Vondu fyrirmyndirnar okkar Ólafur Þ. Stephensen skrifar 19. júní 2012 06:00 Furðulegt hefur verið að fylgjast með umræðum innan íþróttahreyfingarinnar undanfarna daga um flengingar sem einhvers konar hópefli og „busavígslu" í íþróttaliðum. Málið komst í hámæli eftir að nýliði í landsliðinu í handbolta sagðist gera ráð fyrir að verða flengdur eftir fyrsta landsleikinn sinn og að það væri guðsþakkarvert að ein af handboltahetjunum okkar væri hætt í liðinu, af því að viðkomandi kempa væri svo harðhent. Í framhaldinu sagði Ómar Ragnarsson fréttamaður frá því á bloggsíðunni sinni að hann vissi dæmi svipaðra flenginga í yngri flokkum íþróttafélaga, þar sem menn kæmu heim, jafnvel flengdir til blóðs, og gætu varla setið eða legið eftir meðferðina. Ómar krafðist rannsóknar á málinu innan íþróttahreyfingarinnar. Fyrstu viðbrögð forsvarsmanna ÍSÍ voru að draga í efa að svona væri í pottinn búið. Fljótlega voru hins vegar dregin fram dæmi í fjölmiðlum, þar á meðal hér í Fréttablaðinu, þar sem nafngreint íþróttafólk segir frá slíkum flengingum, meðal annars á fjórtán og fimmtán ára unglingum sem voru að byrja að spila með meistaraflokki. Sumum finnst flengingarnar fullkomlega eðlilegar. „Þetta er bara hefð og menn hafa ekki slasast að því ég best veit," sagði Einar Þorvarðarson, framkvæmdastjóri Handknattleikssambandsins, hér í blaðinu. Öðrum finnst málefnið fyndið og skemmtilegt. Þannig sagði leikmaður með meistaraflokki kvenna hjá ÍBV í samtali við Fréttablaðið að það væri „gaman að þessu" og ætti kannski að endurvekja flengingahefð sem hefði lagzt af þar á bæ. „„Kjúllarnir" hafa aldrei fundið fyrir því að vera nýliðar. Þær eru bara hluti af eldri hópnum og kannski ágætt að þær finni fyrir því að þær séu yngri og að spila fyrstu leikina í meistaraflokki," sagði leikmaðurinn. Með öðrum orðum finnst henni sjálfsagt og eðlilegt að niðurlægja fólk sem hefur náð þeim árangri í íþrótt sinni að fá að spila með meistaraflokki. Þorlákur Helgason, framkvæmdastjóri Olweusar-áætlunarinnar gegn einelti, setti þennan bavíanahátt í rétt ljós í samtali við Fréttablaðið á föstudag. Hann sagðist vita til þess að börn hefðu hætt í íþróttum vegna ótta við flengingarnar. „Þetta er alveg eins og hvert annað ofbeldi þar sem krakkar eru að reyna að komast inn í hópana. Þetta á að afnema með öllu og það á ekki að fara neina millileið," sagði Þorlákur. Hann bendir sömuleiðis á það hversu ömurlegar fyrirmyndir „strákarnir okkar" eru þegar þeir taka þátt í þessu niðurlægjandi og ofbeldisfulla athæfi og hafa það svo í flimtingum: „Þarna eru fyrirmyndirnar og krakkarnir apa þetta eftir. Það á ekki að vera gantast eitthvað með svona." ÍSÍ hefur nú tekið á sig rögg, ætlar að kanna hversu útbreiddar flengingarnar eru og taka svo fyrir þær. Það er rétt afstaða. Það á að sjálfsögðu að taka við nýliðum í íþróttaliðum af virðingu og væntumþykju, en ekki með heimskulegu ofbeldi og niðurlægingu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Forréttindablinda strákanna í Viðskiptaráði Sonja Ýr Þorbergsdóttir Skoðun Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun
Furðulegt hefur verið að fylgjast með umræðum innan íþróttahreyfingarinnar undanfarna daga um flengingar sem einhvers konar hópefli og „busavígslu" í íþróttaliðum. Málið komst í hámæli eftir að nýliði í landsliðinu í handbolta sagðist gera ráð fyrir að verða flengdur eftir fyrsta landsleikinn sinn og að það væri guðsþakkarvert að ein af handboltahetjunum okkar væri hætt í liðinu, af því að viðkomandi kempa væri svo harðhent. Í framhaldinu sagði Ómar Ragnarsson fréttamaður frá því á bloggsíðunni sinni að hann vissi dæmi svipaðra flenginga í yngri flokkum íþróttafélaga, þar sem menn kæmu heim, jafnvel flengdir til blóðs, og gætu varla setið eða legið eftir meðferðina. Ómar krafðist rannsóknar á málinu innan íþróttahreyfingarinnar. Fyrstu viðbrögð forsvarsmanna ÍSÍ voru að draga í efa að svona væri í pottinn búið. Fljótlega voru hins vegar dregin fram dæmi í fjölmiðlum, þar á meðal hér í Fréttablaðinu, þar sem nafngreint íþróttafólk segir frá slíkum flengingum, meðal annars á fjórtán og fimmtán ára unglingum sem voru að byrja að spila með meistaraflokki. Sumum finnst flengingarnar fullkomlega eðlilegar. „Þetta er bara hefð og menn hafa ekki slasast að því ég best veit," sagði Einar Þorvarðarson, framkvæmdastjóri Handknattleikssambandsins, hér í blaðinu. Öðrum finnst málefnið fyndið og skemmtilegt. Þannig sagði leikmaður með meistaraflokki kvenna hjá ÍBV í samtali við Fréttablaðið að það væri „gaman að þessu" og ætti kannski að endurvekja flengingahefð sem hefði lagzt af þar á bæ. „„Kjúllarnir" hafa aldrei fundið fyrir því að vera nýliðar. Þær eru bara hluti af eldri hópnum og kannski ágætt að þær finni fyrir því að þær séu yngri og að spila fyrstu leikina í meistaraflokki," sagði leikmaðurinn. Með öðrum orðum finnst henni sjálfsagt og eðlilegt að niðurlægja fólk sem hefur náð þeim árangri í íþrótt sinni að fá að spila með meistaraflokki. Þorlákur Helgason, framkvæmdastjóri Olweusar-áætlunarinnar gegn einelti, setti þennan bavíanahátt í rétt ljós í samtali við Fréttablaðið á föstudag. Hann sagðist vita til þess að börn hefðu hætt í íþróttum vegna ótta við flengingarnar. „Þetta er alveg eins og hvert annað ofbeldi þar sem krakkar eru að reyna að komast inn í hópana. Þetta á að afnema með öllu og það á ekki að fara neina millileið," sagði Þorlákur. Hann bendir sömuleiðis á það hversu ömurlegar fyrirmyndir „strákarnir okkar" eru þegar þeir taka þátt í þessu niðurlægjandi og ofbeldisfulla athæfi og hafa það svo í flimtingum: „Þarna eru fyrirmyndirnar og krakkarnir apa þetta eftir. Það á ekki að vera gantast eitthvað með svona." ÍSÍ hefur nú tekið á sig rögg, ætlar að kanna hversu útbreiddar flengingarnar eru og taka svo fyrir þær. Það er rétt afstaða. Það á að sjálfsögðu að taka við nýliðum í íþróttaliðum af virðingu og væntumþykju, en ekki með heimskulegu ofbeldi og niðurlægingu.