Lesendur tímaritsins People hafa kosið tónlistarkonuna Beyonce fallegustu konu í heimi. Í öðru sæti var gamanleikkonan Sofia Vergara en Charlize Theron lenti í því þriðja.
Beyoncé er upp með sér í samtali við tímaritið og segist sjaldan hafa upplifað sig fegurri en söngkonan er nýbökuð móðir. Hún fæddi dótturina Blue Ivy Carter í byrjun árs og líður vel í nýju hlutverki. Beyoncé hefur alls 16 sinnum hlotið Grammy-verðlaun á tónlistarferli sínum en segir þau verðlaun blikna í samanburði við dótturina. „Þetta er mikilvægasta hlutverk sem ég hef haft og orðið ást hefur fengið nýja merkingu fyrir mér."
Sofia Vergara hefur slegið í gegn í gamanþáttunum Modern Family þar sem hún fer með hlutverk hinnar kólumbísku Gloriu. Það vekur athygli að nýstirnið Paula Patton skipar áttunda sæti listans en hún á eftir að verða Íslendingum kunn á næstu misserum þar sem hún fer með hlutverk í Hollywood-mynd Baltasars Kormáks, 2 Guns.
Lífið