Lífið

Eins og maður sé í útlöndum

Óli Már Ólason og Arnar Gíslason eiga Lebowski bar sem opnar á Laugaveginum annað kvöld. Staðurinn er hannaður í anda kvikmyndarinnar The Big Lebowski og á veggnum á bak við þá félaga má sjá glitta í keilubrautina.
Óli Már Ólason og Arnar Gíslason eiga Lebowski bar sem opnar á Laugaveginum annað kvöld. Staðurinn er hannaður í anda kvikmyndarinnar The Big Lebowski og á veggnum á bak við þá félaga má sjá glitta í keilubrautina. fréttablaðið/pjetur
„Við höfum lagt ansi mikla vinnu í staðinn og það er ekki eins og maður sé staddur á miðjum Laugaveginum hérna inni heldur einhvers staðar úti í heimi," segir Arnar Gíslason, einn af eigendum Lebowski bar sem opnar annað kvöld.

Líkt og nafn staðarins gefur til kynna verður hann í anda gamanmyndarinnar The Big Lebowski og verður keiluíþróttinni gert hátt undir höfði inni á staðnum sem er skipt upp í fjögur ólík svæði. Fremst er keilubraut, í miðjunni verður bandarísk verönd, og innst í húsinu verður bar og veitingastaður. Á efri hæðinni verður svo setustofa og útisvæði.

„Þetta eru í raun fjórir mismunandi staðir inni á sama staðnum og það fer eftir því í hvaða skapi þú ert hvar þú sest hverju sinni. Ætli þetta sé ekki svona staður sem fólk á annaðhvort eftir að elska eða ekki."

Að sögn Arnars kviknaði hugmyndin að staðnum fyrst fyrir rúmum átta árum síðan og því hefur hann verið lengi í bígerð. Þó að staðurinn sé hannaður í anda The Big Lebowski telur Arnar ekki nauðsynlegt fyrir gesti að hafa séð myndina til að njóta hans.

Sérstakt opnunarteiti verður fyrir boðsgesti annað kvöld en staðurinn verður opnaður fyrir almenning eftir miðnætti.

„Við viljum auðvitað sjá sem flesta og ég tek fram að allir þeir sem eiga gamalt keiludót geta komið með það til okkar og skipt því út fyrir mat eða drykk," segir Arnar að lokum. -sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.