Lífið

Svartur hitti í mark í Hong Kong

„Þetta gekk mjög vel. Það var mikil stemning og það var gaman að koma þarna,“ segir Óskar Þór Axelsson, leikstjóri Svartur á leik. Hann er nýkominn heim frá Hong Kong í Kína þar sem myndin var sýnd á alþjóðlegri kvikmyndahátíð. Hún er ein af þremur stærstu hátíðunum í Asíu.

Óskar Þór var spurður spjörunum úr eftir frumsýningu myndarinnar og fékk öðruvísi spurningar en hann er vanur að fá. „Þeir spurðu um Ísland og fannst voða merkilegt að það séu engar byssur þar. Þeir spurðu líka mikið um hvernig er hægt að vera glæpamaður á Íslandi því það vita allir hver þú ert og þú getur ekki verið í felum,“ segir Óskar Þór.

Myndin var sýnd tvisvar sinnum og var uppselt á seinni sýninguna. „Hún spurðist vel út strax,“ segir Óskar Þór, ánægður með viðtökurnar. „Það er svo mikil glæpamyndahefð í Hong Kong. Þeir eru svolítið vanir svona myndum og því kemur það ekki á óvart að hún hafi fallið vel í kramið.“

Svartur á leik verður sýnd á fleiri kvikmyndahátíðum á næstunni. Í þessum mánuði verður hún sýnd á hátíð í Kaupmannahöfn og í maí verður hún kynnt á Cannes-hátíðinni í Frakklandi. Um sextíu þúsund manns hafa séð myndina hér á landi. -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×