Lífið

Vann til tvennra verðlauna á Erasmus-hátíð í Portúgal

Hugrún Ösp Lárusdóttir Dunn hlaut tvenn verðlaun fyrir stuttmynd sína sem sýnd var á stuttmyndahátíð í Portúgal.
Hugrún Ösp Lárusdóttir Dunn hlaut tvenn verðlaun fyrir stuttmynd sína sem sýnd var á stuttmyndahátíð í Portúgal.
Hugrún Ösp Lárusdóttir Dunn, nemandi í ljósmyndun, hlaut tvenn verðlaun á Erasmus-stuttmyndahátíðinni í Leiria í Portúgal fyrir stuttmyndina Móðir mín í kví kví.

Hugrún Ösp flutti til Bristol árið 2007 og hóf nám í ljósmyndun tveimur árum síðar. Hún segir kennara sinn hafa hvatt sig til að gera eitt skólaverkefnið í öðru fagi en ljósmyndun og stakk upp á stuttmyndagerð. Hugrún ákvað að fara að ráði hans og var útkoman stuttmyndin Móðir mín í kví kví sem byggð er á samnefndri þjóðsögu.

„Þetta er frásögn gamallar konur sem rifjar upp ævi sína og útskýrir af hverju hún bar barnið sitt út. Við sjáum hana ganga í átt að staðnum þar sem útburðurinn átti sér stað á meðan hún segir sögu sína. Hún er uppgefin og langar að leggjast þar niður og deyja því hún hefur þurft að búa við þessa sorg alla ævi. Þannig að þetta er ekki beint gleðileg mynd,“ útskýrir Hugrún.

Sami kennari stakk síðan upp á því að hún sendi myndina á Erasmus-stuttmyndahátíðina í Portúgal. Keppt var í átta flokkum og var mynd Hugrúnar sýnd í flokknum Heritage, sem á íslensku þýðir arfleifð. Myndin þótti bæði besta myndin í sínum flokki og einnig á hátíðinni allri og kom þessi tvöfaldi sigur Hugrúnu nokkuð á óvart.

„Ég hélt fyrst að einhver væri að gera grín að mér þegar mér var tilkynnt um sigurinn í gegnum vefpóst, þetta kom mér algjörlega á óvart,“ segir Hugrún sem hlaut peningaverðlaun og viðurkenningarskjal að launum.

Hugrún giftist breskum manni í fyrrasumar og ætlar því að búa áfram í Bristol að útskrift lokinni, en hún útskrifast í júlí með BA í ljósmyndun. Innt eftir því hvað hún ætli að gera að námi loknu segist hún gjarnan vilja færa sig meira yfir í kvikmyndagerð.

„Mér finnst mjög gaman í ljósmyndun en ég held ég muni færa mig meira yfir í kvikmyndagerð í framtíðinni. Lokaverkefnið mitt úr skólanum er stuttmynd um Viðfjarðarskottu og er lauslega byggð á Viðfjarðarundrunum eftir Þórberg Þórðarson. Fjölskylda mín er ættuð frá Viðfirði og mér þótti gaman að hafa lokaverkefnið svolítið persónulegt,“ segir hún að lokum. sara@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.