Lífið

Spennumynd eftir uppskrift

Spennumyndin The Cold Light of Day segir frá ungum manni sem fer til Spánar til að hitta fjölskyldu sína en fríið fer ekki eins og til var ætlast og breytist fljótt í baráttu upp á líf og dauða. Myndin er frumsýnd annað kvöld.

Með aðalhlutverk fara Henry Cavill, Bruce Willis og Sigourney Weaver undir leiðsögn franska leikstjórans Malbrouk El Mechri.

Cavill fer með hlutverk Will Shaw sem flýgur til Spánar til að heimsækja foreldra sína sem búa og starfa í landinu. Fjölskyldan ákveður að eyða sólríkum degi um borð í skútu en eftir rifrildi við föður sinn syndir Will til lands. Þegar hann snýr til baka er skútan mannlaus og leitar Will eftir aðstoð lögreglunnar og upphefst þá spennandi eltingaleikur og leit Wills að fjölskyldu sinni og sannleikanum.

Aðalleikarinn, Henry Cavill, varð þekktur fyrir hlutverk sitt sem Charles Brandon í sjónvarpsþáttunum The Tudors og segist hann sjálfur þakka þáttunum fyrir frægð sína og frama. Cavill fer einnig með hlutverk Theseusar í stórmyndinni The Immortals sem frumsýnd var í lok síðasta árs.

The Cold Light of Day hefur fengið nokkuð dræma dóma á Netinu og gefur gagnrýnandi The Telegraph henni einungis eina stjörnu og segir leikara sem og leikstjóra sýna lélega byrjendatakta. Á vefsíðunni Imdb.com er myndin sögð hörmuleg eftirlíking á Bourne-þríleiknum og Screen Daily segir Sigourney Weaver vera það eina góða við myndina, en hún þykir sannfærandi í hlutverki sínu sem kaldlyndur CIA útsendari.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.