Lífið

Væri hræðilegt að segja vitlausa lottótölu í beinni

Sigríður Hrönn Guðmundsdóttir er nýja Lottóþulan og verður því fastur gestur á skjám landsmanna frá og með næstu viku.
Sigríður Hrönn Guðmundsdóttir er nýja Lottóþulan og verður því fastur gestur á skjám landsmanna frá og með næstu viku. Mynd/Vilhelm
„Það má segja að mig dreymir martraðir um Lottó á nóttunni og ég viðurkenni að ég er smá stressuð fyrir þessu nýja hlutverki," segir Sigríður Hrönn Guðmundsdóttir sem hefur verið ráðin í starf lottóþulu.

Sigríður Hrönn er ferðamálafræðingur að mennt og í fullri vinnu sem annar eigandi Minicards á Íslandi. Hún hefur starfað sem fyrirsæta í hjáverkum mörg ár, meðal annars á Indlandi og á Spáni. Þegar hún var kölluð í prufur fyrir nokkrum vikum síðan var hún fyrst efins enda hafði hún aldrei spáð neitt sérstaklega í starfi á borð við þetta.

„Það var samt aðallega vegna þess að ég var stressuð að vera í beinni útsendingu fyrir framan allt Ísland. Ég er vön að fá að taka minn tíma fyrir framan myndavélina og það sé ekki talið niður í beina útsendingu," segir Sigríður sem er þó spennt fyrir nýja starfinu.

Sigríður tekur við af Elvu Dögg Melsteð sem hætti í Lottó um áramótin en ráðningarferlið fyrir nýja Lottó stúlku hefur staðið í þó nokkurn tíma. „Þeir voru búnir að prufa margar stelpur en sáu mig í sjónvarpsauglýsingu og höfðu samband," segir Sigríður sem fer í læri í næstu viku hjá Katrínu Brynju Hermannsdóttur sem hefur verið lottóþula í nokkur ár.

Sigríður gerir sér grein fyrir að Lottó er fastur liður í lífi marga Íslendinga og því ákveðin pressa á henni að standa sig vel. „Ég ætla að gera mitt besta og reyna að klúðra ekki neinu. Það væri hrikalegt að segja til dæmis vitlausa tölu í beinni útsendingu," segir Sigríður hlæjandi sem þreytir frumraun sína í beinni útsendingu í Lottó-drættinum laugardaginn 21 apríl.

alfrun@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.