Lífið

Storka reglum samfélagsins

Vinirnir og leikararnir Atli Óskar Fjalarsson og Elías Helgi Kofoed-Hansen skipuleggja gleðidaginn Bláa mánann sem fram fer í ágúst.
Vinirnir og leikararnir Atli Óskar Fjalarsson og Elías Helgi Kofoed-Hansen skipuleggja gleðidaginn Bláa mánann sem fram fer í ágúst. fréttablaðið/valli
Leikararnir og vinirnir Atli Óskar Fjalarsson og Elías Helgi Kofoed-Hansen standa á bak við Bláa mánann, en svo nefnist árleg mánudagsskemmtun þeirra félaga.

„Fyrir tveimur árum bjuggum við til djammdag þar sem við ákváðum að djamma á mánudegi og nefndum daginn Bláa mánann. Fyrsta árið vorum það við Elías og frændi hans en næsta ár vorum við um þrjátíu og þess vegna fannst okkur lógískt að í ár myndu 300 manns safnast saman á þessum degi,“ útskýrir Atli Óskar.

Til að ná tilsettum fjölda fólks ákváðu piltarnir að best væri að kynna Bláa mánann fyrir þjóðinni og kusu nokkuð óhefðbundna leið til þess. „Við héldum að það væri best að ná til fjöldans í gegnum Eurovision og sömdum því lag og lærðum að syngja á aðeins þremur vikum. Við komumst samt ekki inn í forkeppnina, sem var mjög svekkjandi, og höfum því kynnt daginn á Youtube og Facebook.“

Blái máninn fer að þessu sinni fram mánudaginn 13. ágúst. Þegar Atli Óskar er inntur eftir því af hverju vinirnir hafi kosið að skemmta sér á mánudegi frekar en öðrum degi vikunnar segir hann þá hafa viljað gera eitthvað óhefðbundið og öðruvísi.

„Mánudagur er dagur sem enginn djammar á. Stundum á maður bara að hætta að fylgja reglum samfélagsins og í staðinn hafa það gaman. Hinn 10. ágúst byrja geitungarnir að verða agressívir af því að sumarið er að enda og ég hef orðið var við það að ég verð það líka; sumarið er búið og skólinn að byrja aftur. Við ákváðum því að Blái máninn yrði haldinn á fyrsta mánudegi eftir 10. ágúst.“

Atli Óskar og Elías Helgi kynntust við tökur á kvikmyndinni Óróa árið 2010 og hafa verið perluvinir síðan. Þegar Atli er að lokum spurður hvort hann telji líklegt að markmiðinu verði náð í ár kveðst hann vongóður um það. „Við erum komnir með 200 „like“ á Facebook og erum því bjartsýnir á að þetta náist. Það er spurning hvort við náum að halda þessu við eftir fimm ár, það gæti reynst erfitt.“ -sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.