Lífið

Hættu tökum vegna hávaða í flugvél

Klezmer-tónlist Heiða Björg Jóhannsdóttir er söngkona hljómsveitarinnar Klezmer Kaos. Sveitin spilar tónlist sem á rætur að rekja til Austur-Evrópu.
Klezmer-tónlist Heiða Björg Jóhannsdóttir er söngkona hljómsveitarinnar Klezmer Kaos. Sveitin spilar tónlist sem á rætur að rekja til Austur-Evrópu.
Hljómsveitin Klezmer Kaos heldur útgáfutónleika á Nasa þann 28. apríl næstkomandi í tilefni af útgáfu fyrstu plötu sveitarinnar, Froggy, er kom út í byrjun árs. Söngkona sveitarinnar er íslensk en aðrir meðlimir hennar eru franskir að uppruna.

Klezmer Kaos er skipuð þeim Heiðu Björgu Jóhannsdóttur, Charles Rappoport, Pierre Polveche, Sylvain Plommet og Laurent Lacoult og hefur sveitin komið víða fram í Evrópu sem og samið tónlist fyrir franskar heimildarmyndir.

Hljómsveitin spilar blöndu af hefðbundinni klezmer-tónlist og jiddískum og íslenskum þjóðlagaarfi. Heiða Björg, sem hefur verið búsett í París frá árinu 2004, segir klezmer-tónlist eiga uppruna sinn að rekja til Austur-Evrópu og eiga margt skylt með sígaunatónlist.

„Ég kynntist klezmer-tónlist fyrst á Íslandi, þó það kunni að þykja furðulegt, þegar ég stundaði nám á klarinett í Tónlistarskóla Reykjavíkur. Stuttu síðar stofnaði ég mína fyrstu hljómsveit sem var þó aðeins til í nokkra mánuði,“ útskýrir Heiða.

Klezmer Kaos var stofnuð í byrjun ársins 2007 og var fyrsta plata sveitarinnar tekin upp í Tankinum á Flateyri. „Við byrjuðum á því að taka upp í París en skilyrðin þar voru þannig að ef flugvél flaug fram hjá tökuverinu urðum við að hætta að spila. Við ákváðum því að hætta og byrja aftur frá grunni í Tankinum.“

Miðasala er hafin á Midi.is og er miðaverð 3.000 krónur.- sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.