Á Heimaey betur heima í ríkissjóði? Þorsteinn Pálsson skrifar 26. maí 2012 06:00 Ný Heimaey í eigu Ísfélagsins kom fyrir skömmu til heimahafnar í Vestmannaeyjum. Margir hrukku í kút þegar stjórnarformaðurinn sagði í viðtali að sá skuggi hvíldi yfir góðum degi að svo kynni að fara að selja yrði skipið ef áform ríkisstjórnarinnar um að bylta stjórnkerfi fiskveiða næðu fram. Fréttamenn spurðu hvort slík yfirlýsing væri ekki pólitísk hótun. Það varð stjórnarformanninum til happs gagnvart kviku almenningsálitinu að fjölmiðlar greindu á sama tíma frá rannsókn prófessors Þórólfs Matthíassonar á þessu samhengi hlutanna. Hún var sögð sýna að útgerðin væri því sem næst skuldlaus hefði veiðileyfagjaldið, sem nú er rætt, verið sett á fyrir áratug. Allir vita að skuldir útgerðarinnar eiga fyrst og fremst rætur í fjárfestingum: Nýjum skipum og tækjum og viðbótaraflaheimildum sem leitt hafa til betri nýtingar og arðsemi eldri fjárfestinga. Niðurstaða rannsóknarinnar er mjög sannfærandi. Hefði ríkissjóður tekið þá fjármuni sem fóru í fjárfestingu í sjávarútvegi til ráðstöfunar fyrir þingmenn hefði útgerðin ekki haft svigrúm til að fjárfesta og skuldaði því ekkert. Ríkisstjórnin, að meðtöldum fjármálaráðherra, sem er þingmaður Vestmannaeyinga, er einfaldlega þeirrar skoðunar að þeir fjármunir sem Ísfélagið tók að láni til að byggja nýja skipið og endurgreiða á með aflaverðmæti þess séu betur komnir í höndum þingmanna. Heimaey á sem sagt að mati ríkisstjórnarinnar betur heima í ríkissjóði en úti á sjó að fiska.Það sem um er deilt Þetta er nákvæmlega það sem um er deilt. Allir eru sammála um að peningana skuli nýta. Það á áfram að gera út. Munurinn er sá að sumir vilja að það gerist með ákvörðunum stjórnenda fyrirtækja á frjálsum markaði en aðrir að þingmenn taki ákvarðanirnar eftir lögmálum stjórnmálanna. Þeir fyrrnefndu leggja yfirleitt mesta áherslu á að stjórnkerfi fiskveiða skili þjóðarbúinu sem mestum arði, þeir síðarnefndu leggja meiri áherslu á að kerfið leiði til réttlætis og telja þingmenn betur til þess fallna að finna það en markaðinn. Þeir fyrrnefndu vilja halda nýju Heimaeynni til veiða. Þeir síðarnefndu vilja taka þá fjármuni sem fást með sölu hennar til þess að bora jarðgöng. Báðir aðilar geta með rökum sagt að þeir hafi almannahagsmuni að leiðarljósi. Eigi að síður er það svo að niðurstaðan verður gjörólík eftir því hvor leiðin verður farin. Umræðan á Alþingi nú þjónar einmitt þeim tilgangi að draga fram mismunandi afleiðingar þeirra tveggja leiða sem tekist er á um. Því er upplýsingin mikilvæg, ekki síst ef þjóðin sjálf á síðan að taka endanlega ákvörðun seinna í sumar. Fram til þessa hefur umræðan helst snúist um skattheimtu. Hinn hluti málsins veit að grundvallarbreytingu á stjórnkerfinu og hefur lítið sem ekkert verið ræddur. Kjarninn í þeirri byltingu er að hverfa frá markaðsþróun greinarinnar með því að takmarka frjálst framsal aflaheimilda. Þá er gert ráð fyrir aukinni pólitískri stýringu með því að skipta veiðirétti niður á svokallaða potta. Markmiðið er að fjölga