Lífið

Sólveig skrifar skvísubók fyrir fullorðna

Sólveig Jónsdóttir, blaðamaður og rithöfundur.
Sólveig Jónsdóttir, blaðamaður og rithöfundur. Mynd/Stefán
„Þegar ég fékk bókina í hendurnar vorum við að grínast með það að núna væri ég búin að upplifa eitt prósent af þeirri tilfinningu sem maður fær þegar maður eignast barn," segir blaðamaðurinn Sólveig Jónsdóttir sem gefur út sína fyrstu skáldsögu í næstu viku.

Skáldsagan nefnist Korter og fjallar um fjórar stúlkur á þrítugsaldri og ævintýri þeirra í 101 Reykjavík. Sólveig segist flokka bókina að einhverju leyti í hóp skvísubókmennta. „Vinur minn spurði um daginn hvort þetta væri ekki svona skvísubók fyrir fullorðna og ég held að ég sé sammála því. Þetta er ekki gelgjubók heldur bók um sjálfstæðar konur sem eru að fóta sig í lífinu," segir Sólveig sem starfar sem blaðamaður á Nýju lífi.

Bókin hefur verið í bígerð með köflum síðustu þrjú árin. „Þetta er búið að blunda í mér lengi og ég hef alltaf haft gaman af því að skrifa. Það má segja að ég hafi byrjað að skrifa bókina þegar ég fékk heimþrá er ég var við nám í Edinborg. Fór að hugsa heim og ákvað að skrifa um eitthvað sem ég þekkti vel."

Bókin fjallar um þær Míu, Silju, Karen og Hervöru en er í raun fjórar sjálfstæðar sögur sem tengjast þó í lokin. Sólveig segir söguþráðinn skáldaðan en þó með ákveðnar tilvitnanir í raunveruleikann. Sólveig er ófeimin að viðurkenna að hún er stressuð yfir viðtökunum.

„Ég er stressuð en líka spennt. Ef einhverjir geta skemmt sér yfir lestrinum verð ég sátt," segir Sólveig sem nú þegar er hálfnuð með bók númer tvö. Korter verður komin í hillur verslana eftir helgi. -áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.