt að umönnun barna sé jafnt á herðum beggja kynja, bresta forsendurnar fyrir að mismuna feðrum og mæðrum þegar kemur að forsjá barna eftir skilnað. Ef það tekst að eyða þeim fordómum að til séu karla- og kvennastörf er fólk af báðum kynjum betur sett og getur fremur helgað sig raunverulegum hugðarefnum sínum. Vigdís Finnbogadóttir hefur verið ötull talsmaður þess að karlar taki þátt í jafnréttisbaráttunni til jafns við konur. Slíkt er auðvitað forsenda þess að baráttan beri varanlegan árangur. Um leið er nauðsynlegt að útskýra fyrir körlum hvað þeir græði á jafnrétti kynjanna. Jafnréttisbaráttan er ekki átök milli karla og kvenna, þótt illu heilli sé sá misskilningur stundum á kreiki. Hún er barátta fólks af báðum kynjum gegn úreltum kynhlutverkum, fordómum og ranghugmyndum um hvað fólk kunni, vilji og geti. Karlar hafa ekki einkarétt á þeim ranghugmyndum. Allir raunverulegir jafnréttissinnar hljóta þess vegna að vera bæði karl- og kvenréttindasinnar; karlréttindakonur, kvenréttindakarlar, öfugt og hvort tveggja. Þetta er samvinnuverkefni.