fiskiskipum og sjómönnum. Það er talið réttlátt. Gallinn er hins vegar sá að binda þarf meira fjármagn til að veiða hvert tonn og afrakstur þjóðarbúsins verður minni. Frá hagsmunasjónarmiði heimilanna er þessi hluti málsins þar af leiðandi margfalt alvarlegri en skattheimtan.Hvers vegna ekki auðlindaskatt á orkuna? Álit auðlindanefndar frá því fyrir tíu árum gerði ráð fyrir að eins yrði farið með orku og fiskistofna í skattalegu tilliti. Hvers vegna telur ríkisstjórnin þá ekki nauðsynlegt að leggja auðlindaskatt á orkuna og ljúka því fyrir mitt sumar svo að réttlætinu sé fullnægt? Svarið við því er einfalt. Auðlindaskattur á orku mun birtast í raforkuverði til almennings strax á næsta gjalddaga. Fyrirtækin og heimilin munu því sjá á raforkureikningunum að þau borga sjálf réttlætið sem skattheimtan færir þeim. Slíkt réttlæti yrði aldrei vinsælt. Þess vegna er það ekki á dagskrá. Með því að fiskurinn er fluttur út gerist þetta eftir þremur mun flóknari leiðum í sjávarútveginum: 1) Með millifærslusjóðum. 2) Með því að auka aflaheimildir umfram vísindalega ráðgjöf. 3) Með því að lækka gengi krónunnar. Í öllum tilvikum borgar almenningur þó brúsann. Þetta er hins vegar ekki eins gegnsætt og rafmagnsreikningarnir og gæti því verið vinsælt þar til almenningur áttar sig á veruleikanum. Það er af þessum sökum ómálefnalegt að ljúka umræðunni á Alþingi án þess að kalla eftir sérfræðiúttekt á áhrifum áformaðra breytinga á hag heimilanna. Hvers vegna hefur enginn gert það? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun Opið bréf til undirbúningskjörbréfanefndar Alþingis Jóhann Friðrik Friðriksson, Skoðun
Ný Heimaey í eigu Ísfélagsins kom fyrir skömmu til heimahafnar í Vestmannaeyjum. Margir hrukku í kút þegar stjórnarformaðurinn sagði í viðtali að sá skuggi hvíldi yfir góðum degi að svo kynni að fara að selja yrði skipið ef áform ríkisstjórnarinnar um að bylta stjórnkerfi fiskveiða næðu fram. Fréttamenn spurðu hvort slík yfirlýsing væri ekki pólitísk hótun. Það varð stjórnarformanninum til happs gagnvart kviku almenningsálitinu að fjölmiðlar greindu á sama tíma frá rannsókn prófessors Þórólfs Matthíassonar á þessu samhengi hlutanna. Hún var sögð sýna að útgerðin væri því sem næst skuldlaus hefði veiðileyfagjaldið, sem nú er rætt, verið sett á fyrir áratug. Allir vita að skuldir útgerðarinnar eiga fyrst og fremst rætur í fjárfestingum: Nýjum skipum og tækjum og viðbótaraflaheimildum sem leitt hafa til betri nýtingar og arðsemi eldri fjárfestinga. Niðurstaða rannsóknarinnar er mjög sannfærandi. Hefði ríkissjóður tekið þá fjármuni sem fóru í fjárfestingu í sjávarútvegi til ráðstöfunar fyrir þingmenn hefði útgerðin ekki haft svigrúm til að fjárfesta og skuldaði því ekkert. Ríkisstjórnin, að meðtöldum fjármálaráðherra, sem er þingmaður Vestmannaeyinga, er einfaldlega þeirrar skoðunar að þeir fjármunir sem Ísfélagið tók að láni til að byggja nýja skipið og endurgreiða á með aflaverðmæti þess séu betur komnir í höndum þingmanna. Heimaey á sem sagt að mati ríkisstjórnarinnar betur heima í ríkissjóði en úti á sjó að fiska.