Unnið er að því að uppfæra búning Íþróttaálfsins og af því tilefni kom Thi Theu Hanyaka til landsins til að reka smiðshöggið.
„Þetta er búið að vera frábært og ég elska alla hér hjá Latabæ. Íslendingar eru mjög viðkunnanlegt fólk, meira að segja leigubílstjórarnir eru almennilegir, ólíkt því sem ég á að venjast í Los Angeles," segir Thi Theu Hanyaka, búninga- og fatahönnuður hjá Ironhead Studio. Hanyaka var stödd hér á landi fyrir stuttu á vegum fyrirtækisins Ironhead Studio sem sá um að uppfæra fylgihluti á búningi Íþróttaálfsins fyrir þriðju þáttaröð Latabæjar.
Hanyaka er frá Sviss en hefur búið og starfað í Los Angeles undanfarin tíu ár og hóf feril sinn sem fatahönnuður. Hún hefur meðal annars unnið náið með fatahönnuðinum Jeremy Scott að verkefnum sem hann gerði fyrir Björk og Madonnu. „Ég og Jeremy urðum mjög góðir vinir í gegnum vinnuna og ég tel hann vera einn af mínum bestu vinum í dag," segir hún.
Ironhead Studio hefur skapað búningana fyrir stórmyndir á borð við Alien 3, Batman Returns, Thor og The X-men og nú sér það um búningagerð fyrir nýjustu kvikmynd Tom Cruise, Oblivion. Hanyaka segir fyrirtækið sérhæfa sig í búninga- og hjálmagerð fyrir ævintýra- og vísindaskáldsögumyndir.
„Við sérhæfum okkur í hjálmum og skrýtnum framtíðarfötum," segir Hanyaka glaðlega. Hún kveðst orðin vön því að hitta stórstjörnur á borð við Tom Cruise í gegnum vinnu sína og finnst það því ekki lengur skrýtið eða merkilegt.
Þegar Hanyaka er að lokum spurð út í dvöl sína á Íslandi lifnar yfir henni og segist hún hafa náð að slappa vel af. „Lífið hér er ekki jafn brjálað og úti í Los Angeles og loftið ykkar er svo hreint! Yfir LA hangir svart mengunarský. Mig langaði mikið til að heimsækja Bláa lónið, ég hef heyrt að það sé dásamlegt, en ég hafði ekki tíma til þess þar sem heimför minni var flýtt sökum vinnu," segir hún að lokum. -sm
Lífið