Lífið

Norðmenn taka misjafnlega í Þór

Gagnrýnendur í Noregi eru ekki á einu máli um teiknimyndina Þór. Flestir segja hana frábæra en einum þykir hún ósjarmerandi.
Gagnrýnendur í Noregi eru ekki á einu máli um teiknimyndina Þór. Flestir segja hana frábæra en einum þykir hún ósjarmerandi.
Íslenska teiknimyndin Þór heldur áfram flakki sínu um heiminn og var á dögunum frumsýnd hjá nágrönnum okkar í Noregi. Gagnrýnendur þar í landi eru ekki á einu máli um myndina þó að flestir gefa henni jákvæða dóma. Leikstjórar Þór eru Óskar Jónasson, Gunnar Karlsson og Toby Genkel en myndin er framleidd af CAOZ. Norðmenn hafa beðið með nokkurri eftirvæntingu eftir myndinni enda er söguþráður hennar skírskotun í norræna goðafræði sem er þeim vel kunn.

Gagnrýnandi dagblaðsins Adresseavisen segir söguhetjuna vera sjarmatröll frá Íslandi og vill meina að Íslendingum hafi tekist vel til í persónusköpun sinni. Eitt stærsta götublað Noregs VG er hrifið af íslensku teiknimyndinni og gefur henni fjórar stjörnur af sex. Það kemur þó fram að þrumuguðinn Þór sé helst til of góður og endurspegli ekki þann fýlda og harða guð sem fólk þekkir úr sögunum. Østlandets Blad tekur undir þennan dóm og er sérstaklega hrifið af hamrinum Mjölni og hvernig honum er gefið líf í myndinni. Þá segja þeir myndina boða gott fyrir framhald teiknimyndargerðar á Íslandi, eða sögueyjunni eins og þeir kalla gjarnan Ísland.

Gagnrýnandi Dagsavisen er ekki jafn hrifinn. Hann segir myndina ósjarmerandi og fyrirsjáanlega. Einnig er hann ósammála hinum dómunum og segir söguna vera fulla að klisjum. Sá gagnrýnandi virðist vera með allt á hornum sér því hann setur líka út á norsku talsetningu myndarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.