Það sem um er deilt Þetta er nákvæmlega það sem um er deilt. Allir eru sammála um að peningana skuli nýta. Það á áfram að gera út. Munurinn er sá að sumir vilja að það gerist með ákvörðunum stjórnenda fyrirtækja á frjálsum markaði en aðrir að þingmenn taki ákvarðanirnar eftir lögmálum stjórnmálanna. Þeir fyrrnefndu leggja yfirleitt mesta áherslu á að stjórnkerfi fiskveiða skili þjóðarbúinu sem mestum arði, þeir síðarnefndu leggja meiri áherslu á að kerfið leiði til réttlætis og telja þingmenn betur til þess fallna að finna það en markaðinn. Þeir fyrrnefndu vilja halda nýju Heimaeynni til veiða. Þeir síðarnefndu vilja taka þá fjármuni sem fást með sölu hennar til þess að bora jarðgöng. Báðir aðilar geta með rökum sagt að þeir hafi almannahagsmuni að leiðarljósi. Eigi að síður er það svo að niðurstaðan verður gjörólík eftir því hvor leiðin verður farin. Umræðan á Alþingi nú þjónar einmitt þeim tilgangi að draga fram mismunandi afleiðingar þeirra tveggja leiða sem tekist er á um. Því er upplýsingin mikilvæg, ekki síst ef þjóðin sjálf á síðan að taka endanlega ákvörðun seinna í sumar. Fram til þessa hefur umræðan helst snúist um skattheimtu. Hinn hluti málsins veit að grundvallarbreytingu á stjórnkerfinu og hefur lítið sem ekkert verið ræddur. Kjarninn í þeirri byltingu er að hverfa frá markaðsþróun greinarinnar með því að takmarka frjálst framsal aflaheimilda. Þá er gert ráð fyrir aukinni pólitískri stýringu með því að skipta veiðirétti niður á svokallaða potta. Markmiðið er að fjölga fiskiskipum og sjómönnum. Það er talið réttlátt. Gallinn er hins vegar sá að binda þarf meira fjármagn til að veiða hvert tonn og afrakstur þjóðarbúsins verður minni. Frá hagsmunasjónarmiði heimilanna er þessi hluti málsins þar af leiðandi margfalt alvarlegri en skattheimtan.Hvers vegna ekki auðlindaskatt á orkuna? Álit auðlindanefndar frá því fyrir tíu árum gerði ráð fyrir að eins yrði farið með orku og fiskistofna í skattalegu tilliti. Hvers vegna telur ríkisstjórnin þá ekki nauðsynlegt að leggja auðlindaskatt á orkuna og ljúka því fyrir mitt sumar svo að réttlætinu sé fullnægt? Svarið við því er einfalt. Auðlindaskattur á orku mun birtast í raforkuverði til almennings strax á næsta gjalddaga. Fyrirtækin og heimilin munu því sjá á raforkureikningunum að þau borga sjálf réttlætið sem skattheimtan færir þeim. Slíkt réttlæti yrði aldrei vinsælt. Þess vegna er það ekki á dagskrá. Með því að fiskurinn er fluttur út gerist þetta eftir þremur mun flóknari leiðum í sjávarútveginum: 1) Með millifærslusjóðum. 2) Með því að auka aflaheimildir umfram vísindalega ráðgjöf. 3) Með því að lækka gengi krónunnar. Í öllum tilvikum borgar almenningur þó brúsann. Þetta er hins vegar ekki eins gegnsætt og rafmagnsreikningarnir og gæti því verið vinsælt þar til almenningur áttar sig á veruleikanum. Það er af þessum sökum ómálefnalegt að ljúka umræðunni á Alþingi án þess að kalla eftir sérfræðiúttekt á áhrifum áformaðra breytinga á hag heimilanna. Hvers vegna hefur enginn gert það?