Gullgæs í lífshættu Ólafur Þ. Stephensen skrifar 28. mars 2012 08:00 Forysta ríkisstjórnarinnar kynnti í fyrradag nýtt frumvarp um stjórn fiskveiða, sem sagt er vera „efniviður í sáttargjörð um sjávarútvegsmál sem allir eigi að geta unað vel við". Draga verður í efa að nokkur sátt geti náðst um þetta plagg fremur en fyrri frumvörp og frumvarpsdrög á vegum ríkisstjórnarinnar, svo meingallað er það. Sáttagrundvöllurinn, bæði gagnvart sjávarútveginum og á hinum pólitíska vettvangi, er vissulega í frumvarpinu; ákvæði um ævarandi sameign þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni og nýtingarrétt útgerðarinnar, sem hún greiði fyrir veiðigjald. Um þetta er hægt að ná saman. Um upphæð veiðigjaldsins má svo deila. Gjaldið má ekki verða svo hátt að það gangi af útgerðarfyrirtækjum dauðum. Það þarf líka að vera í samræmi við auðlindagjald sem innheimt er í öðrum greinum sem nýta náttúruauðlindir, til dæmis orkuvinnslu. Stóri ljóðurinn á nýja frumvarpinu, rétt eins og fyrsta frumvarpi Jóns Bjarnasonar, er hins vegar hvernig krukkað er með margvíslegum hætti í fiskveiðistjórnunarkerfi, sem hefur verið skilvirkt og stuðlað að hagræðingu og stöðugleika í greininni. Eins og sumir muna kannski var frumvarpi Jóns hent fyrir borð eftir að nefnd hagfræðinga, sem sjávarútvegsráðherrann valdi sjálfur, reif það kerfisbundið niður. Hagfræðingar OECD sigldu í kjölfarið með sambærilega gagnrýni. Í nýja frumvarpinu er lítið komið til móts við flestar athugasemdir hagfræðinganna, nema helzt hvað varðar nýtingartíma útgerðarinnar á kvótanum. Áfram eru takmarkanir á framsali veiðiheimilda, bann við veðsetningu þeirra og gert ráð fyrir kvótaleigu til eins árs. Allt þetta taldi hagfræðingahópurinn koma niður á hagræðingu og hagkvæmni í sjávarútveginum. Sama má segja um strandveiði- og byggðapotta, sem færa aflaheimildir frá fólki sem veiðir fisk með hagkvæmustum hætti og aftur til fólks sem hefur misst hann frá sér af því að það varð undir í samkeppninni, sem einkennir frjálst markaðshagkerfi. Þegar ríkisstjórnin segir að eitt markmið frumvarpsins sé að „treysta atvinnu og byggð í landinu" er í raun átt við að treysta eigi atvinnu og byggð á ákveðnum stöðum, á kostnað annarra staða þar sem eru fyrirtækin sem veiða og vinna fisk með hagkvæmustum hætti. Þessar tilfærslur koma hins vegar niður á heildarhagkvæmni greinarinnar og heildarhagsæld þjóðarinnar – ekki sízt íbúa landsbyggðarinnar. Áður en Alþingi tekur afstöðu til frumvarps sjávarútvegsráðherra hlýtur að þurfa aðra hagfræðilega úttekt á áhrifum þess á afkomu greinarinnar, í stað þess að útgerðarmenn og stjórnmálamenn hrópist áfram á. Meðal annars þarf að meta hvort veiðigjaldið er hæfilegt eða hvort niðurstaðan verður sú sama og hjá fyrri hagfræðingahópnum; að skoðað í samhengi við önnur ákvæði frumvarpsins sé það of hátt. Hagfræðingarnir sem rýndu frumvarp Jóns Bjarnasonar bentu á að væri vegið að möguleikum sjávarútvegsins til hagræðingar og langtímahagkvæmni skerti það afraksturinn af auðlindinni og þar með getu greinarinnar til að standa undir gjaldtökunni. Enginn á að þurfa að vorkenna útgerðinni að borga fyrir aðganginn að sameiginlegri auðlind. En það er auðvelt að drepa gullgæsina, eins og dæmin sanna. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Forréttindablinda strákanna í Viðskiptaráði Sonja Ýr Þorbergsdóttir Skoðun Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun
