Lífið

Sest meiddur í dómarasætið á heimaslóðunum

nær bata á ströndinni í mónakó Snjóbrettakappinn Halldór Helgason er meiddur á ökkla og hefur því ekki getað stigið á snjóbretti síðan í febrúar. Halldór er samt sem áður komin til Akureyrar þar sem hann sest í dómarasætið á AK Extreme mótinu sem fer fram um helgina.
nær bata á ströndinni í mónakó Snjóbrettakappinn Halldór Helgason er meiddur á ökkla og hefur því ekki getað stigið á snjóbretti síðan í febrúar. Halldór er samt sem áður komin til Akureyrar þar sem hann sest í dómarasætið á AK Extreme mótinu sem fer fram um helgina. Mynd/Einar Már Einarsson
„Það er frekar glatað að vera á hliðarlínunni í ár en ég er ánægður að hafa eitthvað hlutverk,“ segir snjóbrettakappinn Halldór Helgason sem sest í dómarasætið á AK Extreme snjóbrettamótinu sem hófst á Akureyri í gær.

Halldór, sem hefur átt mikilli velgengni að fagna í íþróttinni, hefur sjálfur ekki getað stigið á bretti síðan í febrúar, en hann slasaðist á ökla á heimsmeistaramótinu í Osló í febrúar. „Ég tognaði illa á liðbandi og svoleiðis meiðsl eru oft erfið, því það tekur svo langan tíma að jafna sig. Læknarnir segja að ég þurfi allavega mánuð í viðbót áður en ég get farið aftur á bretti,“ segir Halldór sem kom til Akureyrar á fimmtudaginn, en hann hefur ekki verið heima síðan um jólin.

„Það er æðislegt að koma hingað og hitta alla vinina og fjölskyldu. Núna eru allir hérna fyrir norðan sem ég þekki og það er snilld. Það myndast sérstök stemning í Akureyri á þessu móti og þetta er uppáhaldstími minn á árinu. Þetta mót er af gamla skólanum, skítugt og gott,“ segir hann.

Halldór hlakkar til að vera dómari, en mótið hófst í gærkvöldi. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hann dæmir á snjóbrettamóti, en hann hefur þjónað því hlutverki nokkrum sinnum áður á litlum mótum út í heimi. „Ég get get örugglega miðlað reynslu minni. Það er svo mikil gróska í þessu hérna heima og margir mjög efnilegir sem ég hlakka til að sjá.“

Halldór er búsettur í Mónakó og hefur meðal annars legið á ströndinni á meðan hann nær bata. „Ég er bara búinn að vera að vinna í sólbrúnkunni. Það er búið að vera mjög gott veður í Mónakó og ströndin þar er frábær,“ segir Halldór hlæjandi og líkar lífið vel í Mónakó. „Það er mjög þægilegt að búa þar. Ég er að ferðast mjög mikið svo þegar ég kem þangað líður mér eins og ég sé í sumarfríi. Það er ekki beint ódýrt að lifa þar en, ég hef það fínt.“

Halldór rekur fjögur fyrirtæki ásamt bróður sínum, Eiríki, og saman framleiða þeir ýmsar vörur tengdar íþróttinni. Til dæmis snjóbretti undir nafninu Lobster, húfur undir merkinu Hoppipolla og beltafyrirtæki sem nefnist 7-9-13. „Það er nóg að gera og núna hef ég haft tíma til að sinna fyrirtækjunum,“ segir Halldór, sem ætlar að dvelja út næstu viku fyrir norðan og hlakkaði til að geta slappað af í góðra vini hópi um helgina. „Vinir mínir eru ekki nógu duglegir að heimsækja mig út svo það er mjög gaman að hanga með þeim núna.“

alfrun@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.