Handbolti

Strákarnir okkar byrja á tveimur morgunleikjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson fagnar hér einum af sigrunum á ÓL fyrir fjórum árum.
Snorri Steinn Guðjónsson fagnar hér einum af sigrunum á ÓL fyrir fjórum árum. Mynd/Vilhelm
Nú er orðið ljóst hvernig leikjadagskrá íslenska handboltalandsliðsins verður á Ólympíuleikunum í London en íslensku strákarnir munu spila á tveggja daga fresti.

Fyrsti leikur Íslands verður á móti Ameríkumeisturum Argentínu sunnudaginn 29. júlí en tveimur dögum síðar mæta strákarnir Afríkumeisturum Túnis.

Fyrstu tveir leikirnir byrja klukkan 8.30 um morguninn að íslenskum tíma en hinir þrír leikirnir í riðlinum eru síðan seinna um daginn eða á móti Svíþjóð (fimmtudagur 2. ágúst, klukkan 20.15), Frakklandi (laugardagur 4. ágúst, klukkan 18.30) og Bretlandi (mánudagur 6. ágúst, klukkan 15.15). Átta liða úrslitin fara síðan fram miðvikudaginn 8. ágúst.

Íslenska landsliðið byrjaði að æfa í gær en Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari, þarf að tilkynna 14 manna hópinn fyrir lok vikunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×