Forysta ríkisstjórnarinnar kynnti í fyrradag nýtt frumvarp um stjórn fiskveiða, sem sagt er vera „efniviður í sáttargjörð um sjávarútvegsmál sem allir eigi að geta unað vel við". Draga verður í efa að nokkur sátt geti náðst um þetta plagg fremur en fyrri frumvörp og frumvarpsdrög á vegum ríkisstjórnarinnar, svo meingallað er það. Sáttagrundvöllurinn, bæði gagnvart sjávarútveginum og á hinum pólitíska vettvangi, er vissulega í frumvarpinu; ákvæði um ævarandi sameign þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni og nýtingarrétt útgerðarinnar, sem hún greiði fyrir veiðigjald. Um þetta er hægt að ná saman. Um upphæð veiðigjaldsins má svo deila. Gjaldið má ekki verða svo hátt að það gangi af útgerðarfyrirtækjum dauðum. Það þarf líka að vera í samræmi við auðlindagjald sem innheimt er í öðrum greinum sem nýta náttúruauðlindir, til dæmis orkuvinnslu. Stóri ljóðurinn á nýja frumvarpinu, rétt eins og fyrsta frumvarpi Jóns Bjarnasonar, er hins vegar hvernig krukkað er með margvíslegum hætti í fiskveiðistjórnunarkerfi, sem hefur verið skilvirkt og stuðlað að hagræðingu og stöðugleika í greininni. Eins og sumir muna kannski var frumvarpi Jóns hent fyrir borð eftir að nefnd hagfræðinga, sem sjávarútvegsráðherrann valdi sjálfur, reif það kerfisbundið niður. Hagfræðingar OECD sigldu í kjölfarið með sambærilega gagnrýni. Í nýja frumvarpinu er lítið komið til móts við flestar athugasemdir hagfræðinganna, nema helzt hvað varðar nýtingartíma útgerðarinnar á kvótanum. Áfram eru takmarkanir á framsali veiðiheimilda, bann við veðsetningu þeirra og gert ráð fyrir kvótaleigu til eins árs. Allt þetta taldi hagfræðingahópurinn koma niður á hagræðingu og hagkvæmni í sjávarútveginum. Sama má segja um strandveiði- og byggðapotta, sem færa aflaheimildir frá fólki sem veiðir fisk með hagkvæmustum hætti og aftur til fólks sem hefur misst hann frá sér af því að það varð undir í samkeppninni, sem einkennir frjálst markaðshagkerfi. Þegar ríkisstjórnin segir að eitt markmið frumvarpsins sé að „treysta atvinnu og byggð í landinu" er í raun átt við að treysta eigi atvinnu og byggð á ákveðnum stöðum, á kostnað annarra staða þar sem eru fyrirtækin sem veiða og vinna fisk með hagkvæmustum hætti. Þessar tilfærslur koma hins vegar niður á heildarhagkvæmni greinarinnar og heildarhagsæld þjóðarinnar – ekki sízt íbúa landsbyggðarinnar. Áður en Alþingi tekur afstöðu til frumvarps sjávarútvegsráðherra hlýtur að þurfa aðra hagfræðilega úttekt á áhrifum þess á afkomu greinarinnar, í stað þess að útgerðarmenn og stjórnmálamenn hrópist áfram á. Meðal annars þarf að meta hvort veiðigjaldið er hæfilegt eða hvort niðurstaðan verður sú sama og hjá fyrri hagfræðingahópnum; að skoðað í samhengi við önnur ákvæði frumvarpsins sé það of hátt. Hagfræðingarnir sem rýndu frumvarp Jóns Bjarnasonar bentu á að væri vegið að möguleikum sjávarútvegsins til hagræðingar og langtímahagkvæmni skerti það afraksturinn af auðlindinni og þar með getu greinarinnar til að standa undir gjaldtökunni. Enginn á að þurfa að vorkenna útgerðinni að borga fyrir aðganginn að sameiginlegri auðlind. En það er auðvelt að drepa gullgæsina, eins og dæmin sanna.